09.12.1943
Neðri deild: 60. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (2260)

186. mál, tekjuöflun vegna dýrtíðarráðstafana

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Þegar á að rökræða þetta frv., sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram á þskj. 606, kemur fyrst og fremst tvennt til álita, og það er: Til hvers á að verja því fé, sem hæstv. ríkisstj. hyggst að ná með frv. þessu, ef að l. verður, og í öðru lagi, hvernig er þessa fjár aflað? Grg. hæstv. ríkisstj. um fyrra atriðið er furðu fáorð. Þar er sagt með ofur einföldum orðum, að það sé nú orðið ljóst, að ekki verði nægilegur tekjuafgangur á fjárl. næsta árs til þess að standa straum af nauðsynlegum ráðstöfunum vegna dýrtíðar. Það væri þó rangt að segja, að nokkur gengi þess dulbúinn, til hvers á að verja þessu fé. Það hefur greinilega komið fram í umr. um dýrtíðarmálin á síðustu tímum og einnig komið fram í ræðu hæstv. fjmrh. Fénu á að verja til þess að halda áfram þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið um hríð, að borga niður með framlögum úr ríkissjóði verð á landbúnaðarafurðum og þá fyrst og fremst kjöti og mjólk á innlendum markaði. Og þegar þetta frv. er rætt, þá verður ekki komizt hjá að gagnrýna þá stefnu, rökræða hana frá báðum hliðum og það, sem í þessu felst, að borga niður verð á landbúnaðarafurðum á innlendum markaði með framlögum úr ríkissjóði. Það er bezt að gera sér strax ljóst það meginatriði, að í þessum ráðstöfunum felst alls engin barátta við dýrtíðina, alls engin tilraun til þess að lækka dýrtíðina. Það má vera öllum eins ljóst og tveir og tveir eru fjórir, að mjólkurverðið í landinu er það sama, hvort sem neytendur borga beint úr sínum vasa kr. 1.70 fyrir mjólkina eða þeir borga beint úr sínum vasa aðeins kr. 1.45 og úr ríkissjóði séu borgaðir 25 aurar. Sama máli gegnir að sjálfsögðu, hvaða vörutegundir sem nefndar eru í þessu sambandi. Hér er ekki á neinn hátt verið að berjast gegn háu verðlagi í landinu, ekki verið að berjast gegn dýrtíðinni, heldur verið að berjast gegn hárri vísitölu.

Nú vil ég taka það strax fram, að baráttan gegn hárri vísitölu er vissulega skýranleg, og það eru viss rök, sem undir hana falla. Og til þess að sýna hæstv. ríkisstj. fulla sanngirni, þykir mér ekki nema rétt og sjálfsagt að rifja upp þau meginrök, sem fyrir því geta verið út af fyrir sig að vinna að því að lækka vísitöluna. Það er öllum lýðum ljóst, að væri íslenzka ríkið viðskiptaheild út af fyrir sig, sem þyrfti ekki að hafa nein samskipti fjárhagsleg við aðrar þjóðir; þá varðaði það litlu máli, hversu háttað væri dýrtíðarmálum hjá okkur. Spurningin væri þá fyrst og fremst eða eingöngu sú, hvernig tekjum þjóðarbúsins væri skipt — á milli stétta og einstaklinga í þjóðfélaginu. En nú er það svo, að við erum jafnvel öðrum þjóðum fremur háðir viðskiptum við aðrar þjóðir, þar sem framleiðsla okkar er ákaflega fábreytileg. Og vissulega er það staðreynd, sem hæstv. ríkisstj. virðist mjög festa augun við, að það skiptir ákaflega miklu máli í sambandi við viðskipti okkar við aðrar þjóðir, hvað vísitölunni líður og þar með kaupgjaldi í okkar eigin landi. Og það skal viðurkennt, að eins og sakir standa um fiskverðið, þá mun það vera mjög hæpið, að sjávarútvegurinn geti risið undir öllu hærri vísitölu en nú er. En rétt er þó í þessu sambandi að geta þess, að það er einmitt þessi sama ríkisstj., sem nú heyr baráttu sína við vísitöluna vegna sjávarútvegsins, sem gert hefur samninga um fiskverðið við aðrar þjóðir, og að sjálfsögðu verður það að skrifast á hennar reikning fyrst og fremst, hversu til hefur tekizt um þá samninga. Og það er auðvitað á grundvelli þeirra samninga og þess verðs, sem nú fæst, sem um það er talað og með allmiklum rétti, að sjávarútvegurinn þoli ekki öllu hærri vísitölu en þá, sem nú er. Og það er hægt í þessu sambandi að benda hæstv. ríkisstj. á það, að ýmsar leiðir aðrar gætu verið til að létta of þungar byrðar sjávarútvegsins en þær að berjast í sífellu við vísitöluna og þar með kaupgjaldið í landinu. Ef hæstv. ríkisstj. hefur talið sér ókleift að ná þeim samningum um fiskverðið, sem svöruðu til hinnar raunverulegu dýrtíðar í landinu, þá er skiljanlegt, að hún hefur talið sig tilneydda til að grípa til einhverra ráðstafana vegna sjávarútvegsins. T. d. var hægt að hugsa sér, að hún keypti erlendan gjaldeyri hærra verði fyrir sjávarútveginn eða vissan hluta sjávarútvegsins en hið skráða gengi svarar til. En hina leiðina hefur nú hæstv. ríkisstj. kosið að fara, sem sé þá að lækka vísitöluna og lækka launin. Og þar með er verið að velta þeim erfiðleikum, sem af dýrtíðinni stafa fyrir atvinnulíf okkar, og sjávarútvegsins fyrst og fremst yfir á bök launastéttanna í landinu.

