13.12.1943
Efri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (2187)

68. mál, jarðræktarlög

Hermann Jónasson:

Ég ætla ekki að tala langt mál um frv., en þó eru nokkur atriði, sem ég vildi leiðrétta.

Það kom fram hjá hv. 7. og 3. landsk., að þeir álíta, að ríkinu væri bundinn of stór baggi með því að gera tíu ára áætlun. Það yrði ríkinu ofvaxið, telja þeir, og segja, að svipaðar hliðstæður séu ekki til í þjóðfélaginu og því ekki hægt að fara þessa leið. En jafnframt er á það bent, að frv. sé nægileg tíu ára áætlun fyrir landbúnaðinn. Að því er snertir fjárframlög, þá er ríkið bundið lögum um að inna af hendi greiðslur sem styrk til vélakaupa. Hugsum okkur, að bændur gætu keypt vélar. Þeir gætu framkvæmt stórfelldar jarðabætur, en eins og kunnugt er, háir vélaskorturinn þeim mjög mikið.

Það gæti alveg eins farið svo, ef ræktun færi hratt, að það gæti orðið ríkinu um megn að greiða þá styrki, sem á að greiða samkvæmt jarðræktarl., því það er bein krafa, sem hver bóndi á á íslenzka ríkið fyrir þá ræktun, sem hann innir af hendi, og það er ekki fyrir næstu tíu ár, heldur fyrir ókominn tíma, meðan þau l. eru í gildi. Við vitum, að ef vinna á eitthvert stórt verk, er fyrst og fremst nauðsynlegt að setja sér ákveðið takmark, og með því, að hreppabúnaðarfélögin eða ræktunarsvæðin setji sér ákveðið takmark að vinna eftir, eru líkur til þess, að verkið yrði eins vel og betur unnið en ella. Það má t. d. nefna það, að ef einhverjum þykir yfirlæti í þessari tíu ára áætlun okkar, væri mönnum hollt að líta til Englendinga, sem eru ekki gefnir fyrir það að vera með nokkurt sérstakt yfirlæti í sínum framkvæmdum, en þeir hafa leyft sér að gera fimm ára áætlun um ræktun landsins, og þeir færast ekki hlutfallslega minna í fang en það, sem hér er gert ráð fyrir, því það er meining þeirra samkvæmt þessari áætlun að gera gerbyltingu á öllum landbúnaði á næstu fimm árum og þar á meðal það, að leggja rafmagn inn á hvern einasta bæ, sem sérfræðingar hafa reiknað út, að verði ekki baggi á notkun rafmagnsins á bæjunum, vegna þess að notkunin verður svo almenn. Sleppum því atriði í sambandi við þessa áætlun. En þeir hafa gert þessa áætlun og hafa gert það vegna þess, að þeim er ljóst, að þeir vinna að því að skapa nýtt líf í þessum málum og nýjan stórhug og það er mjög gott ráð að láta bændur og ríkið sameiginlega setja sér takmark.

