03.12.1943
Neðri deild: 58. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (2151)

110. mál, jarðræktarlög

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason) :

Það var aðallega eitt atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl. n., sem gerði það að verkum, að ég sá ástæðu til að taka til máls aftur. Hann tók fram, hv. þm. Mýr., að það væri alveg rangfærsla frá hálfu minni hl. n., að það hefði verið gert til samkomulags hér á árunum, þegar nýbýlasjóðsl. voru samþ., að hafa ákvæði í 48. gr. þeirra, sem er hliðstætt ákvæði 17. gr. jarðræktarl., vegna þess að framsóknarmenn og Alþflmenn hefðu haft aðstöðu til þess að koma því frv. í gegn, þó að við sjálfstæðismenn hefðum snúizt á móti því. Það er rétt. En það var um þessi l. eins og svo mörg önnur, að þetta var ekki alveg bundið við flokka þá, og menn vilja gjarnan, ef þess er kostur, hafa samkomulag um að koma einhverju af málum sínum fram, þó að það kosti hitt, að samþ. eitthvað, sem kannske er ekki nákvæmlega eftir skoðunum manns. Og svo var um þetta. Það varð samkomulag í landbn. þessarar hv. d., þar sem við þm. Mýr. áttum báðir sæti, um það að afgreiða þessi mikilsverðu l. með samkomulagi. Og það reyndist þannig, að við sjálfstæðismenn féllumst á að láta þetta ákvæði standa í nýbýlasjóðsl., eins og það er, gegn því, að við fengjum að hafa önnur áhrif á þessa löggjöf. Að öðru leyti þarf ég ekki að svara hv. frsm. meiri hl. n. út af þessari síðustu ræðu hans.

Mér kom ekki á óvart, þó að snúizt væri á móti þessu frv., sem hér liggur fyrir, af hv. 2. þm. N.-M., því að ég hef ástæðu til að halda, að eftir þeirri þekkingu, sem ég hef á þessu máli, að hann sé höfundur þessarar 17. gr. jarðræktarl., enda ber hún að ýmsu leyti hans handbragð. Það, sem hv. 2. þm. N.-M. var að tala um, að við hefðum upp á síðkastið samþ. í l. ýmis ákvæði þessu skyld, sem eru í þessari 17. gr., og tók þar sérstaklega til dæmis hafnarl., þá er þar algerlega ólíku saman að jafna. Það er af ríkisins hálfu eru lagðar fram stórar fjárhæðir, sem styrkir og sem lán til að framkvæma hafnarbætur, sem eru ekki einstaklingseign, heldur eignir hreppsfélaga og bæjarfélaga. Þess vegna er mjög eðlilegt, að í hafnarl. séu sett takmarkanaákvæði um það, að þær framkvæmdir, sem þar eru gerðar, megi ekki valda ótakmarkaðri verðhækkun á fasteignum vegna hafnarmannvirkjanna. Það út af fyrir sig er eitt rétt í þessum samanburði hv. 2. þm. N.-M., að það mun hafa verið sama hugsun og þessi, sem ég nú síðast nefndi, að koma í veg fyrir óhæfilega verðhækkun vegna framlaga þess opinbera, sem upphaflega vakti fyrir frá hans hálfu sem höfundi þessa ákvæðis, sem með 17. gr. var fellt inn í jarðræktarl. En sú hugsun hefur bara alveg ruglazt í heila þeirra, sem vilja halda þessu ákvæði, vegna þess að þetta ákvæði er þannig út búið, að það hefur ekki verkað á þann hátt, sem til var ætlazt, heldur til ógagns að öllu leyti. — Fleira ætla ég svo ekki að svara hv. 2. þm. N.-M.

Ég vil að gefnu tilefni þakka hv. 1. þm. Skagf. fyrir hans afstöðu til þessa máls. Það hefur komið í ljós, að eftir því sem lengra hefur liðið, hafa fleiri og fleiri bændur í landinu orðið andvígir þessu ákvæði — og það jafnvel án tillits til flokksafstöðu. Þess vegna er það, eins og vænta má af greindum mönnum, er vilja ekki renna sér á vegginn, eins og sumir gera, að þeir hafi þá afstöðu, sem þessi hv. þm. hefur, þegar hann er búinn að kynnast því, hvað þetta ákvæði er gagnslaust í reyndinni, en er aðeins haldið í l. til þess að skaprauna íslenzkum bændum.