13.12.1943
Efri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í C-deild Alþingistíðinda. (2196)

68. mál, jarðræktarlög

Gísli Jónsson:

Hv. þm. Dal. hefði getað sparað sér allt þetta tal, ef hann hefði hlustað á mína fyrri ræðu. Það stendur sem sé óhaggað, að málinu var útbýtt 22. sept., vísað til landbn. 27. sept., og minni hl. álit kom fram 19. nóv. og málið hefur nú verið hér um bil þrjá mánuði til meðferðar. Allan þennan tíma hefur landbn. ekki gert annað en að klofna um málið, minni hl. að senda álit um að samþ. frv. óbreytt, en meiri hl. um að vísa því frá.

Það var óþarfi fyrir hv. þm. Dal. að vera með þá aths., að mál, sem ég ætti hjá landbn., hefðu þvælzt fyrir n., því að landbn. er sannarlega ekki mikilvirk, ef þau mál þurfa að vefjast fyrir henni lengri tíma. Því er aftur á móti ekki hægt að mæla á móti, að það er ófyrirgefanlegt af n. að tefja mál vikum saman, af því að hún sé á móti því. Það eru frá mínu sjónarmiði óhæfileg vinnubrögð hér á Alþingi.