Það hefur komið fram í sambandi við þetta mál frá hv. 7. landsk. (KA), að ástæðan fyrir því, að hann væri andstæður þessu frv., a. m. k. ein aðalástæðan, væri sú, að hér er ekki gert ráð fyrir skipulagi og samfærslu byggðanna. Nú benti ég á það við 1. umr. og bendi á það enn, að það er mál út af fyrir sig. Það er bent á það í þessu frv., að þær jarðir, sem þykja ekki til frambúðar, verði látnar verða útundan og að á því verði gerð sérstök athugun. Hann vill koma því þannig fyrir, að vissir staðir á landinu framleiði vissar vörur, sem skilyrði eru bezt fyrir, og hann nefndi nokkur dæmi. Ég er ekki á móti þessu og tel líklegt meira að segja mjög líklegt, að þetta verði gert, en það hagar þannig til með íslenzkan landbúnað, að hvort sem bændur hafa sauðfjárrækt eða nautgriparækt, þurfa þeir að hafa véltækt tún og vel ræktaðar engjar. Það stendur þess vegna ekkert í vegi fyrir því, þótt ræktað verði með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir, að síðar verði gerð skipun á framleiðsluháttum. Þó að nú sé framleitt kindakjöt í einum landshluta og þó að tún séu ræktuð og engi sléttuð, stendur það engan veginn í vegi fyrir því, að nautgriparækt verði tekin upp á þessum stöðum, og það er af því, að sama þarf, hvort sem um nautgriparækt eða sauðfjárrækt er að ræða. Viðvíkjandi samfærslu byggðanna er líka auðsætt, að þótt allt verði framkvæmt, sem tekið er fram í þessu frv., kemur það ekki í veg fyrir, að taka mætti það fyrir síðar. Raunar er of mikið gert úr samfærslu byggðanna í vissum héruðum. Á einstaka stað er það hægt, eins og við Safamýri, en það er of mikið búið að tala , um þetta á óverulegum grundvelli. Það er hægt að færa saman byggðir á vissum stöðum, en það er ekki hægt að reka nema vissa tegund búskapar í samfærðri byggð. Það er ekki hægt að reka sauðfjárbúskap á Íslandi í samfærðri byggð. Það hefur verið reynt að koma stofninum upp fyrir þúsund, en það hefur sýnt sig, að það hefur verið svo mikil örtröð í kringum býlin, að það hefur orðið ákaflega erfitt. Ef maður vill kynnast þessu, þarf ekki annað en fara hér suður á nesið, þar sem hvert býli hefur nokkrar kindur, og verður það því talsvert fé, sem er þar í hálfgerðu svelti frá þorpunum. Þetta er ekki hægt. Féð þarf að hafa nóg landrými, og þess vegna er samfærsla byggðanna ekki nema fyrir nautgriparækt. En sannleikurinn er sá, að beztu skilyrðin fyrir sauðfjárrækt eru meðal dalabýlanna, á dreifðum býlum, enda er slíkur búskapur mest tíðkaður þannig um Norðurlönd, þar sem langt er komið. Menn geta farið um öll Norðurlönd og séð, að þannig er þetta framkvæmt, en það er ekki sama eins og sunnar, þar er kornrækt og ávaxtarækt. En við okkar aðstæður er þetta ekki framkvæmanlegt nema að mjög litlu leyti, og það er búið að tala of mikið um það. Í þessari fimm ára áætlun Englendinga er talað um, hvort iðnaður geti komið upp í sveitunum, en það er komizt að þeirri niðurstöðu, að það sé ekki framkvæmanlegt nema í mjög smáum stíl. Það er eyðsla á kapítali að láta verksmiðjurnar standa auðar, meðan fólkið vinnur að landbúnaðarstörfum, og auk þess verða lélegri afköstin hjá verkafólki, sem vinnur aðeins stuttan tíma úr árinu að verksmiðjuvinnunni. Það, sem við verðum að gera okkur ljóst, er það, að við búum við ríkt haf og á landi, sem liggur með strandlengjunni, og að það er ólíkt að ætla sér að flytja þorpin upp í sveit eða hafa þau við sjó, en það hefur aðeins hent það ólán, að um leið og þorpin risu upp, hefur þess ekki verið gætt, að þau hefðu nægilegt land. Við skulum t. d. taka pláss eins og Sauðárkrók, þar sem ég þekki til. Það er sjóþorp, sem hefur ekkert land, og við rannsókn, sem fram hefur farið, hefur það komið í ljós, að það er ekki nema eitt þorp á landinu, Húsavík, sem hefur nægilegt land handa íbúum sínum. Uppi í sveitum þurfa að vera fyrir hendi sérstök skilyrði, til þess að þar geti myndazt þorp, og við eigum fyrst og fremst eftir að vinna svo margt og gera svo stór verk viðvíkjandi þeim þorpum, sem eru við strandlengjuna, verk, sem hafa verið vanrækt. Þess vegna er það ekki galli á þessu frv., hvernig sem á það er litið, að ekki er í því gert ráð fyrir samfærslu byggðanna. Það er mál, sem er alveg sérstakt, og þessi framkvæmd kemur ekki í veg fyrir það, eins og hún kemur ekki heldur í veg fyrir það, að framleiðslan verði flutt til eftir því, sem bezt á við á hverjum stað.

