09.12.1943
Neðri deild: 60. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2254)

186. mál, tekjuöflun vegna dýrtíðarráðstafana

Einar Olgeirsson:

Ég veit ekki, hvort hv. fjmrh. ætlast til þess, að frv. þetta geti gengið svo glatt í gegnum þingið, að n. úr báðum d. vinni sameiginlega að afgreiðslu þess og ljúki henni af fyrir annað kvöld. Ég veit ekki, hvort hann ætlast til þess, að þingið sé orðið svo beygt, að það taki á móti annarri eins sendingu og það fær hér án þess að berjast um hana eins og frekast er hægt.

Hæstv. ráðh. sagði, að í ráði væri að fara að slíta þingi. Það var lögð fram í gærkvöld till. frá meiri hl. fjvn. um 10 millj. kr. útgjöld í sambandi við fjárl. Meiri hl. fjvn. hefur ekki séð ástæðu til að koma fram með slíka till. við 2. umr. og ekki heldur séð ástæðu til þess, meðan verið var að ræða málið almennt, heldur síðasta daginn, sem n. er að vinna að málinu í sambandi við 3. umr., til þess að sjá svo um, að ekki sé hægt að ræða þessa 10 millj. kr. till. nema á einum næturfundi. Og síðan á að knýja í gegn frv. eins og þetta, sem heimilar stj. að leggja 2% gjald á allar vörur, sem fluttar eru inn í landið, svo sem rúgmjöl og hveiti og hvað annað, sem vera skal, til þess að fá fé upp í þessar 10 millj. Og í sömu andránni talar hæstv. fjmrh. um, að nú þurfi að fara að slíta þingi, nú sé um að gera að flýta sér, þegar þessi mál koma fram, ganga frá þeim á einum degi, segja já og amen í snarheitum og hverfa heim sem skjótast. — Ég veit ekki, hvort menn búast við, að slíku verði tekið með þökkum og að þetta frv. gangi áfram, án þess að komi til snarprar baráttu um það hér á þingi. Það hefur verið barizt í n. og deilt í d. um dýrtíðarráðstafanir, sem hafa þó ekki verið eins bölvaðar og þessar.

Það hafa nýlega verið samþ. hér á þingi till. um að heimila stj. að lækka tolla á nauðsynjavörum og minnka þar með dýrtíðina raunverulega. Hér er farið fram á heimild til að hækka tolla. Dettur hæstv. fjmrh. í hug, að hann sé þar með að berjast á móti dýrtíðinni? Við erum að enda við að samþ. heimild handa stj. til að lækka dýrtíðina með því að lækka tolla, og strax á eftir, þegar fram kemur frv. um að hækka tolla, þá ætlast hæstv. fjmrh. til, að það sé gert til að standa straum af dýrtíðinni, berjast á móti dýrtíðinni. Þessar ráðstafanir eru beinlínis til að auka dýrtíðina, og það er ekki til nokkurs skapaðs hlutar að segja, að menn skiptist hér í tvo flokka eftir því, hvort þeir séu með eða móti dýrtíðinni. Þessar ráðstafanir eru aðeins til að auka dýrtíðina. Það á að auka hana með því að svindla um leið á launþegum. Það á að lækka vísitöluna, falsa hana, en gera kjör launþega verri en áður. Það á að hækka tollana, auka skattana á þeim, sem minnstar hafa tekjurnar, og síðan á að nota féð til að kaupa niður verðið á landbúnaðarafurðum. Og afleiðingin af þessu verður sú. að það verður tekið meira af launþegum í hækkuðum tollum og auknum sköttum en þeir fá aftur í lækkuðu verði á landbúnaðarafurðum, ef þeir þá fá þær. Ég vil spyrja hæstv. stj., sem segir, að verið sé að kaupa niður verð á smjöri: Hvar er þetta smjör, sem verið er að kaupa niður? Hver borðar það? Hver kaupir það? Hvað kostar smjörið á svörtum markaði í Reykjavík nú? Það kostar 25 krónur eða þar yfir. Þetta þýðir það, að launþegar verða að borga svo og svo mikið í ríkissjóð til að kaupa niður verð á vöru, sem þeir síðan fá ekki að kaupa.

