27.09.1943
Efri deild: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í C-deild Alþingistíðinda. (2166)

68. mál, jarðræktarlög

Brynjólfur Bjarnason:

Mér er mikið ánægjuefni, að þetta frv. er fram komið. Mér skilst, að höfuðtilgangur frv. sé í fyrsta lagi sá að stuðla að því, að ræktunarframkvæmdir allar fari fram með sem fullkomnustum tækjum, og í öðru lagi að tryggja það, að styrkurinn verði fyrst og fremst miðaður við býli, sem þurfa hans helzt með, og takmarkaður við það, er býlið er komið í það ástand, að það þarf ekki framar á styrknum að halda. Þetta er hvort tveggja endurbótamál á sviði landbúnaðarins og hefur lengi verið aðkallandi, enda mikið rætt á undanförnum árum. Í fyrra var á þessu sama þ. samþ. þáltill., þar sem Búnaðarfélaginu var falið að láta fram fara allýtarlega rannsókn á landbúnaðarmálum Íslands og undirbúa gagngera breytingu á landbúnaðarlöggjöfinni í því skyni að búa í haginn fyrir víðtæka nýskipun landbúnaðarins. Eitt af verkefnunum var talið það að rannsaka, hvar skilyrði væru bezt til landbúnaðarframleiðslu, svo að hægt yrði að haga búnaðarlöggjöfinni svo, að styrkur til búnaðarframkvæmda yrði til að beina landbúnaðinum í ákveðinn farveg. Þetta náði fullu samþ. á þ. Ég vil nú í tilefni af þessu frv. beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm., hvað þessari rannsókn líður og hvað Búnaðarfélagið hefur gert í þessu máli. Ég tel það mikils varðandi, að því er snertir frekari aðgerðir í þessu máli, að hv. d. fái eitthvað um það að vita.

Um það ákvæði, að styrkur til einstakra býla skuli látinn niður falla, þegar þau eru komin í það ástand, sem telja verður viðunandi, er það að segja, að það er í samræmi við frv., sem ég hef flutt áður hér á þ., en komst aldrei lengra en í n. Þar var gert ráð fyrir, að ekki aðeins hluti styrksins, heldur styrkurinn allur falli niður, þegar býlið væri komið í viðunandi ástand. Ég álít, að með þessu frv., sem hér liggur fyrir, sé stigið verulegt skref áleiðis í landbúnaðarmálum, en þó ekki nema skref. En ég tel mikla nauðsyn á, að stigið sé mun stærra skref, því að þetta er að ýmsu leyti ekki nema hálft. Í fyrsta lagi er jarðræktarstyrknum skipt í tvennt: það, sem veitt er samkv. þeim kafla l., sem ætlazt er til, að bætt verði við jarðræktarl., ef frv. nær samþ., og svo það, sem veitt er samkv. II. kafla l., eins og þau eru nú. Ég hefði talið æskilegt, að þessi tvískipting ætti sér ekki stað. Og þó að þetta frv. yrði samþ. óbreytt að þessu sinni, tel ég æskilegt, að stefnt verði að því, að í framtíðinni fari öll jarðrækt fram með vélum, að því leyti, sem við verður komið, og að ekki verði látin gilda nein sérstök regla um þennan styrk, heldur verði allar styrkveitingar á þessu sviði, sem til gagns horfa, látnar hlíta sömu reglum. Í öðru lagi er þetta skref hálft að því leyti, að nauðsyn ber til þess, að jarðræktarstyrkurinn verði ekki veittur alveg án tillits til þess, hver skilyrði eru til landbúnaðarframleiðslu á hverjum stað. En samkvæmt þessu frv. er það að mestu leyti á valdi bóndans, hvaða jarðræktarframkvæmdir hann lætur gera, og það er enn fremur á valdi hans, hvar slíkar framkvæmdir eru látnar fara fram. Takmarkið hlýtur að vera að beina landbúnaðarframleiðslunni í þá átt, að hún verði sem hagkvæmust og að hver grein hennar um sig verði rekin á þeim stöðum, þar sem skilyrðin eru bezt. Og löggjöfin þarf að komast í það horf, að hún verði til að örva þá þróun. En til þess að löggjöfin geti komizt í slíkt horf, þarf mikla rannsókn og mikinn undirbúning. Ég er ekki að segja þetta af því, að ég telji samþ. þessa frv. eiga að bíða eftir því, að þeirri rannsókn og þeim undirbúningi sé að fullu lokið, heldur vil ég benda á nauðsyn þess, að hér sé haldið áfram á réttri braut. Og ég er sammála hv. frsm. um það, að ef rétt verður stefnt, þá geti þetta frv. orðið upphaf að þeim aldahvörfum í íslenzkum landbúnaði, sem verða að koma, ef þessi atvinnuvegur á að geta átt sér nokkra framtíð.