01.10.1943
Efri deild: 28. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (2257)

74. mál, verðlag á landbúnaðarafurðum

Haraldur Guðmundsson:

Ég verð að segja, að ég mundi ekki taka mér í munn þá fullyrðing, að grundvöllur sá, sem fundinn er af sex manna n., sé sanngjarn. Ég vil ekki neita því, að ég varð dálítið undrandi yfir reikningsútkomu n., því að útkoman varð allfjarri því, sem ég hafði haldið hún yrði. Ég neita því ekki, að hún geti verið rétt. En ég er hissa á, að n. skyldi ekki birta nokkuð margt af gögnum í nál. Það hefði t. d. verið ákaflega mikilsvert að hafa til samanburðar verðlag fyrir stríð og stríðsverðlagið á hverjum tíma til þess, er n. sat að störfum. Þó að mig skorti því gögn til að dæma hina umræddu niðurstöðu, vildi ég skýra, á hverju mig furðaði mest.

Það er ekki ósennilegt, að þau úrtök, sem n. lét taka úr verkamannaframtölum í Rvík, hafi verið nægilega mörg. En svo segir n.: „Tölur þær, sem koma út úr skýrslunum, sýna aðeins tekjurnar s. l. ár, en ekki það tímabil, sem hér er um að gera, frá síðasta hausti til næsta hausts. En með því að kaup þessara stétta breytist eftir framfærsluvísitölu, þá má sjá hve miklar tekjurnar hefðu orðið frá septemberbyrjun 1942 til ágústloka 1943, með því að reikna með vísitölunum, sem kaup er greitt eftir í janúar-ágúst í ár í stað tilsvarandi vísitalna í fyrra“.

Þær stéttir, sem þarna er um að ræða, eru sjómenn, verkamenn og iðnaðarmenn. Þó að þetta muni rétt um tvær þeirra, er það ekki rétt um sjómenn, sem að mestu leyti eru ráðnir upp á hlut. Hlutir hafa ekki hækkað, og ég sé ekki annað en alrangt sé að leggja vísitöluhækkun ofan á tekjur sjómanna. Þetta getur munað verulegu á útreikningnum.

Mér þótti ákaflega undarlegt, að kaupgreiðslur á meðalbúi skyldu nema 12800 kr., þegar bústofninn er ekki nema um 80 ær og 5 kýr. Um þetta segir n., með leyfi hæstv. forseta: „Sýnilegt þótti þó, að upplýsingar skýrslnanna um kaupgreiðslur til vandamanna, einkum vinnandi barna, voru miklu óábyggilegri heldur en upplýsingar um kaupgreiðslur til vandalausra, og stafar það sjálfsagt oft af því, að kaupgreiðslur þessar eru ekki raunverulega inntar af hendi, heldur áætlaðar sem innstæða í búinu og fara þá stundum töluvert fram úr því, sem greitt er til vandalausra, en eru líka oft langt þar fyrir neðan“.

Ég efast ekki um, að n. skýrir hér alveg rétt frá, og mér þykir þetta ákaflega óviss grundvöllur að byggja á. Þá verð ég einnig að segja, að mér er lítt skiljanlegt, hvernig fundinn er jöfnuður milli tekna verkamanna og bænda eftir aðferð n., þótt ég treysti mér ekki til að vefengja það. Samkvæmt upplýsingum nál. voru tekjur verkamanna í Rvík áætlaðar 15500 kr. að meðaltali. Því næst fer n. að finna út, hvaða mismun sé eðlilegt að gera vegna mismunandi aðstæðna þessara stétta, þar sem bóndinn tekur mikið af neyzluvörum sínum hjá sjálfum sér, en verkamaður verður að kaupa þær. N. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Meðal þess, sem leiðir til lækkunar, má einkum nefna þann aðstöðumun, sem bóndinn hefur til að fá fyrir heimili sitt landbúnaðarafurðir, svo sem mjólk, kjöt og garðávexti, með lægra verði en kaupstaðabúar. En á hinn veginn verkar aftur það, að bóndinn verður undir venjulegum kringumstæðum að leggja á sig mikla sunnudaga- og helgidagavinnu. Frá þeim tekjum, sem þannig fást fyrir bóndann, þegar tillit hefur verið tekið til slíkra atriða á báða bóga, ber svo að draga þær tekjur, sem bóndinn hefur af öðru en búskapnum. Nefndin hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að þegar allt þetta hefur verið tekið til greina, þá beri að lækka tekjuupphæðina um 1000 kr. eða 6,45%, og kemur út 14500, sem telst kaup bóndans í vísitölureikningnum“. — Ég verð að segja, að hér fer n. fljótt yfir ákaflega fjölþætt og vandasamt rannsóknarefni, og er erfitt að segja, hvort þessi niðurstaða sé rétt. Það virðist einkennilegt, ef tekjur bænda af helgidagavinnu eru teknar í reikninginn, að ekki skuli getið um, að reiknað sé með hinu, að stórmikið af tekjum verkamannsins stafar frá eftirvinnu og helgidagavinnu. Það getur hver maður sannfærzt um, þótt hann geri ekki annað en bera saman árstekjur verkamanna og kauptaxtann. Það má vera, að þessi útreikningur n. verði útskýrður nánar, en meðan það er ógert, er hann vægast sagt lítt trúlegur til að vera nákvæmlega réttur, frekar en margt annað í nál.

Ég er sammála orðum hv. 5. þm. Reykv. (BrB), að vitanlega sé ekki hægt með einfaldri þáltill. að breyta l. um þessi atriði.