Ég held, að ekki verði komizt hjá því í sambandi við þetta mál að taka alvarlega til athugunar, hvað í þessu felst og hvað hæstv. stj. ætlast fyrir í þessum málum. Við höfum ekki heyrt nein mótmæli frá hæstv. stj. í sambandi við 10 millj. till., sem kom fram í gær, en nú fáum við að heyra, að svo framarlega sem tollar á almenningi verða ekki hækkaðir, þá sé maður að sleppa dýrtíðinni lausri. Það má ofbjóða öllu, sem heitir rök, með þess háttar tali. Nei, það er nauðsynlegt, að við gerum okkur ljóst, að hverju hæstv. stj. virðist stefna með till. eins og þessari. Það á að hækka tollana, en það þýðir að auka dýrtíðina. Það á að kaupa niður verð á landbúnaðarafurðum, en það er eina aðferðin, sem hæstv. stj. vill beita, til að kaupa niður vísitöluna til hagsbóta fyrir stóratvinnurekendurna á kostnað launþeganna. Þetta þýðir aukning dýrtíðarinnar, svarta markaði í stórum stíl og lækkun á þeim launum, sem launþegar fá útborguð, til þess að spara fyrir atvinnurekendurna. Hér er því alls ekki barátta fyrir því að lækka dýrtíðina, heldur vísitöluna.

Á síðasta þingi voru samþ. l. um dýrtíðarráðstafanir. Þar var m. a. verðlækkunarskattur, sem átti að verja til þess að halda dýrtíðinni niðri til hausts, þangað til útséð væri, hvernig samningar gengju milli neytenda og bænda, og meðan stj. og flokkarnir væru að athuga þessi mál. Það var eðlilegt að gera slíkt sem bráðabirgðaráðstöfun, meðan verið var að finna nýjar leiðir. Hitt er annað mál, hvort rétt sé að halda þessum leik áfram, gera þetta bráðabirgðaástand að varanlegu ástandi, kasta milljónum úr ríkissjóði til að borga niður dýrtíðina. Með þessu er verið að leika blindingsleik hjá þjóðinni, binda fyrir augu hennar, svo að hún sjái ekki þá hættu, sem yfir vofir. Það er verið að vefa dýrt bindi til að loka augum þjóðarinnar, svo að hún horfist ekki í augu við erfiðleikana. Það er verið að ausa og ausa í staðinn fyrir að gera við gatið á bátnum. Þessum blindingsleik vill hæstv. stj. halda áfram. Ég get skilið afstöðu hæstv. stj. í þessu máli. Hún álítur, að það sé sitt hlutverk að bíða og bíða, halda hlutunum gangandi að einhverju leyti með milljónakostnaði, þangað til þingflokkarnir og þjóðin geti áttað sig á málunum. En ég vil spyrja hæstv. stj.: Er hún ekki með því að halda þessum austri áfram að hindra að þing og þjóð átti sig á, út í hvaða öngþveiti er komið? Væri ekki betra, að þing og þjóð fengju að reka sig á? Ég trúi því, að meðal þings og þjóðar séu menn, sem væru færir um að finna leið út úr erfiðleikunum. Það er miklu ódýrara fyrir þjóðina að reka sig á snemma en láta binda fyrir augu sér með því að halda þessum milljónaaustri áfram og halda við sama öngþveitinu án þess að hafast nokkuð að annað en eyða peningum til ráðstafana, sem ráða enga bót á vandræðunum. Með hverjum mánuðinum, sem líður, er eytt á þennan hátt stórfé, sem verja mætti til að ráða fram úr dýrtíðinni á varanlegan hátt, ef því væri varið skynsamlega. Sumir hugsa kannske sem svo, að það sé gott að hlífa þinginu við þessu. Slík vatnsgrautarmiskunnsemi er ekki æskileg. Það er miklu betra að láta þingið reka sig á. Þetta er aðeins blóðtaka fyrir þjóðina. Við erum með þessu að kaupa okkur dýrum dómum frá því að horfast í augu við þetta mál, og hæstv. stj. finnst heppilegast að kaupa þing og þjóð frá að leysa þetta mál á kostnað verkalýðsins í landinu. Við vitum allir saman, að samþykkt l. eins og þessara er ekki til neins, hvað dýrtíðina snertir, nema bara til að auka hana. Þetta er aðeins bráðabirgðalausn, sem er dýr, sérstaklega fyrir alþýðuna í landinu, og hún er sérstaklega óréttlát vegna þess, að hún skapar þennan bráðabirgðafrest á kostnað þeirra, sem verst hafa kjörin. Og meðan olíuhringarnir, eins og upplýst hefur verið, hafa tveggja millj. kr. gróða á einu ári, er verið að kvarta yfir dýrtíð og sjávarútvegurinn eigi í erfiðleikum, og farið fram á að hækka tolla á nauðsynjavörum. Hvers vegna velur hæstv. stj. þessa leið? Við þurfum ekki að telja okkur trú um, að ekki séu til aðrar leiðir eða möguleikar til að fara þær leiðir. Ég benti áðan á, að við hefðum verið að samþ. heimild til að lækka tolla. Það er vitað, að það er hægt að vinna allmikinn bug á dýrtíðinni til frambúðar með þeim hætti. Með afnámi tolla á nauðsynjavörum lækkar dýrtíðin raunverulega og vísitalan þar með, og það mundi skapa svo mikla ánægju meðal launþega, að miklu hægara yrði á eftir að semja við þá um slík mál. Þessu hefur hæstv. stj. ekki viljað sinna. Hvað eftir annað hafa komið fram tilmæli um það, en hæstv. stj. vill ekki fara þá leið, sem er til raunverulegrar lækkunar á dýrtíðinni og alþýðunni til góðs.

Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að spyrja, hvernig það sé á einu sviði, viðvíkjandi verðlækkun á aðfluttum vörum. Hvað hefur hæstv. stj. raunverulega gert til þess að knýja niður verð á þeim vörum og minnka þar með þann mikla gróða, sem vitað er, að á þeim er? Það er opinbert leyndarmál í þessu landi, að megnið af heildsölunum, sem innflutninginn hafa með höndum, og kannske aðrir líka, svíkja stórkostlega skatt með því að ná gróða sínum úti í Bandaríkjunum. Ef ein stj. hefði ætlað að gera raunverulega tilraun til að komast fyrir, hvernig ástandið er raunverulega í innflutningnum, þá hefði hún, a. m. k. um nokkurt skeið, prófað að taka innflutninginn í sínar hendur og athuga um leið þessi innkaup, hvernig þau eru. Hún hefur heimild til að koma á um nokkurra mánaða skeið landsverzlun á þessum vörum til að rannsaka, hvernig er um þessi innkaup, hvort þau eru rétt. Við vitum, að það gengur um bæinn, að það séu gefnar út falskar faktúrur yfir vörur, sem fluttar eru til landsins. Þetta er fullkomin ástæða til að rannsaka. Ég veit, að hæstv. fjmrh. muni vera því kunnugur, hvernig það muni vera um innflutning til landsins. Ég vildi gjarnan, að hann léti í ljós skoðun sína um það, hvort hann heldur, að heildsalarnir hafi engan annan gróða af innflutningnum en þann, sem samkvæmt verðlagsákvæðunum er heimill. Við vitum, að um allan heim hafa ríkisstj. í stórum stíl tekið verzlunina og atvinnureksturinn í sínar hendur, þegar þjóðirnar hafa verið í nauðum staddar, og sú stj., sem hér situr nú, hefur sannarlega ekki látið undir höfuð leggjast að brýna fyrir þjóðinni í ræðum, sem hún hefur haldið til þjóðarinnar, í hvaða hættu þjóðin væri stödd. Hún hefur reynt að gera okkur ljóst, að við værum raunverulega í stríði, í stríði um það að vernda atvinnulíf okkar og fjárhag, svo að ekki færi allt í kaldakol og við biðum ósigur.

