01.10.1943
Efri deild: 28. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (2251)

74. mál, verðlag á landbúnaðarafurðum

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég fyrir mitt leyti er því fylgjandi, að þessi þáltill. verði samþykkt, og álít gagnlegt, að framkvæmd sé sú athugun, sem ráð er fyrir gert í þáltill. Hins vegar vil ég taka fram, þó að það sé í raun og veru alveg óþarft, en ég geri það vegna þeirra orða, sem hér hafa fallið, að í þessari þáltill. felst ekki neitt, sem gefur tilefni til þess að álykta, að það sé hlutverk þessarar n. að endurskoða þann grundvöll, sem sex manna n. hefur fundið og notað sem niðurstöðu undir niðurstöður sínar. Og vegna þess að það liggur ekki fyrir í sambandi við samþykkt þessarar þáltill., skal ég ekki fara að ræða um það atriði út af fyrir sig, hve ábyggilegar niðurstöður sex manna n. kunni að vera. En mér er nær að halda, að þær séu byggðar á tiltölulega áreiðanlegum grundvelli, — því að það, sem hér hefur verið tekið fram, að n. hafi ekki haft fullnægjandi frumgögn í höndum viðvíkjandi tekjum bænda, heldur aðeins útdrátt eða yfirlit búreikninga frá búreikningaskrifstofu ríkisins, þá gefur að skilja, að þeir búreikningar eru gerðir samkvæmt frumgögnum, sem búreikningaskrifstofan hefur í höndum, þegar hún gengur frá reikningunum, sem n. hefur byggt á. Þess vegna er alveg það sama, að því er snertir útreikning, að hafa þá búreikninga eins og frumgögnin sjálf hefðu verið í höndum n., þegar hún fann grundvöll sinn, ef gert er ráð fyrir, að skrifstofan vinni verk sitt samvizkusamlega, sem heldur er ekki dregið í efa. Og við þessa rannsókn, sem þarna er framkvæmd, sýndi það sig einmitt, að búreikningaskrifstofan virðist hafa unnið verk sitt mjög vel á undanförnum árum, og hefur þar verið lagður merkilegur grundvöllur að íslenzkum búvísindum.

Viðvíkjandi hinu, hvernig fundnar hafi verið meðaltölur um tekjur verkamanna, vildi ég minnast á nokkur atriði. Ég hef rætt við þá menn, sem unnu þar að. Tekinn var ákveðinn hundraðshluti verkamanna í Reykjavík, tekjur þeirra fundnar og meðaltal reiknað út frá því. Álitamál var, hve marga þyrfti að taka, en það er skoðun hagfræðinganna, sem þarna voru, m. a. hagstofustjóra, að úrtök þessi hafi verið nægilega stórt brot af verkamönnum bæjarins, og styðjast þeir þar við erlenda reynslu, sem þykir orðin mjög ábyggileg í þessu efni. Þess vegna verður að telja, að unnið sé á öruggum grundvelli, þar sem þessar meðaltölur eru. Ég álít óumflýjanlega nauðsyn að gera þá útreikninga, sem nú er sýnileg þörf fyrir, og vil undirstrika, að það er ekki að ræða um endurtekning á starfi sex manna n.