09.12.1943
Neðri deild: 60. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í C-deild Alþingistíðinda. (2258)

186. mál, tekjuöflun vegna dýrtíðarráðstafana

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. — Ég ætla hér fyrst að víkja nokkrum orðum að því, sem hv. 4. þm. Reykv. gat um í ræðu sinni, og vil þegar taka það fram, að hjá honum gætti misskilnings, er hann tók fram, til hvers nota ætti þennan skatt. Ég tók það greinilega fram í ræðu minni, að frv. þetta væri fram borið í því skyni að hægt yrði að hafa hemil á dýrtíðinni, en gat þess um leið, að gerðar yrðu samþykktir, sem yrðu í sambandi við fjárl., um verðlagsuppbætur á landbúnaðarafurðir.

Þá minntist hann á verðlækkanir, og finnst mér það koma úr hörðustu átt, þegar forsvarsmenn neytenda gera mikið veður út af því eða áfella stj. fyrir það að lækka verð á vörum. Í því sambandi vildi ég minnast á það, þegar kartöflulækkunin var gerð. Mætti hún mjög ákveðinni gagnrýni í blöðum vinstri flokkanna, þrátt fyrir það að upplýst væri, að 50–60% af landsmönnum ættu eftir að kaupa kartöfluforða sinn. Ég fæ því ekki skilið þann málaflutning að halda slíku fram, að þetta allt sé gert til þess að svíkja vísitöluna og hækka dýrtíðina. Í þessu sambandi vil ég benda hv. þm. á til leiðbeiningar, að síðasta lækkunin, sem mér virðist hann einnig fordæma, er ekki gerð af hálfu stj. Fæ ég því ekki skilið, hvers vegna forsvarsmenn neytenda hafa á móti því, þótt saltkjöt sé lækkað í verði, þegar allur landslýður kvartar og kveinar yfir því, hve dýrtíðin er mikil í landinu. Hv. þm. sagði, að þegar auðvelt er að afla tekna, ætti ekki að hækka tolla á nauðsynjavörum almennings. Þetta er alveg rétt, en hér var borið fram frv. fyrir nokkrum dögum, en hverjir voru á móti því og felldu það frv.? Það voru einmitt fulltrúar neytenda. Þarna var beinn skattur, sem lenti ekki á verkamönnum. Sama er að segja þessum þm., þegar hann sagði, að skattaaukningin lenti á lágtekjumönnum, Þetta er alveg rétt, en því er líka til að svara, að í Ed. var á ferðinni skattur, sem lenti ekki á lágtekjumönnum, en á sömu leið fór um það, því að flokksbræður hv. 2. og 4. þm. Reykv. stóðu aðallega að því að fella það.

Hv. 2. þm. Reykv. minntist á skömmtun og á svarta markaðinn. Hann sagði, að hér væru skammtaðar ýmsar vörur, og spurði, hvers vegna vörur eins og smjör væru ekki skammtaðar. Ég þarf ekki að benda jafnvel greindum manni og hv. 2. þm. Reykv. á, að það eru ákaflega mikil vandræði að skammta vörur, sem lítið er af, og það er ógerningur að skammta vörur, sem svo lítið er af, að ekki helmingur landsmanna getur fengið. Ég get í þessu sambandi skýrt frá því, að fyrir skömmu var athugað mjög vandlega, hvort ekki væri unnt að taka upp skömmtun á kaffibæti, vegna þess að mjög lítið var til af honum. Þeir, sem um málið fjölluðu, komust að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki hægt að taka upp þessa skömmtun, einmitt vegna þess, hve lítið var til af þessari vöru. Það er ekki hægt að gefa út nokkra skömmtunarseðla, sem aðeins 20–30% af landsmönnum geta fengið, en hinir ekki neitt. Mér þykir þetta alveg jafnleitt og hv. 2. þm. Reykv., að þessi vandkvæði eru á þessu, en það þýðir ekki annað en að láta skynsamleg rök ráða.