Ég vil nú spyrja hæstv. fjmrh.: Er það álit hans, að í viðskiptamálum við útlönd hafi verið gert allt, sem hægt hefur verið, til að minnka dýrtíðina í landinu? Í sambandi við innflutninginn á einni einustu vörutegund, sem við af tilviljun fáum að heyra um, af því að einum innflytjandanum þykir ráðlegt að storka ríkisstj., í sambandi við innflutninginn á olíu, fær Alþingi þær upplýsingar, að á þessari bráðnauðsynlegu vöru, sem tvö til þrjú auðfélög hafa með höndum, taka þau gróða, sem nemur svo að millj. kr. skiptir á einu ári. Er hæstv. stj. þess fullviss, að ekki sé svipað á neinu öðru sviði, að ekki sé svipaður gróði hjá heildsölunum á neinni vöru nema þessari einu og þetta, sem olíuhringarnir hafa gert, sé algert einsdæmi og svona lagað eigi sér hvergi stað annars staðar? Ég býst ekki við, að þjóðin sé sannfærð, heldur tortryggin á þessa hluti og búist við, að svipaður gróði geti verið á fleiri sviðum.

Þá er annað, sem athuga verður í sambandi við þetta. Þegar hæstv. stj., rétt eftir að hún settist í valdastólana, kom fram fyrir þingið með sínar fyrstu raunhæfu ráðstafanir í sambandi við dýrtíðarmálið, stöðvun verðhækkunarinnar, var vakin eftirtekt hennar á því, að það mundi þurfa annað og meira en gefa út ákvarðanir, l. og reglugerðir, það mundi þurfa að sjá svo til, að menn smeygðu sér ekki undan þessum boðum, hvorki í atvinnulífinu né viðskiptalífinu. Það var vakin eftirtekt hennar á því, að hætta væri á, að einstakar vörutegundir hyrfu af markaðinum, og þó að halda ætti verðinu niðri, þá væri það ekki nema í orði kveðnu, því að þær yrðu keyptar miklu dýrar. Það hefur líka sýnt sig, að hér er rekinn svartur markaður í stórum stíl með þær vörur, sem hámarksverð er sett á. Hvernig er það um smjör hér í Reykjavík? Fáist það, þá kostar það 25 krónur. Hvernig er það um íslenzkar kartöflur? Er ekki rekin leynisala með þær vörur, sem skortur er á? Á stríðstímum, þegar skortur er á vörum, er í öllum löndum tekin upp regla, sem heitir skömmtun. Sú regla er alls staðar viðurkennd, þegar skortur er á nauðsynjavörum. Beitir hæstv. ráðh. þeim aðferðum, sem þarf til að fá alla framleiðslu á þessum vörum í sínar hendur og skammta hana síðan, svo að eitt gangi yfir alla? Er ekki nauðsynlegt að gera þær ráðstafanir í þessu sambandi, þegar ríkið er að skipta sér af þessum málum, að þessar vörur komi að sem mestum notum og allir fái þó eitthvað, en ekki aðeins þeir, sem hafa góð sambönd við einstaka menn eða við þá, sem ráða viðkomandi samtökum, og þeir geti alltaf haft smjör á borðum, en kannske barnflestu fjölskyldurnar fái aldrei annað en óætt makarín. Sósfl. benti á þegar í upphafi dýrtíðarinnar, að nauðsynlegt mundi verða að skammta vissar tegundir af landbúnaðarvörum. Þessu hefur aldrei verið sinnt. En það lítur út fyrir, að það sé ekki fólkið, sem verið er að hugsa um, ekki börnin, sem eiga líf og heilsu undir því, að þau fái það, sem þau þurfa með, heldur er það tala, það er vísitalan.

Þetta getur ekki gengið til lengdar. Það er ómögulegt annað en hæstv. stj. sjái, að þetta getur ekki valsað svona áfram. Ef hæstv. stj. stendur með því, að nota eigi svo að millj. kr. skiptir til stórbændanna í landinu, sem hafa meira en þær meðaltekjur, sem mönnum í bændastétt er ætlað, ef stj. stendur með því og fer svo fram á að fá þetta fé með því að leggja tolla á nauðsynjavörur til að hækka dýrtíðina og lækka vísitöluna, þá getur verið, að barátta verði um þessi mál, áður en yfir lýkur.

