27.09.1943
Efri deild: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í C-deild Alþingistíðinda. (2167)

68. mál, jarðræktarlög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir hv. þm., sem hér hafa talað, lýsa ánægju minni yfir framkomu þessa frv., og það er ósk mín, að afgreiðsla málsins verði í samræmi við undirtektirnar hér í hv. d.

Það er ljóst, að þegar svo er komið, að hörð átök eiga sér stað milli launþega og framleiðenda og ekki er lengur hægt að framleiða hér landbúnaðarvörur til útflutnings, þá hlýtur úrræðið að verða það að taka vélaaflið í þjónustu landbúnaðarins meir en verið hefur. Með þeim hætti einum er hægt að skapa báðum þessum aðilum betri lífsskilyrði, og með þessu frv. er einmitt stefnt í þá átt. En einmitt vegna þess, hve þessi nauðsyn er brýn, er líka nauðsynlegt, að málið sé eins vandlega undirbúið og kostur er á og svo mikill samhugur ríkjandi hjá öllum þeim, sem um það eiga að fjalla, að hvert einasta atriði sé þar brotið til mergjar, svo að það geti ekki síðar meir orðið þröskuldur á leiðinni að takmarkinu.

Við fljótan yfirlestur á frv. sé ég, að liðirnir a og b í 1. gr. fela aðeins í sér heimildir. Þar er ætlazt til, að framkvæmdir þær, sem um ræðir, verði komnar í kring á næstu tíu árum. Í liðunum c–g er hins vegar ekki aðeins um heimildir að ræða, heldur eru þeir bein lagafyrirmæli. Að því er c-lið snertir, vil ég taka undir með hv. 3. landsk. um það, að æskilegra hefði verið, að legið hefði fyrir nákvæm áætlun um kostnað og annað það, er til greina kemur. Það mundi auðvelda mjög meðferð málsins, ef þm. hefðu tök á að gera sér kostnaðarhliðina ljósa. Og ég vil leyfa mér að gera þá fyrirspurn til hv. frsm., hvort hann telji, að Búnaðarfélagið muni geta látið fara fram þær athuganir, sem um getur í c-lið 1. gr. Mér er sjálfum ljóst, að þetta hlýtur að vera mjög mikið verk, en áður en ég greiði atkv. um málið, vildi ég gjarna vita, hvort ekki megi búast við, að þetta taki mörg ár, og eins vildi ég fá að vita, hve mikið þetta mundi kosta ríkissjóð.

Í d-lið er tekið fram, að þegar lokið sé undirbúningi þeim, sem um ræðir í 61. gr., skuli Búnaðarfélag Íslands annast útvegun nauðsynlegra véla og verkfæra. Í því sambandi vil ég benda á það, að ef svo skyldi reynast, að rannsókn fyrr nefndra atriða ein saman tæki mörg ár, væri óheppilegt að setja nú ákveðin lagafyrirmæli um það, að vélarnar skuli þá fyrst kaupa, er henni væri lokið. Ég vil því varpa fram þeirri spurningu, hvort ekki sé rétt að ákveða, að hluti þessara véla skuli keyptur jafnóðum og þessar rannsóknir og mælingar liggja fyrir frá Búnaðarfélaginu.

Í sambandi við það, sem stendur í e-lið, að þeim einum skuli heimilt að vinna með vélunum, sem til þess séu viðurkenndir af Búnaðarfélaginu, vil ég einnig varpa því fram, hvort ekki sé rétt að setja alveg skýlaus ákvæði um það, hvers konar mönnum skuli heimilt að fara með slíkar vélar. Þetta er gert, að því er snertir flestar vélar á sjó. Menn verða að hafa lokið ákveðnu verklegu og bóklegu námi til þess að öðlast slík réttindi, og hví skyldi það ekki líka gilda um vélar í landi?

Um kostnaðinn í heild er auðséð, að hann er í þrennu lagi: 1) mæling og uppdrættir, 2) hluti ríkissjóðs af vélakaupum, sem líka væri gott að fá vitneskju um, og 3) jarðræktarstyrkurinn. Ég hef ekki haft ástæðu til að kynna mér, hve mikill þessi styrkur muni verða, en ef ætti að slétta öll tún landsmanna, þykir mér líklegt, að hann mundi nema að minnsta kosti 18 millj. kr. auk uppbótar. En á síðustu 15 árum munu hafa verið greiddar í jarðræktarstyrk 6–7 millj. kr. Styrkurinn mundi með öðrum orðum nema meira en tvöfaldri þeirri upphæð, sem greidd hefur verið á undanförnum 15 árum. Menn mega ekki skilja orð mín svo, að ég telji þetta of mikið. En mér finnst ástæða til, að Alþ. reyndi, um leið og það gengur frá málinu, að gera sér ljóst, hve miklu þessi upphæð mundi nema, og tryggði um leið, að unnt yrði að greiða hana. Hv. frsm. gat þess, að þetta mundi hafa mjög mikil útgjöld í för með sér, og væri rétt, að gerð yrði einhver áætlun um þau, svo að hv. þm. geti komið sér niður á það, hvort þeir treysta sér til að samþ. slík útgjöld eða ekki.

Ég vildi mega beina þeirri aths. til hv. frsm., hvort ekki væri rétt að setja inn í l. það bráðabirgðaákvæði, að jarðræktarstyrkurinn væri hækkaður töluvert, t. d. um helming, a. m. k. þangað til hægt væri að skipuleggja þessar framkvæmdir. Þetta er aðeins ábending frá minni hálfu, og ég veit, að hv. landbn. mun vilja taka þetta til athugunar.

Ég vildi þá aðeins minnast á það, sem komið hefur fram viðvíkjandi styrknum, sem er ekki veittur til þeirra, sem búa á jörðum í dreifbýlinu, er samkvæmt áliti Búnaðarfélags Íslands eru ekki til þess fallnar að verða frambúðarjarðir. Mér skildist á hv. 3. landsk. og hv. 5. þm. Reykv., að það væri lagt töluvert upp úr því, að þessi styrkur færi til þeirra manna, sem ekki byggju á jörðum, sem hafa fundið náð fyrir augum Búnaðarfélagsins, sem væru álitnar of lélegar, til þess að þeim væri haldið við. Ég vil í sambandi við þetta mál minna á, að ég hef ekki orðið var við það, að þeir, sem búa á hinum afskekktari jörðum, hafi fengið nokkru meiri styrk til jarðræktar en hinir, sem hafa haft betri aðstöðu.

Ég er þeirrar skoðunar, að þessi atriði yfirleitt þurfi að taka til alvarlegrar athugunar, og hvort það sé rétt stefna að færa byggðina saman. Ég held, að ég hafi á þessu stigi málsins tekið flest það fram, sem ég vildi segja um þetta mál. Ég vil endurtaka það, að ég vildi mega vænta þess, að það gæti tekizt samvinna um það að afgr. þetta mál frá þinginu, svo að allir mættu við una, og það gengi svo fljótt sem unnt væri.