13.12.1943
Efri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (2182)

68. mál, jarðræktarlög

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég skal ekki heldur verða langorður um þetta mál. Þingstörfum er nú svo langt komið, að sýnilega er komið los á menn við þingstörfin, en ég álít, að þessu máli hefði verið samboðið, að um það hefðu orðið verulegar umr. við betri kringumstæður en nú eru hér á þingi. Ég býst við, að eftir sé að ræða þetta mál bæði hér og annars staðar.

Ég verð að segja, að fyrir mig eru það mikil vonbrigði, hvernig meiri hl. landbn. hefur snúizt við þessu máli. Ég efast ekki um, að þeir eru þeirrar skoðunar, sem kemur fram í nál. þeirra, en ég er sannfærður um, að þeim yfirsést þar um mjög veruleg atriði.

Því er haldið fram hér, að ekki sé rétt að ráðast í þessar framkvæmdir, þar sem ekki sé vitað, hvað kosti að slétta tún eða gera 500 hesta tún eða sléttslægt land við hvern bæ á Íslandi. En ég verð að segja, að þegar byrjað var að leggja vegi á Íslandi, var ekki rannsakað fyrir fram, hvað kostaði að gera akfæran veg norður eða austur um land eða út á annes. Við erum að gera hafnir og ætlum að halda því áfram án þess að rannsaka fyrir fram, hvað það kosti, en styrkjum þær framkvæmdir í ákveðnum hlutföllum. En þó að ég taki samlíkingu af þessu tvennu, þá er ekkert af þessu sambærilegt við það, sem hér á að gera, af þeirri einföldu ástæðu, að við vitum, að ef þjóðin á nokkra framtíð, þá er það höfuðskilyrði, ef íslenzkur sveitabúskapur á að geta lifað, að heyskapur verði stundaður eingöngu á véltæku landi. Ef við höfum ekki efni á að gera þetta, þá höfum við ekki efni á að reka landbúnað á Íslandi. Og svo mikið er víst, að þótt það kunni að kosta þjóðina nokkuð að slétta túnin og búa til þessi slægjulönd, þá kostar það þjóðina vissulega miklu meira, þegar til lengdar lætur, að eyða vinnukrafti sínum í þau vinnubrögð, sem fylgja þýfinu, með þeim afleiðingum, að stöðugar deilur séu um það verð, sem á landbúnaðarvörunum verður og bændur þurfa að fá, sem er eðlileg afleiðing af þessum vinnubrögðum.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir, að sett verði lágmark fyrir véltæku landi á hverju býli á landinu. Það er vitað mál, að það er ekki nema áratugur, þangað til þessi lágmarkskrafa verður of lítil. Þá komum við inn á það, sem annars staðar er, að túnin séu plægð upp á 5–10 ára fresti og skiptirækt viðhöfð. Þetta lágmark, 500 hestar á býli, er því að koma landbúnaðinum af hreinu frumstigi, sem tæplega á sér stað í nokkru öðru landi lengur. Það er vitað, að landbúnaðurinn getur ekki lengur þrifizt með þeim vinnubrögðum. Það þarf því enga áætlun af þeirri einföldu ástæðu, að eins og ég sagði áðan, eru slík vinnubrögð miklu dýrari en að gera landið véltækt. Annars vil ég benda á, þegar verið er að tala um, hvað þetta verk kosti, að við höfum gert þessa áætlun í jarðræktarl. Sá styrkur, sem er ætlaður til túnsléttunar samkvæmt þessu frv., er jafnhár og í bráðabirgðaákvæði jarðræktarl., svo að hver bóndi á Íslandi, sem vill slétta tún sitt, á kröfu á þessum styrk, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. En þetta hefur verið í l., án þess að gerð hafi verið nokkur áætlun um það fyrir fram. Og einnig á að fara lengra hér í að stækka túnin, þar sem þau eru ekki áður orðin svo stór, að þau nái því lágmarki, sem hér er sett. Og það þarf vissulega að gera nýtt átak, til þess að hægt verði að ná því sem fyrst.

Þá er talað um, að það þurfi að reyna þessar vélar og þess vegna sé ekki hægt nú að ráðast í þessar framkvæmdir. Þetta er rangt. Fagmenn okkar vita, hvernig þessar vélar eru og hvernig þær hafa reynzt. Við eigum góða sérfræðinga hér innan lands, sem hafa reynt þessar vélar í það mörg ár og það vel, að þegar er komin á þær nokkur reynsla, næg til þess að hefja nú störf með fullum hraða. Menn þurfa því ekki að halda, að hér sé engin reynsla fengin. Moldin hér er ekki ósvipuð og annars staðar, þar sem full reynsla er á þessum vélum. Þær eru frá þekktum verksmiðjum, sem hafa selt þær svo að árum og áratugum skiptir víða um heim. Það er því ekki annað en hreinn misskilningur, að hér vanti reynslu, — hún er þegar fengin. Það er því engin ástæða fyrir þær sakir að fara að tefja þetta mál.