Þetta er sú stefna hæstv. ríkisstj., sem liggur til grundvallar vísitölubaráttu hennar. Það er þetta, að láta launþegana um land allt bera aðalerfiðleikana og þungann af dýrtíðinni. Ég get ekki látið hjá líða að segja, að skelfing þætti mér viðkunnanlegt, ef hæstv. ríkisstj. vildi nú fara að nota hin réttu heiti um þá baráttu, sem hún er að heyja og vill heyja, — að hún vildi segja það hreinlega, að hún er að berjast við vísitöluna, en ekki dýrtíðina, að hún er að reyna að velta erfiðleikum dýrtíðarinnar yfir á launastéttirnar í landinu.

Það er nú þegar af þessum ástæðum, að ég verð að lýsa yfir því, að ég tel, að ekki geti komið til mála, að nokkur sá maður, sem ber hag launastéttanna fyrir brjósti, geti fylgt frv. hæstv. ríkisstj., — þegar vegna þess tilgangs, sem það stefnir að, án tillits til þess, sem þó er stórt meginatriði, hvernig teknanna á að afla til þess að framkvæma þessa baráttu gegn vísitölunni.

En þá er rétt að koma að því, hvernig fjárins á að afla. Og ég held, satt að segja, að það sé næstum met hjá hæstv. ríkisstj., sem í orði kveðnu segist vera að berjast við dýrtíðina, að hún leggur nú til að hækka verðlag á allri erlendri nauðsynjavöru með því að leggja 2% gjald á cif-verð allra innfluttra vara. Innflutningur þessa árs mun nema eitthvað nálægt 250 millj. kr., og þarna yrði því lagt ofan á verðlag vörunnar svona til að byrja með 5 millj. kr. Ofan á þetta kemur svo að sjálfsögðu verzlunarálagning og aðrir tollar o. s. frv., o. s. frv., og hygg ég, að ekki sé hátt í lagt að ætla, að verðlag erlendra vara mundi hækka vegna þessarar ráðstöfunar einnar um 8 millj. kr. a. m. k., og slíkt er bein hækkun dýrtíðarinnar. Þetta er því ákaflega merkileg barátta gegn dýrtíðinni af hálfu hæstv. ríkisstj., sem segist vera að berjast við dýrtíðina. Hins vegar er það staðreynd, að aðeins nokkur hluti hinna erlendu vara hefur áhrif á myndun vísitölunnar. Og þess vegna getur hæstv. ríkisstj. unnið það tvennt í senn að auka dýrtíðina og svo lækka vísitöluna með þeim peningum, sem af dýrtíðaraukningunni fljóta. Þetta atriði í frv. út af fyrir sig skilst mér vera þess eðlis, að ég fæ ómögulega skilið þann hv. þm., sem gæti léð því lið út af fyrir sig, um leið og hann segir, að hann telji nauðsyn til bera að berjast við dýrtíðina í landinu, að lækka dýrtíðina. Önnur fjármálaöflunarleið hæstv. ríkisstj. er svo sú að leggja 15% ofan á tekju- og eignarskatt. Út af fyrir sig getur það vel verið leið til athugunar að hækka hina beinu skatta til þess að heyja raunhæfa baráttu við dýrtíðina. En hitt er fráleit leið, að þingið geri það á þann hátt að leggja vissan hundraðshluta ofan á skattana án tillits til þess „skala“, sem skattakerfið hvílir á. Og enn fráleitara er að ætla að verja þá skattahækkun á þann hátt, sem ég nú hef verið að lýsa.