Síðan veik hann að svarta markaðinum. Það kann vel að vera, að hér sé svartur markaður á nokkrum vörutegundum. Ég hef heyrt getið um svartan markað á eggjum, en ekki heyrt, að hann væri til á smjöri. Ég verð þó að segja það, að þó hér væri til svartur markaður á einni eða tveim vörutegundum, þá er það miklu minna heldur en hjá stórþjóðunum, sem hafa skipulagt þessi mál miklu nákvæmar, en þó þróast svarti markaðurinn þar í miklu stærri stíl en hér á landi. Ég er ekki að mæla slíku bót, og það verður gert allt, sem hægt er að gera, til þess að uppræta slíkt og þó sérstaklega með eggin. Í þessu sambandi vil ég því benda á það, að það er ekki nóg að segja með stórum orðum, að eitthvað fari aflaga, menn verða líka að geta gert sér grein fyrir, hvers vegna það fer aflaga, og geta sett sér fyrir sjónir, að þetta geti verið erfiðleikum bundið, jafnvel fyrir þá, sem hafa mikinn vilja til að lagfæra þessi mál.

Hv. þm. sagði, að með þessu frv. væri verið að lækka kaup verkamanna, vegna þess að hér væri verið að taka toll af nauðsynjum þeirra. En hér komum við aftur að því sama, þetta er borið fram vegna þess, að flokksbræður þessa þm. felldu frv. í Ed., og kom það þó ekki við nauðsynjar verkamanna.

Þá sagði hv. þm., að við værum að kaupa okkur frið um þetta mál. En hvað má sesja um ráðstafanir Bretlands í þessum efnum? Þar hefur engum dottið í hug, að þær tugmilljóna greiðslur, sem Bretar nota til þess að greiða niður verð á vörum, væru gerðar til þess að kaupa stjórninni frið. Við vitum, að við lifum á óvenjulegum tímum, og við vitum það líka, að um leið og þessir óvenjulegu tímar líða hjá, þá þurfum við á allt öðrum ráðstöfunum að halda. En Bretar hafa nú hingað til verið taldir hafa hagað sér mjög skynsamlega í styrjaldarrekstri sínum, hvað snertir verðlag á vörum innan lands, og ég hygg, að við eigum enn langt í land til þess að komast á jafntryggan grundvöll og þeir standa nú.

Hér er talað af miklum fjálgleik um þessi mál, og stj. er vítt við hvert tækifæri, sem gefst, fyrir það, sem hún gerir í þessum málum. En hvaða leiðir benda þessir góðu herrar á, og hvaða leiðir vilja þeir fara í þessum málum? Hv. 2. þm. Reykv. hefur komið fram með tvær leiðir, sem hann skýrði frá hér áðan. Fyrsta leiðin var að lofa hvoru tveggja, Alþ. og þjóðinni, að reka sig á. Þetta er úrræðið. Ég held, að það þurfi ekki að fara út í langa ræðu til þess að komast að þeirri niðurstöðu. Þegar svo stendur á, er auðvelt að kasta sér út í öngþveitið, og það er auðveldara að tala en eiga að bera ábyrgðina. Hin leiðin, sem hann benti á, er tollaleiðin. Þessi leið hefur verið athuguð af hinni nýju sex manna n., og hefur hún komizt að þeirri niðurstöðu, að verði sú leið farin, sem þeir kjósa, sem sé að afnema tollana, muni vísitalan lækka um 15 stig, og það er lauslegur útreikningur, að þetta muni kosta ríkissjóð 11–15 millj. kr. Ég skal taka það fram, að ég álít, að þessi upphæð sé miklu hærri. En það er mergur málsins og það, sem flokksmenn þessa þm. ætla að byggja aðrar dýrtíðarráðstafanir sínar á, sem sé að lækka vísitöluna um 15 stig og ríra tekjur ríkissjóðs um 11–15 millj. kr. Ég held, að ég þurfi ekki að halda langa ræðu til þess að sýna þessum góðu herrum fram á, hversu mikil fjarstæða þetta er, — svo mikil fjarstæða, að það sæmir ekki þessum þm. að halda slíku fram. Þetta er þó sú leið, sem þeir eru búnir að tönnlazt á í mjög langan tíma. Síðan kemur það einkennilega fyrir, að flokksbróðir hv. 2. þm. Reykv. í Ed. gat þess í sambandi við umr. um verðlækkunarskattinn, að hann gæti hugsað sér að samþ. hann, ef hann rynni til þess að bæta ríkissjóði þann skaða, sem mundi leiða af lækkun tollanna.