09.12.1943
Neðri deild: 60. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (2253)

186. mál, tekjuöflun vegna dýrtíðarráðstafana

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Þetta frv. er borið fram af ríkisstj. og fjallar um tekjuöflun vegna dýrtíðarráðstafana.

Ég hygg, að í sambandi við fjárl. verði gerð samþykkt um verðlagsuppbætur vegna útfluttra landbúnaðarafurða, en ekki gert ráð fyrir neinu fé til dýrtíðarráðstafana. Það verður því ekki hjá því komizt að afla nýrra tekna í því skyni, og því er þetta frv. fram komið.

Það er ljóst að frv. hlýtur að skipta þm. í tvo flokka eftir því, hvort þeir eru með eða móti því að gefa dýrtíðinni lausan tauminn. Ég efast um, þótt sumir láti hátt gegn þessum ráðstöfunum, að þeir mundu samt ekki hika við, áður en þeir létu slíkar ráðstafanir niður falla og slepptu dýrtíðinni lausri.

Mér er ljóst, að þetta frv., eins og það liggur fyrir, er á móti stefnu þeirra, sem eingöngu vilja beina skatta. Menn hefur greint á um það og gerir enn, og er ekkert við því að segja. Fyrir skömmu var flutt frv. í Ed. af tveimur hv. þm. um að afla fjár í sama skyni og þetta frv. fer fram á. Þetta frv. var fellt. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég tel, að sú tekjuöflunarleið, verðlækkunarskattur, hefði verið heppilegri en þessi.

Þess vegna álít ég, að þetta sé frekar neyðarúrræði, sem verði þó ekki hjá komizt.

Ég skal geta þess, að eins og þetta frv. er orðað, hefur stj. vald til að undanþiggja vissar nauðsynjavörutegundir þessu gjaldi. Tekjur af þessu frv. eru áætlaðar um 7 millj. kr., þ. e. a. s., að innflutningsgjaldið skili 4 millj. kr., en skattaaukinn 3 millj. kr.

Ég tel svo ekki þörf að fjölyrða um þetta frekar, en vil bera fram þá ósk, að fjhn. beggja d. fjalli um frv. í sameiningu og að þær gætu skilað áliti sínu annað kvöld, vegna þess að mjög er liðið á þingtímann, og munu flestir óska, að ekki verði langt að bíða þingslita.