Hæstv. ríkisstj. segir sem svo: Ef þið viljið ekki fallast á till. mínar., hvar eru þá ykkar till.? — Við sósíalistar höfum bent skýrt og skilmerkilega á megintill. okkar, sem að því miðar að berjast gegn dýrtíðinni. Hæstv. fjmrh., sem ég þykist nú sjá, að ekki telji sig þurfa að hlýða á mál manna hér í hv. d., lét allmörg orð um það falla hér í dag, að þessi leið mundi ekki á neinn hátt vera líkleg til úrbóta. — Ég gæti náttúrlega snúið mér við og talað inn í ráðherraherbergi. — Ég vil leyfa mér að benda hæstv. fjmrh., sem situr í ráðherraherberginu, á það, að það hefur verið reiknað út og er viðurkennt af honum sjálfum, að með því að lækka tolla um ca. 11 millj. þá mætti svo fara, að vísitalan lækkaði í fyrstu umferð um 15 stig. Því hefur verið einnig haldið fram af þeim sérfræðingum, sem þetta hafa reiknað, að af þessari fyrstu lækkun vísitölunnar mundi brátt leiða aðra, sem næmi 5–7 stigum, og yrði þá lækkun vísitölunnar öll rúmlega 20 stig á tiltölulega skömmum tíma. Hins vegar mundi ríkissjóður græða við það í lækkun útgjalda um 3 millj. kr. Nú virðist mér það vera óhrekjanleg staðreynd, að fái þessir útreikningar sérfræðinganna staðizt, þá er hægt að ná sama árangri í lækkun vísitölunnar með þessari niðurfellingu tollanna og hæstv. ríkisstj. hyggst ná með álíka beinu framlagi úr ríkissjóði eins og á að afla með því 2% gjaldi á cif-verð allra innfluttra vara og 15% álagningu á tekju- og eignarskattinn. Hins vegar er á þessum tveimur aðferðum reginmunur. Önnur aðferðin, að lækka tollana, leiðir til verðlækkunar í landinu og raunverulegrar dýrtíðarlækkunar. Og afleiðingin mundi þá verða vísitölulækkun, sem mundi þá verða sjávarútveginum og öðrum atvinnuvegum í hag. En af hinni leiðinni, sem hæstv. ríkisstj. vill fara, leiðir beina dýrtíðarhækkun, en aðeins vísitölulækkun. Á þessu er sá reginmunur, að ég ætla, að hæstv. ríkisstj. muni vel og fyllilega gera sér hann ljósan og þess vegna hljóti hér á bak við að liggja ákveðin stefna, sú stefna hæstv. ríkisstj., sem ég hef áður vikið að nokkrum orðum, að vilja láta hin breiðu bök fjöldans, hinar vinnandi stéttir landsins, bera þau óþægindi, sem af dýrtíðinni stafa.

Hæstv. ríkisstj. segir sem svo, að hún hafi borið fram till. um verðlækkunarskatt í hv. Ed., en að hv. þm. hafi ekki viljað við það hlíta, heldur fellt þann skatt. Þetta er rétt. Hæstv. fjmrh. gat þess í dag, að einmitt þm. Sósfl. hefðu beitt sér alveg sérstaklega gegn þessum skatti, en það hefði þó komið í ljós hjá þm. flokksins, að flokkurinn teldi, að skatturinn út af fyrir sig gæti komið til mála, ef hægt væri að nota hann til þess að vega upp á móti lækkun á tollum, sem sé nota hann til beinnar lækkunar á dýrtíðinni. Þetta er vafalaust rétt hermt hjá hæstv. fjmrh., og ég ætla, að hann muni skilja, hvað á bak við þessa stefnu býr. Hann sem sé undrar sig ákaflega mikið á því, að slíkt sjónarmið skyldi koma fram. En hér ber að þeim sama brunni, sem ég hef áður um rætt, að meginatriðið í öllum þessum umr. er það, hvaða leið á að fara, hvort vinna á að lækkun dýrtíðarinnar eða lækkun vísitölunnar. Sósfl. vill ekki standa á móti því, að ríkisstj. fái fé handa milli til þess að vinna gegn dýrtíðinni, til að lækka dýrtíðina, en mun standa á móti því, að hún fái fé milli handa til þess að lækka vísitöluna án þess að lækka dýrtíðina. Sósfl. mundi vera með verðtollunarskatti, sem væri viðbót á venjulega beina skatta, til baráttu gegn dýrtíðinni, en ekki til baráttu gegn vísitölu án baráttu gegn dýrtíðinni.

