20.04.1943
Sameinað þing: 4. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (2229)

1. mál, fjárlög 1944

Fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Ég þarf ekki miklu að svara ræðum þeirra hv. þm., sem hér hafa talað, en mun þó drepa á nokkur atriði. Viðvíkjandi ummælum hv. 3. þm. Reykv. um flugvöllinn, þá eru þau rétt, en þetta var fært svona til bráðabirgða í fjárl.

Þá minntist þessi hv. þm. einnig á alþingiskostnaðinn. Mér láðist að geta þess, að í kostnaðinum er innifalinn allur kostnaður við aukaþingið, sem nú er nýlokið.

Út af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði, þá verð ég að segja, að mér finnst það koma úr hörðustu átt hjá þm., sem vildi ekki fresta þingi til hausts, að ráðast á ríkisstj. fyrir þetta fjárlagafrumvarp.

Það varð úr, að Alþ. skyldi koma saman 15. apríl í síðasta lagi, og öllum hv. þm. er ljóst, að ógerlegt er að semja fjárlagafrv. fyrir árið 1944, svo að nokkurt vit sé í. Ég lýsti yfir því, að frv. hefði verið lagt fram til þess að fullnægja ákvæðum stjskr., en ég lýsti enn fremur yfir því, að ríkisstj. hefði óbundnar hendur til þess að breyta því.

Þrátt fyrir allt þetta hefur hv. þm. Ísaf. skap í sér til þess að ráðast á ríkisstj. og reyna að sýna fram á, hversu ómegnug hún sé að semja fjárlagafrv. Sami hv. þm. deildi einnig á ríkisstj. fyrir framkvæmd verðlagseftirlitsins. Sú framkvæmd þarf mikinn undirbúning á öllum sviðum, en þrátt fyrir það hefur verið sett hámarksverð í ýmis konar greinum, t. d. á rafmagnsvörur, vinnu í vélsmiðjum og þar að auki á veitingar og greiðasölu, og nú næstu daga verður sett hámarksverð á saumaskap allan. Áður var fyrir hámarksálagning á skömmtunarvörum, vefnaðarvörum og ýmsum öðrum vörum. Það er auðvelt að saka aðra um seinláta framkvæmd þessara mála, en ég er ekki viss um, að hv. þm. (FJ) mundi fara skjótlegar né betur úr hendi framkvæmdin en þeim mönnum, sem nú starfa að þeim með samvizkusemi og dugnaði.

Þessum sama hv. þm. (FJ) virðist ekki liggja neitt betur orð til ríkisstj. nú en var við fjárlagaumr. í vetur. Þá fann hann stj. allt til foráttu. En nú sakar hann hana aðallega um það, að hana skorti „leikni hinna æfðu stjórnmálamanna.“ Ég efast ekki um, að það sé mjög sorgleg staðreynd í augum þessa hv. þm. En framkvæmdin verður að skera úr því, hvort góður og eindreginn vilji ríkisstj. til að vinna þjóðinni gagn getur vegið á móti skorti þeirra hæfileika, sem hv. þm. (FJ) virðist telja nauðsynlega innan þessara sala.