13.12.1943
Efri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í C-deild Alþingistíðinda. (2178)

68. mál, jarðræktarlög

Frsm. meiri hl. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. Enda þótt hægt væri að segja margt um frv. þetta og málefni, þá skal ég nú með tilliti til þess, hve áliðið er dags, stilla orðum mínum svo í hóf, að þau verði ekki fleiri en nauðsynlegt er til þess að gera grein fyrir afstöðu meiri hl. landbn., sem hafði mál þetta til athugunar. Niðurstaðan varð því miður sú, að n. gat ekki alls kostar átt samleið um það, svo sem nál. ber með sér, því að þrír af fimm nm. hafa hér skilað sérstöku nál. á þskj. 540, og leggja þeir til, að frv. verði afgreitt með rökstuddri dagskrá. Viðvíkjandi öllum meginatriðum get ég vísað til nál., sem gerir grein fyrir þeim aðalatriðum, sem til greina koma og valda því, að við í meiri hl. sjáum okkur ekki fært að mæla með framgangi frv. Ég vil taka það fram strax, að þó við í meiri hl. séum á einu máli um þá niðurstöðu að afgreiða frv. með rökstuddri dagskrá, er hins vegar þannig ástatt, að um ýmis mikilsverð atriði í framkvæmdum jarðræktarmálanna hér á landi eru nokkuð skiptar skoðanir. Ég vil og geta þess hér, sem annars er minnzt á í nál., að ýmsar sérskoðanir koma til gx eina umfram það, sem sagt er í nál., þó að það raski á engan hátt þessari niðurstöðu okkar, eins og ég hef nú þegar drepið á. Það má segja það, að frv. eins og það liggur fyrir sé að því leyti góðra gjalda vert, að það er komið fram af góðum huga til jarðræktarinnar, þótt menn hins vegar séu ekki á eitt sáttir um niðurstöðuna. Þessu máli er þannig farið eins og fleirum; að um það má deila, og því stærra sem málið er, þeim mun viðsjárverðara er að ganga frá því í flýti, ef nauðsynlegan undirbúning skortir, vegna þess að það þarf vel að vanda, sem lengi á að standa. Eins og nál. ber með sér, leitaði landbn. álits Búnaðarfélags Íslands um frv. þetta, og samkvæmt umsögn Búnaðarfélagsins er hún hvetjandi lagasetningu í samræmi við frv., svo fljótt sem unnt er, en hins vegar koma fram í sömu umsögn þær upplýsingar, að mikilsverð undirstöðuatriði, sem Búnaðarfélagið álítur, að krefjist mikilla rannsókna og mælinga, taki mjög langan tíma og mikla fyrirhöfn. Gerir Búnaðarfélagið ráð fyrir, að þetta yrði þriggja ára starf um tuttugu sérfróðra manna fyrir utan þá aðstoð, er þeir þyrftu. Þar sem ég fyrir mitt leyti verð að líta á slíkar athuganir sem undirstöðu, er eigi að ganga fyrir verklegum framkvæmdum frv. sjálfs, og þegar þeir, sem eiga að taka að sér framkvæmdirnar, telja, að þær kosti svo mikla fyrirhöfn, þá virðist ástæða til að spyrja, h vað liggi á þessari lagasetningu, — því að það sér hver maður, að sú leið, sem Búnaðarfélagið ætlast til, að farin verði, lætur haft margvísleg áhrif á gang málsins og gæti leitt til þess, að málið breyttist á marga vegu, eftir að rannsóknum þessum væri lokið. Þess vegna finnst mér, að beinast hefði legið fyrir, ef fyllsta alvara liggur á bak við þetta frv., að útvega sér nákvæmar upplýsingar hjá Búnaðarfélaginu og hugsa sér síðan lagasetningu í samræmi við þær í staðinn fyrir að hlaupa í að gera þetta frv. um tíu ára áætlun, og samþ. leið með bindandi ákvæðum, áður en lengra er komið. Mér finnst, að það sé fjarri öllu lagi, að ég fari að drótta því að flm. frv., að það væri gert af skammsýni og fávizku, eins og ef þeir færu að bera okkur í meiri hl. landbn. á brýn, að við værum ekki jafn stórhuga eða framsýnir og þeir. En þarna verða málsástæður að vegast á, og ég tel þær málsástæður aðeins bera vott um gætilega siglingu, en ekki hitt, að ekki sé ætlazt til, að siglt sé til sömu hafnar um framgang eins bezta málefnis þjóðarinnar. Ég skal svo vera fáorður um aðra ágalla frv., en um þann ágalla, sem ég tel mestan, hef ég nú minnzt á, en hann er sá, að ég tel þessa tíu ára áætlun mjög varhugaverða, því að ég er þeirrar skoðunar, að jarðræktarlögin muni eins og hingað til verða happadrýgst með hinum frjálsmannlegu aðferðum, eins og ég hef nefnt það, en það er samkeppni í starfi innan vébanda þeirrar reglu, sem nú þegar er farin samkvæmt jarðræktarl., eins og þau eru, og þá um leið með sams konar takmörkunum, sem þar eru settar. Ég veit, að allir velunnarar landbúnaðarins og þeir, sem líta á þarfir hans, munu jafnan vera fúsir til að stuðla að því, að hann fái þau fjárframlög frá ríkinu á hvaða tíma sem er, sem hann þarfnast; án tillits til þess, hvort svo bindandi aðferðir eru við hafðar eða eigi. Því er nú þannig farið, að ef frv, nær fram að ganga, getur maður engar áætlanir gert um það, hverjar byrðar ríkissjóðs yrðu eða hversu hagkvæmt reyndist að ljúka þessari tíu ára áætlun, því að stundum kemur það fyrir, hvað snertir getu ríkissjóðs til fjárútláta og framkvæmda, að eitt árabil er hagstætt, en annað tímabil er miður. Og álít ég því þá leið, sem ætluð er, að farin verði samkv. frv., mjög varhugaverða. Ég hygg, að það sé réttmætt að halda því fram, að eins og jarðræktarl. eru nú, séu bændur með þeim hvattir og studdir umfram aðra, sem erfiða aðstöðu eiga.

Þótt það sé mikils virði, að bændur fái bætta aðstöðu, þá er hitt ekki síður mikils vert, að þeir neyti átakanna, sem bezt lagið hafa á því. Það má ekki slíta land og þjóð úr sambandi, því að samband þar á milli er nauðsynlegt, til þess að þjóðin fái notið sín.

Að svo mæltu vil ég leggja til, skv. nál., að frv. fái afgreiðslu skv. rökstuddri dagskrá okkar.