Ég vil nú þessu næst fara um það nokkrum orðum, hvað samþykkt þessa frv., sem hér liggur fyrir, mundi fyrst og fremst þýða. Ég vil gera hæstv. ríkisstj. og hv. þm. grein fyrir því, hvaða afleiðingar þetta frv. hlýtur að hafa í för með sér, ef samþ. verður. Fyrsta og augljósasta afleiðing þess mundi verða sú, að launþegar um land allt mundu rísa upp sem einn maður og krefjast grunnlaunahækkunar, þegar gert væri tvennt í senn, að auka dýrtíðina í landinu og lækka vísitöluna og þar með launin. Það færi ekki hjá því um þær stéttir, sem til þessa hafa sýnt ótrúlega mikla þolinmæði, að þolinmæði þeirra þryti og þær kæmu fram sem einn maður í byrjun næsta árs og krefðust grunnlaunabóta, sem fyllilega bættu þeim upp það áfall, er þær mundu verða fyrir, ef þetta frv. yrði að l. gert. Vel má svo vera, að hæstv. ríkisstj. hiki ekki við að efna til slíks ófagnaðar. Hún um það, en hennar er þá að taka afleiðingunum. En það er rétt, að við þessu sé varað, frá því skýrt, að ekki getur hjá því farið, að verkalýðssamtökin öll rísi upp og krefjist fullra bóta fyrir það, sem félagar þeirra mundu verða sviptir með þessari lagasetningu. Og ekki verða þau samtök hér ein að verki. Aðrar stéttir hafa þegar myndað með sér vel skipulögð og voldug hagsmunasamtök, og þau munu koma með sínar kröfur um aukin fríðindi til þess að mæta því, sem af þeim væri tekið, ef frv. hæstv. ríkisstj. yrði gert að l. — Þetta er hin fyrsta og augljósasta afleiðing, sem af samþykkt þessa frv. hlyti að fljóta.

Aðra afleiðingu hlyti það að hafa í för með sér að samþ. þetta frv. Með því yrði sú breyt., að raunverulega fengi hæstv. ríkisstj. þingræðislegan grundvöll að standa á, og má vel vera, að hún óski þess. Og má líka vel vera, að ekki fari illa á því. Það er augljóst, að þetta frv. felur í sér öll meginatriði í stefnu hæstv. ríkisstj. Hún hefur haldið því fram, að hlutverk sitt sé að vinna gegn dýrtíðinni. Og hún leggur nú fram hér, að manni skilst, sínar síðustu till. og segir: Hér er mín aðferð. Og þeir þm., sem á þá aðferð fallast, hafa vissulega tekið ábyrgð á hæstv. ríkisstj., enda skilst mér á því, sem fram hefur komið, að hæstv. ríkisstj. muni ekki óska eftir því að sitja á stóli öllu lengur, ef þetta frv. hennar verður fellt. Það má því vissulega svo fara, að þetta frv. marki nokkur tímamót í íslenzkri stjórnmálasögu. Og það hlýtur raunar svo að fara, því að meðferð þessa frv. ákveður afstöðu Alþ. til hæstv. ríkisstj.

Ég get svo ekki látið hjá líða að minnast með örfáum orðum á þá meðferð, sem ætlazt er til, að þetta frv. hæstv. ríkisstj. sæti, og minnast einnig í því sambandi á önnur stjórnarfrv., sem þingið hefur fjallað um.

Í gærkvöld, þegar verið var að ljúka 3. umr. fjárl. og hæstv. forseti hafði lýst yfir því, að umr. yrði lokið í nótt, var komið með nýja útgjaldatill., sem var flutt af mönnum í fjhn. og nemur hvorki meira né minna en 10 millj. kr. útgjöldum, ef samþ. verður, og þessu fé á að verja til þess að borga. uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir. Það er komið með þetta svo síðla, til þess að tryggt sé, að umr. fari fram á einni nóttu yfir nærri því auðum stólum. Sælzt er til að ganga fram hjá þingsköpum og venjum og láta málið ekki koma fram við 2. umr., eins og vera bar, því að það á að afgr. það með skyndi og útiloka þinglegar umr. og þinglega meðferð. Það er ekki einu sinni borið fram í byrjun umr., heldur er laumazt með það inn, þegar aðeins eru eftir nokkrar klukkustundir að næturlagi.

