13.12.1943
Efri deild: 65. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í C-deild Alþingistíðinda. (2197)

68. mál, jarðræktarlög

Frsm. minni hl. (Páll Hermannsson) :

Ég get ekki neitað því, að mér fannst hv. þm. Barð. telja sér óþarflega mikla trú um það, að hann eigi sökótt við landbn. Þessi hv. þm. gat um það hér fyrir fáum dögum, að hjá sjútvn., þar sem hann er form., lægi ekkert mál óafgr., og mér skildist hann segja það til hróss um þá n. Og ég get tekið undir það, ef málin eru vel afgr. Ég skal þá upplýsa það, að hjá landbn. liggur ekkert mál óafgr. Það liggja að vísu tvö mál hjá n., en annað málið er hv. þm. Barð. riðinn við, en ég veit ekki betur en það hafi fengið vissa afgr. í samráði við flm. Að öðru leyti vil ég ekki gera ágreining út af þessu umtali. Ég gef alltaf meira fyrir höndina en röddina, og vitanlega vil ég eiga hönd hv. þm. Barð. fyrir þessu frv., og ég tek ekkert nærri mér, þó að hv. þm. vandi um við nm., sérstaklega þegar mig grunar, að það sé ekki gert í fullri alvöru.