13.12.1943
Efri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2195)

68. mál, jarðræktarlög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég ætlaði ekki að tala meira í þessu máli, en þó vil ég nokkuð svara hv. þm. Barð. Hann segir, að málið hafi legið þrjá mánuði hjá landbn., en skjölin bera það með sér, að því hefur verið vísað til landbn. síðustu dagana í sept., en nál. minni hl. afgr. 19. nóv., — og þetta telur hann þrjá mánuði. Ég vil líka telja það alveg óverðskuldað að ráðast á landbn. og segja, að hún hafi ekki rækt störf sín sæmilega. Og ég verð að segja það, að það getur vafizt fyrir einni n., þegar til hennar koma mál, sem eru svo illa undirbúin, að þau þurfa mikla athugun og verður jafnvel að vísa þeim frá eftir miklar tilraunir til að endurbæta þau. Ég man í svipinn eftir tveimur slíkum málum frá hv. þm. Barð. Svo er hann að tala um það, að okkur sé nær að sjá um okkar nefndarstörf en að fylla þingtíðindin með blaðri. Það er eins og hv. þm. Barð. finnist hann hafa köllun til þess að koma hér fram sem „hirtingarvöndur syndarans“ í hverju máli. Ég vil fullyrða það, að landbn. hafi unnið störf sín sæmilega, og ef það á að fara að líta eftir nefndarstörfum hjá henni, þá kann líka að verða litið eftir þeim hjá öðrum.