Það hefur ekki vantað, að verkamannastéttirnar í þessu landi vildu gera ríkisstj. mögulegt að starfa, og það hefur ekki skort á samvinnuhug frá þeim, ef til þeirra hefði verið skotið málum. Verkamannastéttirnar höfðu þó valdaaðstöðu til að hækka grunnkaup sitt á s. l. ári, en þær hafa ekki gert það, ekki viljað valda erfiðleikum, heldur þvert á móti viljað samstarf um lausn málanna á réttlátan hátt og sýnt öðrum vinnandi stéttum fulla sanngirni. Afstaða ríkisstj. hefur samt verið sú að hundsa þessa stétt í öllum málum, sem til gæti komið, að hún gæti haft áhrif á. Það hefur „systematiskt“ af hálfu ríkisstj. verið gengið fram hjá verkamannastéttinni, þegar skipaðir hafa verið menn í nefndi: eða stjórnir, sem hafa ráðið í málum, er öll framtíð verkamannastéttarinnar veltur á. Ríkisstj. sá svo til, að í verðlagsráði var enginn fulltrúi frá verkamannastéttinni, til þess að hún hefði engan möguleika til að sjá í skíru ljósi, hvernig heildsalagróðanum og svindlinu er háttað. Það var vakin athygli ríkisstj. á þessu þá, en allt kom fyrir ekki. Það var hundsað, en eftir hinu var munað, að þeir, sem hafa sjálfir innkaupin með höndum, ættu fulltrúa í ráðinu.

Við höfum gert okkur vonir um í sambandi við þátttöku Íslands í þeirri alþjóðlegu hjálparstofnun, sem á að rísa upp og er eitthvað stórfelldasta hagsmunamál almennings, sem komið hefur fram öldum saman, að þeir sem helzt hefðu hagsmuna að gæta og málið snerti mest, ættu þar fulltrúa. Nei, en hins vegar vantaði það ekki, að yfirstéttirnar í þjóðfélaginu voru öruggar um að eiga þar sína fulltrúa.

Það hefur verið farið fram á það við ríkisstj., þegar fjallað hefur verið um stærstu atriðin í afkomu þjóðarinnar — eins og það að ákveða verð á vörum úti um land —, að fiskimenn og sjómenn fengju sína fulltrúa, en við það hefur ekki verið komandi. Alþýðusambandið hefur engan mann útnefnt þar. Þar sitja enn fulltrúar frá þjóðstjórnartímanum, og við það situr. Þeir eru látnir semja, og svo er ætlast til, að verkalýðurinn borgi brúsann með 2% hækkun á hveiti, rúgmjöli og öðrum bráðum nauðsynjum og 15% aukatekjuskatti.

Svona getur þetta ekki haldið áfram. Það er ekki heldur hægt að bera verkamönnum það á brýn, að þá hafi skort samvinnuvilja eða þeir hafi verið ábyrgðarlausir. Þvert á móti er úr hópi þeirra, sem á undanförnum árum hafa mest hreykt sér af ábyrgðartilfinningu, farið að tala um, að meginhluti verkamanna þjáist um of af ábyrgðartilfinningu. Þeir, sem á undanförnum árum hafa latt stórræðanna, séu nú farnir að hvetja til þeirra. Og verkamannasamtökin hafa teygt sig hvað lengst til samstarfs um dýrtíðarmálin. En þegar búið er að semja og einstakir pólitískir braskarar á Alþ. ætla að fara að misnota þá sanngirni og viðleitni, sem sýnd hefur verið, með því að taka milljónir króna úr ríkissjóði handa mönnum, sem þurfa þess ekki með, segir ríkisstj. ekkert nema að hún þurfi að fá hækkaða tolla til að geta borgað þetta!

