13.12.1943
Efri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (2193)

68. mál, jarðræktarlög

Hermann Jónasson:

Ég ætla ekki að lofa stuttri ræðu, því að um þetta mál þarf mikið að ræða, ef það á að skýra það þannig, að það dragi hugi manna saman. Ég veit ekki, hverjir það eru í hv. d., sem halda lengstar ræður, en til þess að sýna, hvað hv. þm. Barð. virðist lítið vita um það, sem hann er að dæma um, hvaða vinnubrögðum sé beitt, þegar á að koma málum fram, vil ég upplýsa það, að ég hef oftar en einu sinni spurt landbn. um það, hvernig málinu gengi, og hafði form. n. sagt mér, að hann gerði sér vonir um það, að samkomulag mundi nást um málið í n., eftir að það hafði legið hjá stjórn Búnaðarfélagsins til athugunar. Að öðru leyti vil ég segja það, að ég geri mér það ljóst, hvað það þarf oft langan tíma til þess að draga hugi manna saman, og það verður að nota þann tíma til þess að ræða og skýra málin, og hver og einn verður að slá af ýmsu, sem hann vildi fyrst og fremst, og taka það næst bezta. Viðvíkjandi þeirri ásökun, að ég mæti ekki á fundarbekknum, vil ég segja það, að ef við lítum til baka, þá verðum við að viðurkenna það, að uppskeran er þannig, að menn hafa ekki alltaf átt mikið erindi til að ræða um þau mál, sem verið hafa til umr. En án þess að fara í nokkurn mannjöfnuð við hv. þm. Barð. hygg ég, að mér sé óhætt að segja það, að ég hafi getað komið málum fram eins og hver annar. En sennilega er hv. þm. orðinn syfjaður og því orðinn leiður á þessum umr. og get ég svo látið þessar umr. niður falla.