21.09.1943
Efri deild: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (2220)

6. mál, ákvæðisvinna

Steingrímur Aðalsteinsson:

Ég býst við, að það þýði ekki mikið að deila við hv . þm. S.-Þ. um það, hvort íslenzkir verkamenn eða svo sem 5/6 þeirra séu vinnusvikarar, eins og hann gefur í skyn. En ég vil ekki, að því sé ómótmælt. Ræða hans var um það, að hann hefði ekki verið að halla á íslenzka verkamenn með þessu, aðeins segja satt um þá. Hann áréttar staðhæfingar sínar með einu dæmi, sem hann hafi einhvern tíma horft á við húsbygging nokkra í Reykjavík, en merkasta heimild og sönnunargagn hans virtist þó vera mynd í Speglinum, og því þóttist hann vita hlutina ólíkt betur en verkamaður norðan af Akureyri gæti vitað þá, — verkamenn svikjust ekki aðeins um að vinna, þeir hefðu ekki einu sinni manndóm til að taka sjálfir við kaupinu sínu, svo sem myndin sannaði.

Ég get ekki skilið, að hv. þm. S.-Þ. hafi áhuga á myndum, sem birtast í Speglinum, því að þar hafa margar góðar myndir verið birtar, og má vera, að hann telji þær full sönnunargögn fyrir þeim málstað, sem þær túlka. En ég tek ekki þessa mynd sem neitt sönnunargagn, og mér finnst, að eftir þessar endurteknu ásakanir um vinnusvik og leti verkamanna, ætti hv. þm. að halda eina ræðu enn um það, að hann sé ekki að halla á íslenzka verkamenn.

Í ræðu og riti hefur hann gert það, sem hann hefur getað til að svívirða verkamenn. Það er það, sem ég vil mótmæla hér, þó að ég viti ekki meira um vinnubrögð en „verkamaður norðan af Akureyri“ getur vitað. Ég mótmæli því, að þessar þungu ásakanir á verkamenn almennt um vinnusvik séu á rökum reistar.

Ég vil vænta þess, að till. verði samþ., svo að tækifæri gefist síðar til að bera saman fyrirkomulag í þeim tveim ríkjum, sem einkum er um rætt. Ég geri mikinn mun á því, hvort verkamaður er kúgaður til aukinna afkasta með ýmsum þeim aðferðum, sem t. d. Ford notar, svo sem rennibraut, þar sem hver verkamaður verður að ljúka sínum ákveðnu handtökum með geysihraða, eða honum er fleygt út úr verksmiðjunni, og þar sem hann fær ekki kauphækkun fyrir aukin afköst, — geri mikinn mun á því auðvaldsfyrirkomulagi og hinu, að menn séu hvattir með auknu kaupi til að afkasta meira, þó án þess að þeir séu neyddir til að ofbjóða vinnuþoli sínu.

Þm. taldi forustumenn íslenzkrar verkalýðshreyfingar hafa sýnt ákvæðisvinnunni andúð og mikinn mótþróa. Ég held það sé ekki rétt hjá honum, en þeir hafa verið móti þess konar ákvæðisvinnu, sem honum er kærust, svo sem undirboðum, sem þýða kaup undir taxta. En einmitt sú ákvæðisvinna, sem hann vitnar mest til, er unnin eftir taxta samþykktum af verkalýðsfélögum. Ég er hræddur um, að hann sé meira á móti sumum þessum töxtum en verkalýðsfélögin og forustumenn þeirra. Hvað segir hann t. d. um taxtann, sem múrarar hafa unnið eftir í ákvæðisvinnu undanfarið? Eða um taxta síldarstúlkna? Það er alkunnugt, að fólk, sem stundar ýmiss konar árstíðavinnu eða sérstök störf, getur í ákvæðisvinnu fengið háar tekjur með því að leggja að sér, og þessum hv. þm. hefur stundum þótt nóg um það. Það er hann, sem er ekki alltaf vinveittur þeirri ákvæðisvinnu eða þeim tekjum verkamanna. Ég segi aftur fyrir mitt leyti, að ég er sízt móti því, að ákvæðisvinna sé unnin miklu v íðar en er, ef hún er greidd samkv. töxtum verkalýðsfélaganna.