Ég skal að lokum benda á, að það kom fram hjá hv. 3. landsk. (HG), að hann vill láta verkfærakaupanefnd ríkisins kaupa vélar á sama hátt og nú eru keyptar þær stóru vélar og leigja þær. Það þyrfti fyrst og fremst að setja um þetta einhverjar reglur, ef einhverjar framkvæmdir ættu að verða í því. Hugmyndin er, að stóru vélarnar, sem kosta 60–100 þús. hver, verði fyrst og fremst keyptar og leigðar út af ríkinu og verkfærakaupan. sjái um það, en smærri vélarnar yrðu keyptar af búnaðarsamböndunum og þau sæju um það, og yrði léttara að sjá um verkfærin þannig en ef ríkið á að eiga sjálft, svo að hundruðum skiptir, af verkfærum úti um land og leigja þar út dráttarvélar og þess háttar, og er það æði mikið verk, ef þær ættu ekki að ganga úr sér. Sjálfs er höndin hollust, og það eru smærri félögin, sem mundu sjá betur um þetta, ef þetta væri þeirra eigin eign og þau ættu að borga kostnaðinn, sem af því leiddi, ef þeir eyðilegðu vélarnar. Og hræddur er ég um, ef þessi dagskrártill. verður samþ., sem ég geri ráð fyrir, að engar framkvæmdir verði í þessu máli samkvæmt henni og þáltill. Það þarf enginn að láta sér koma til hugar, að stj. ráðist í stórfelld vélakaup, svo stórfelld sem þarf til þess, að vélarnar séu leigðar út, meðan ekkert er tekið fram um, hvernig eigi að leigja. En það þyrfti að ákveða, ef þessi leið yrði farin. Ég held þess vegna, að þeir, sem þessa leið vilja fara, ættu að athuga, áður en þeir samþykkja þessa rökst. dagskrá, að það þýðir stöðvun á málinu. Það kom líka beinlínis í ljós hjá hv. 3. landsk. (HG), því að hann segir, að það eigi að bíða með að ákveða styrk fyrir ræktun, þangað til séð verður, hvað vinnst með þessum nýtízku vélum, og að það eigi að bíða með að ákveða styrkinn til vélakaupa, þangað til séð verður, hvernig vélarnar reynast og hvað afköstin verða mikil. Með þessu er séð, að málið á að vera á tilraunastigi fyrsta kastið, en það er það, sem ég vil benda þm. á — og ég hef tekið fram áður —, að það er áreiðanlegt, að ef ekki verða gerðar skyndiráðstafanir til þess að hraða ræktun landsins, er útilokað annað en að íslenzkur landbúnaður leggist niður að verulegu leyti. Það er ómögulegt, eftir þá tíma, sem núna hafa gengið yfir þetta land, og með þeirri hækkun, sem orðið hefur á kaupi og engar líkur eru til, að lækki, svo að neinu nemi, að það verði hægt að kaupa fólk til að framleiða landbúnaðarvörur með þeim vinnuskilyrðum, sem fyrir hendi eru í íslenzkum landbúnaði. Ég minnist þess, að eitt sinn, þegar hv. 3. landsk. (HG) var að tala um landbúnaðarvöruverð í Nd., að þá var það, að bóndi, sem hafði verið uppi á svölunum og hlustað á það, sem sagt var, — að með þeirri ræktun, sem væri í sveitum landsins, ættu bændur að geta selt vörur sínar minna verði en þeir gerðu, kom til mín á eftir. Hann sagði: Af 47 bæjum í mínum hreppi eru aðeins 2 bæir, sem hafa véltækt land. Þessum bónda hafði verið vel við hv. 3. landsk. og haft mikið álit á honum, en hann varð fyrir miklum vonbrigðum, þegar hann heyrði, af hve mikilli vanþekkingu hann talaði um þetta mál. Nú er það líka svo, að bændur geta alls ekki, hvað fegnir sem þeir vilja, fengið vélar til ræktunar. Ég talaði í haust við bónda á stórjörð, sem búinn var að panta traktor fyrir tveim árum, en ekki fengið. Nú er áhuginn vaknaður á þessu, því að menn sjá, að með því kaupi, sem þeir verða að greiða, er ómögulegt að reka sveitabúskap nema með taprekstri. Bændur gera sér ljóst, að þetta getur ekki haldið áfram, og þeir gera sér líka ljóst, að kaupið lækkar aldrei aftur, svo að neinu nemi, og að það er ómögulegt að reka íslenzkan landbúnað með aldagömlum vinnuaðferðum. Þess vegna má ekki verða á þessu minnsta töf. Við eigum að gera svo hraðvirkar ráðstafanir sem unnt er og hrinda málinu í framkvæmd. Undir því er mikið komið fyrir landið í heild, því að það er algerlega auðsætt og vitað, eins og bent var á af hv. 3. landsk., að það er ómögulegt að framleiða landbúnaðarvörur á Íslandi, þannig að bændur beri sæmilegt úr býtum, nema með sæmilegum vinnuaðferðum. Þessar vinnuaðferðir eru ekki notaðar við búskap í nágrannalöndunum, og við vitum, að við erum á eftir vegna þess, hvað við byrjuðum seint á þessu. Félagsskapur bænda hefur gert mikið, og mikið hefur ríkið lagt til, en það þarf miklu meiri hraða, og um það eigum við allir að vera samtaka. Það þarf vissulega að lækka landbúnaðarvöruverðið, en það þarf líka að gera þær ráðstafanir, að þetta verði framkvæmanlegt án þess að ganga á hlut bænda í samanburði við kaupstaðarbúa. Og þetta á að gera með stórfelldri, hraðvirkri ræktun. Eina leiðin til að fullnægja þessu, að lækka vöruverðið, er, að ríkið styrki bændur til þess að gera fólkshaldið miklu skemmtilegra. En vinnutími í sveitum hefur orðið að vera svo langur vegna hinna seinlegu vinnuaðferða og vinnan erfið. Hins vegar er með nýtízku vinnuaðferðum létt að fá fólk, því að í góðum sumrum er heyskapur einhver skemmtilegasta vinna, sem til er, og getur verið auðveld vinna.

