13.12.1943
Efri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (2185)

68. mál, jarðræktarlög

Frsm. minni hl. (Páll Hermannsson):

Ég held, að hv. þm. Str. hafi hitt naglann á höfuðið, þegar hann var að tala um það, að sú andstaða, sem hér er gegn frv., muni stafa af því, að þeir, sem vilja leggja stein í götu frv., væru ekki eins handgengnir því, sem hugsað er í sveitinni, og hinir, sem vilja greiða götu þess. Ég sagði þetta ekki til þess að særa neinn, heldur aðeins af því, að ég held, að þessu sé þannig varið. Ég álít, að þeim sé ekki eins ljóst og okkur, sem í dreifbýlinu búum, að það er ekki hægt að reka búskap nema stuðla fyrst og fremst að ræktun véltæks lands.

Ég held, að andstaðan gegn þessu frv. sé byggð á misskilningi, því að ég efast ekki um, að hv. þm. vilji koma til leiðar, að landið verði ræktað og að framleiðendur landbúnaðarafurða geti unnið með vélum á véltæku landi.

Einnig gætir misskilnings hjá sumum hv. þm. í ýmsu öðru, og vil ég í því sambandi benda á það, að hv. 3. landsk. las hér upp úr áliti Búnaðarfélags Íslands það atriði, að undirbúningur undir þetta starf á öllu landinu mundi taka minnst þrjú ár, og mér skildist, að hann liti svo á, að framkvæmdir samkvæmt frv. gætu ekki byrjað, fyrr enn þessari rannsókn væri lokið. Mér skilst, að hv. þm. líti svo á, að ekki eigi að útvega vinnuverkfæri, fyrr en lokið er undirbúningi á öllu landinu. Ég er hissa á, að þm. skuli skilja þetta svo. Meiningin er, að þegar eitt búnaðarfélag er tilbúið að fara að vinna, þá fái það það. Hvort sem litið er á málið í heild og þörfina eða litið er á frv. í heild, finnst mér kenna misskilnings. Mér finnst Búnaðarfélaginu sjást yfir, ef það ætlast til, að ekkert sé gert í 20 sýslum í þrjú ár.

Ég held, að hv. 3. landsk. hafi misskilið það, sem ég sagði um afgreiðslu þessa máls nú, að það hefði þýðingu, hvaða meðferð frv. ætti að mæta á næsta þingi.

Hv. 2. þm. Árn, komst svo að orði, að ekki ætti að gefa framkvæmdaviðleitninni lausan tauminn. Ég er honum alveg sammála, af því að það er þýðingarmikið mál fyrir allt landið, hefur margfalda þýðingu fyrir landið allt. Þetta er spor í áttina og ætti að ýta undir áhuga manna á ræktun landsins.

Hv. 7. landsk. benti á, að lítið væri um nýmæli í þessu frv. Það er rétt, en sumt eru nýmæli. Nú er fyrst að gera ráð fyrir undirbúningi og rannsókn, áður en ræktun landsins hefst. Þá verður og að taka tillit til staðhátta. Það þarf að stuðla að skynsamlegum og haganlegum kaupum vinnuvéla og gera kröfur til þeirra, sem með þær fara. Ef þær eru ekki vátryggðar, er ekki hægt að gera kröfur til þeirra, sem með þær fara.

Það þarf praktískari og betur gerðar framkvæmdir á hverjum stað. Það þarf að gæta þess, að vinnan sé nógu vel af hendi leyst. Sums staðar er landið ekki nógu þurrt. Þess misbrests gætir einna helzt hjá smælingjunum, sem minnst geta unnið að þaksléttun. Það þarf að vera 200 ferm. slétta, til þess að hún sé tekin út og goldinn styrkur út á hana.

Frv. á að ýta undir, að betur verði unnið að jarðræktarframkvæmdunum. Þá er styrknum vel varið, ef frv. nær þeim tilgangi sínum að auka jarðræktarframkvæmdirnar.

Í rökstuddu dagskránni er gert ráð fyrir, að látin verði fram fara rannsókn, og sömuleiðis er gert ráð fyrir útvegun véla, allt eftir því, sem miðað er við í frv.

Einn galli er tilfinnanlegur á rökstuddu dagskránni: Í g-lið 1. gr. frv. á þskj. 85 er sagt: Ríkið skal bera allan kostnaðinn. — Þarna er mælt svo fyrir, að ríkið skuli bera allan kostnaðinn. — Í dagskrártill. stendur ekki þetta, aðeins sagt: í trausti þess, að ríkisstj. hlutist til um framkvæmdir: — Það er því ekki beinlínis tekið fram í till., að ríkið eigi að standa straum af kostnaðinum.

Ég vil beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, að hann fresti atkvgr. til næsta fundar, þótt umræðu kunni að verða lokið nú, sérstaklega af því að margir þm. eru ekki viðstaddir.