10.12.1943
Neðri deild: 61. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í C-deild Alþingistíðinda. (2160)

146. mál, vegalög

Frsm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti. Samgmn. hefur á þskj. 526 gefið út nál. sitt um þetta mál. Eins og þar greinir, hefur n. ekki séð sér fært á þessu stigi að leggja til, að frv. þetta nái fram að ganga.

Frv. þetta snertir aðeins eina gr. vegal. eða þó reyndar tvær gr. —, ef þannig væri frá gengið, að samræmi væri í.

Ýmsir menn úr samgmn. þingsins hafa átt tal um þetta atriði, sem í frv. er til meðferðar, við vegamálastjóra og verið sammála honum um það, að við fyrsta tækifæri væri æskilegt, að endurskoðun færi fram á vegal. og þá líka þessum kafla, sem frv. þetta við kemur, þ. e., að sú endurskoðun væri ekki í því fólgin að bæta aðeins vegum í þjóðvegatölu, heldur líka að taka önnur ákvæði laganna og semja þau um með því að setja nánari ákvæði í staðinn.

Samgmn. er ekki fylgjandi þessum till., sem fram koma í frv. á þskj. 334. Þar er lagt til, að verkfærra gjald, sem kallað er, sé tekið til nýrrar meðferðar á þeim grundvelli, að þessi skattur verði hækkaður. En slíkir skattar sem þessi, sem kallaðir hafa verið nefskattar, eiga ekki lengur neinn stað í gjalda- og greiðslulöggjöf þjóðarinnar. Það mun ekki vera nema á tveim stöðum í okkar löggjöf, sem eimir eftir af slíku, þ. e. í kirkjulöggjöf, þar sem um er að ræða kirkjugjöld og prestgjöld, og svo þar, sem er þetta verkfærra gjald, þar sem viss upphæð skal greidd af hverri persónu á tilteknum aldri. Nú er komið svo, að öll gjöld miðast við það, sem kalla mætti eftir efnum og ástæðum, og er það beinlínis tekið fram í útsvarslöggjöfinni. Og í sjálfu sér er ekki um annað talað í skattal. Undantekningar eru frá þessu tollar og því um líkt, sem kemur öðruvísi út þó en beinn nefskattur, því að þar er ekki miðað við, að jafnt gjald skuli taka af hverri persónu. Nú er einnig svo komið, að þessi verkfærra gjöld eru að hverfa úr þýðingu. Þau voru í fyrstu lögð á til þess að mæta tiltölulega lítilli þörf vegna viðhalds vega í hreppum og sýslum. Nú er þetta orðið með öðrum hætti. Nú eru það útsvör og sýsluvegasjóðsgjöld, sem hrepparnir greiða, sem standa undir þessum kostnaði öllum, því að hreppavegagjaldið hangir aðeins við lýði enn; en er mjög lítill hlutur upp í það nú orðið, sem það í fyrstu var ætlað til að fullnægja, og það mundi ekkert gera til, þó að það hyrfi með öllu. Og fjöldi sýslufélaga er kominn inn á allt aðra braut til þess að fullnægja þessari þörf, sem er söfnun sýsluvegasjóða. Hv. þm. sjá því, að hér í þessu frv. er því nokkuð umhverft og ekki ástæða til að taka upp það, sem í því er farið fram á. Og ef samgmn. hefði komið með till. um breyt. á því atriði, sem frv. er um, þá hefði hún lagt til, að þetta verkfærra gjald yrði afnumið með öllu. En n. hefur ekki talið sérstaka ástæðu til þess á þessu þingi að fara inn á það að breyta þessum l. með því að samþ. slíka úrfellingu, en hefur borið fram rökst. dagskrá um, að ríkisstj. láti sem fyrst fram fara gagngerða endurskoðun á hinum almennu ákvæðum vegal. Ég vil því fyrir hönd n. óska þess, að sú afgreiðsla verði höfð á málinu, að samþ. verði þessi rökst. dagskrá.