Það er vitað mál, að ef l. í samræmi við þetta frv. verða samþ., verður verkalýðurinn að grípa til þess að leiðrétta sjálfur óréttlætið. Það hefur komið í ljós, að hann hefur viljað bíða og nota ekki þá aðstöðu, sem hann hefur, til að hækka kaupið, heldur freista samkomulags milli allra vinnandi stétta í landinu. Ef á síðustu dögum þingsins á að svíkjast aftan að honum á tvennan hátt, fyrst með því að taka milljónir úr ríkissjóði og veita tekjuháum mönnum og í öðru lagi með því að taka þá peninga, sem koma eiga í ríkissjóðinn á móti, með hækkuðum tollum og álögum á láglaunafólk, þá brestur þolinmæði hans. Ef ríkisstj. heldur, að það sé hægt að komast hjá því, að vísitalan hækki, með svona hundakúnstum, eins og að hækka tollana og kaupa svo niður vísitöluna, þá reiknar hún ekki með þeirri aðstöðu, sem er fyrir hendi í landinu. Samþykkt á frv. eins og þessu verður til þess, að verkalýðurinn byrjar baráttu með því að hækka kaupið. Hann mun taka eitthvað til sín af þessum þjóðartekjum. Það er ljóst, að það mun kosta harðvítuga baráttu að stinga á þessu kýli, en það verður að hafa það. Það má ekki láta meinsemdina grafa um sig til lengdar, ekki í það óendanlega.

Verkalýðurinn hefur aldrei fengið fulla dýrtíðarhækkun. Vísitalan hefur alltaf verið of lág, eins og viðurkennt er, og einstakir liðir alveg vitlausir, eins og útsvarið, og ef fara á að gera það að beinu kerfi að lækka kaup hjá verkamönnum með því að láta þá sjálfa borga það niður, er hægt að ofbjóða þeim. Samþykkt frv. þýðir óhjákvæmilega, að þjóðfélaginu verður hrundið út í hörðustu átök síðustu ára. Þeir, sem stuðla að því, verða að taka afleiðingunum.

Það er ómögulegt að hugsa sér, að í þjóðfélaginu geti einir 28 menn, þó að á Alþ. sé, gert samsæri um að ná handa sér og sínum pólitísku gæðingum milljónum úr ríkissjóði, án þess að fólkið rísi upp á móti því. Það er hægt að gera samkomulag milli verkamanna og vinnandi bænda um að reyna að tryggja þeim réttlátt verð — og jafnvel samkomulag um að bæta þeim upp að einhverju leyti, þegar þeir verða fyrir markaðstapi, en slíkt verður að miða við, að verið sé að bæta úr þörf. Það hefur aldrei þótt á þessu þingi rétt að bæta mönnum upp, þegar þeir hafa yfirdrifnar tekjur. Þegar embættismönnum var veitt verðlagsuppbót, var sagt við þá, að ef þeir hefðu yfir 650 kr. grunnlaun, fengju þeir ekki uppbót á það, sem fram yfir væri. Við það hefur setið. En þegar þjóðfélagið fer að tryggja afkomu bænda, sem því ber þó engin lagaskylda til, rísa upp menn í þ. og heimta uppbætur, líka þegar tekjurnar eru meiri en 14500 kr. Það á að hafa allt annan réttlætismælikvarða á nokkra stórbændur en embættismenn. Allir framsóknarmenn voru á móti því og skoðuðu það hina mestu spillingu, ef greidd yrði dýrtíðaruppbót á hærri en 650 kr. embættislaun, en um hátekjumenn í sveit gildir öðru máli. Þá heita það landráð og fjandskapur við bændur að vera á móti ótakmörkuðum launum til þeirra.

Þessir 28 menn, sem halda, að þeir geti notað ríkisstj. til að framkvæma sín undarlegu réttlætismál, verða að taka afleiðingunum. Það er ekki til neins fyrir menn að ganga með undirskriftaskjöl, leyna þeim mánuðum saman, en leggja svo árangurinn fram á síðasta degi og taka tekjur, sem ríkisstj. hafði hugsað sér að nota til að borga niður dýrtíðina, og lauma í sinn eigin vasa, en segja við ríkisstj.: Skaffaðu aðrar tekjur. — Ná svona aðferðir nokkurri átt? Dettur ykkur í hug, að á meðan nokkur dugur er eftir í þessari þjóð, láti hún bjóða sér slíkt? Rjúfið þið þingið, stofnið þið til nýrra kosninga, og þið skuluð sjá, hvað yrði upp á teningnum.

Þetta frv., sem 28 menningarnir píska ríkisstj. til að bera fram, er hnefahögg á verkamannastéttina og þar með allan almenning í landinu. Hún svarar því alveg óhjákvæmilega, en þá er það þeirra að taka afleiðingunum.