Erlendis eru nú margir ungir menn að mennta sig til þessara starfa, m. a. í vélaverkfræði landbúnaðarins. Og þegar þeir koma heim, þurfum við að vera búnir að undirbúa fyrir þá. Það stendur nægilega knappt, að við fáum þá heim, þar sem boðið er í þá erlendis. Þá bókstaflega talað dreymir það, hvað þurfi að gera fyrir íslenzkan landbúnað, þegar þeir hafa séð landbúnað eins og hann er með nýtízku vinnuaðferðum, og maður sér af bréfum þessara manna, hvernig þeir loga af áhuga á því, að hægt sé að breyta íslenzkum landbúnaði þannig, að vinnuaðferðirnar verði eitthvað svipaðar og þeir eru sannfærðir um, að hægt sé að breyta íslenzkum landbúnaði, þannig að hann verði einhver skemmtilegasta og léttasta vinna, sem til er. Við verðum því að gera allt, sem í okkar valdi stendur, til þess að þetta geti orðið.

Það getur vel verið, að það þurfi að gera breyt. á þessu frv., og við getum komið okkur saman um, hvaða breyt. þurfi að gera til þess að geta samþykkt þetta frv., því að þetta er það nauðsynlegasta. Mér dettur ekki í hug að draga úr því, að margt þurfi að gera fyrir sjávarsíðuna, og hef ég ekki verið því andvígur. Það situr n. á rökstólum, sem er að rannsaka, hvað þurfi að gera í því máli, en þetta er þannig, að það þarf — bókstaflega talað — skyndiráðstafanir, neyðarráðstafanir, til þess að koma í veg fyrir, að íslenzkur landbúnaður dragist saman. Við þurfum að taka okkur til fyrirmyndar það, sem aðrar þjóðir eru að gera sjá sér. Á tveim—þrem árum hafa Englendingar tvöfaldað bústofn sinn. Þeir segja: „Við hættum þessu aldrei“. Og þetta er af því, að þeir hafa tekið upp nýja stefnu viðvíkjandi landbúnaðinum.

Það er leiðinlegt fyrir þá, sem telja sig þurfa að samþykkja þessa dagskrártill., því að ég veit, að á meðal þeirra eru margir, sem skilja, hvílík nauðsyn þetta er, og mig tekur sárt, að skuli vera frv. andvígir.

Það er betra, að málið bíði til næsta þ. Það er verið að tala um rannsókn á þessum vélum, en við erum jafnhliða því, sem við tölum um undirbúning hér, að kaupa fyrir millj. vélar til vegagerða. Það er sjálfsögð ráðstöfun og þarf ekki frekari rannsóknar, og þó höfum við miklu minni reynslu af þeim vélum. Ég vildi því beiðast þess, að menn myndi sér ekki skakka skoðun, heldur komist að samkomulagi um, hvaða breyt. þarf að gera, til að hægt sé að hefja framkvæmdir sem allra fyrst.