Það er stundum talað um sleifarlag í íslenzkum landbúnaði, bændur fylgist ekki með tímanum, noti úreltar vinnuaðferðir og þess vegna séu framleiðsluvörur þeirra svo dýrar. En hvernig hefur það verið með okkur, sem höfum ráðið vegavinnunni? Hefur ekki verið sama sleifarlagið þar? Hafa ekki verið notaðar sömu úreltu vinnuaðferðirnar þar? Við þurftum að láta útlendinga koma hingað með nýtízku vélar og vinna með þeim fyrir augunum á okkur, til þess að við lærum þessi vinnubrögð. Þetta hefur ekki farið fram hjá bændum, hvernig þessar vélar vinna. Þeir vita, að margar af þessum vélum eru notaðar til vegavinnu og jarðræktar jöfnum höndum og að reynsla er komin á þær. T. d. má taka ámokstrarvélarnar. Verkstjóri, sem unnið hefur með þeim, segir að sér detti ekki í hug að taka upp gömlu aðferðina aftur, — þær moki á við tugi manna og hann getur ekki horft á hin vinnubrögðin eftir það. Um þetta vita bændur, og þetta hefur vakið svo mikinn áhuga úti um land, að það er sama, á hvaða bæ komið er, þá eru menn spurðir um þetta mál af þeirri einföldu ástæðu, að bændur úti í sveitum eru þannig settir, að þeir hafa engan vinnukraft til að slétta tún og engi, og þess vegna verða þeir að fá hentugar vélar til að vinna með. Nú bíður fjöldi bænda úti um allt land eftir því að fá þessar vélar til að slétta tún og brjóta nýtt land, en fá þær ekki. Sumir hafa beðið, svo að árum skiptir, eftir þeim. Þið getið farið hvert á land, sem er, komið í hvaða sveit, sem er, þið munuð reka ykkur á, að á öðrum hverjum bæ er áhuginn á þessum vélum. Og allir vænta þess, að þær geti komið sem fyrst, en þær hafa ekki fengizt og eru dýrari en svo, að bændur geti keypt þær hjálparlaust.

Það er sennilega rétt, sem stóð nýlega í einu blaði, að þetta frv. væri ekki merkilegra en það, að í því væri gert ráð fyrir sams konar samtökum og einn bóndi á Norðurlandi hefði þegar beitt sér fyrir. Ég hef aldrei neitað því, og mér þykir það sennilegt, og það er vottur þess, að þetta frv. er flestum öðrum frv. fremur hér á þingi talað út úr huga bænda þessa lands. Þeir sjá, að þeir geta ekki ræktað landið nema með samtökum og þeir verða að fá nýjar vélar. Og hér er gert ráð fyrir að hjálpa þeim til að fá þær og vinna þessi verk.

Eitt af þeim atriðum, sem mér skilst, að fært sé fram gegn þessu frv., er það, hvað þessi rannsókn taki langan tíma. Ég vil segja, að ég hefði haldið, að ekki órökfimari maður en sá, sem flutti þau rök fram, hefði einhvern tíma notað þau rök þannig, að þá veitti ekki af að byrja. (HG: Ég hef boðið það). Það er annað, sem hann hefur ekki boðið. Eins og hv. frsm. minni hl. tók fram, þá á það að taka þrjú ár að rannsaka allt, sem gert er ráð fyrir að rannsaka, ef þetta frv. yrði að l. En það er ekki ætlunin að bíða, þangað til þeirri rannsókn er lokið. En mér skilst á hv. 3. landsk. þm. að hann segi sem svo: Fyrr en rannsókn er lokið, er ekki hægt að vita, hvað ræktunin kostar, og þar af leiðandi ekki hægt að ákveða, hvað styrkurinn á að vera hár. Og þá verður ekkert gert, fyrr en eftir mörg ár. — Vitanlega á frv. að verða að l. með hliðsjón af þeim rannsóknum, sem gerðar hafa verið, og þeirri reynslu, sem fengin er, og framkvæmdir síðan hafnar samkvæmt þeim l. Þegar á þessu fyrsta ári mundi verða lokið þriðja hluta af rannsóknunum, og þá yrði hægt að hefja framkvæmdir. En þetta er ekki hægt, nema ríkisstj. sé heimilað, svo að löglegt sé, að veita styrk til vélakaupa. Ég segi það enn og að lokum, að ég ætla ekki að taka undir með þessum kyrrstöðuöflum hér né tala langt mál um þetta, en það veldur mér sárum vonbrigðum, hverjar undirtektir málið hefur fengið. Ég hélt, að búið væri að tala lengi um það, hve framkvæmdir landbúnaðarins væru á eftir tímanum, þó að margur atvinnurekstur í landi okkar sé raunar í svipuðu ástandi, t. d. sjávarútvegurinn. En nú, þegar við gerum okkur von um, að úr þessu rætist með þessu frv. og framtíð landbúnaðarins veltur á því, að hafizt sé handa um þessar framkvæmdir sem fyrst, þá er hart, að þeir menn, sem vel tóku í málið við 1. umr., beita sér gegn því og reyna að tefja fyrir því. Það er vitað, að mikill áhugi er á þessu máli víðs vegar um landið og mikil nauðsyn á því, að það verði ekki stöðvað. Málið kann að verða borið fram á næsta þ., en vel kann að vera, að bændur neyðist til að segja okkur skoðun sína á málinu gegnum Búnaðarfélagið, til þess að það megi mæta þeim skilningi, sem það á skilið. En vonandi ætti þó ekki að þurfa að koma til þess.