Hæstv. ríkisstj. leggur fram frv., sem fer í þá átt að leggja á landsmenn allt að 10 millj. kr., og hún fer fram á, að þingið verði nú vikaliðugt og afgreiði málið í skyndi. Hún ætlar að hafa hraðan á og mælist til þess, að fjvn. beggja deildanna taki málið til athugunar í sameiningu, og þær eiga að hafa lokið störfum annað kvöld. Og svo bæta þeir við: Þm. eru orðnir heimfúnir, því að nú fer að líða að jólum, og nú verðið þið að vera fljótir og góðir, svo að þið fáið að fara heim. — Þetta eru furðuleg vinnubrögð og þinginu hin mesta óvirðing ger með þeim. Alþ. ber að ræða hvert mál við þrjár umr. og láta líða ákveðinn tíma milli umr. Þetta eru vinnubrögð, sem hafa raunar tíðkazt áður í sambandi við stórmál hin síðari árin, og er fyrst að minnast þess, að á sumarþ. 1942 var samþ. með einfaldri þáltill. útgjaldaheimild fyrir ríkisstj., sem nam 15 millj. kr. Þá var hraðinn svo mikill, að því var neitað, að þessi till. færi til n., og var ekki einu sinni greitt atkv. um hana í fjvn., eins og vera bar, heldur var hún keyrð í gegnum þingið með ofríki nokkurra þm., og áttu fæstir þess kost að gera sér grein fyrir því, til hvers verja átti þessu fé. Þetta eru víti til að varast, en ekki til eftirbreytni. En samt er farið í þennan slóða, bæði með þessari 10 millj. kr. till. í gær, sem borin er fram í fundarlok, og nú með þessari 8–10 millj. kr. till. hæstv. stj. Hér ber hv. þm. að spyrna við fótum. Það stoðar ekki að hespa málin af með óeðlilegum hraða, þó að jól séu fyrir dyrum og ýmsa þeirra kunni að langa heim eða. hæstv. ríkisstj, kunni að langa til, að stefnumál sín séu rædd sem minnst.

Ég get ekki komizt hjá að taka til samanburðar þá meðferð, sem Alþ. hefur haft á ýmsum stórmálum þjóðarinnar, sem hér hafa legið fyrir. Á öndverðu þingi var eitt mesta hagsmunamál Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og bænda á Suðurlandi, mjólkurmálið. Þá var ekki verið að flýta sér. Það mun hafa verið hér tólf sinnum á dagskrá, áður en það kom til hv. landbn., en þangað kom það 25. okt., og allar stundir síðan hefur það dvalizt hjá þeirri hv. n. Önnur mál varðandi mjólkina hafa verið hér á ferð innan þingsala og sætt álíka meðferð, og var þó verið að ræða eðlilegan grundvöll að samskiptum bænda og neytenda, sem allan almenning varðaði. Þá hafði þingið ekki annað að bjóða en bið á bið ofan. Það er vissulega vel farið, að slík mál séu athuguð gaumgæfilega, en það er ekki þetta, sem vakti fyrir þeim, er fyrir þessu stóðu. Nokkrir hv. þm. töldu sér óhagstætt, að þessi mál yrðu rækilega íhuguð á Alþ. Nú er gagnstæður kostur tekinn, þegar verið er að níðast á þjóðarhagsmununum, og málinu hroðað af í skyndi.

Og ég kemst ekki hjá því að minnast á fleiri mál í þessu sambandi. Fyrir Alþ. var lögð mjög þýðingarmikil till. til þál. varðandi framleiðslu síldarafurða í stórum stíl. Allir þm. viðurkenndu, að hér væri um merkasta stórmál að ræða, sem framtíð íslenzks atvinnulífs getur verið undir komin. Allir viðurkenna, að sjávarútvegurinn er öflugasta stoð atvinnulífsins hér á landi, og síldveiðarnar eru sterkasti þátturinn í þeirri stoð. En þá er ekki verið að flýta sér, þegar byggja á upp til að efla atvinnulífið. Þá kemur töf á töf ofan, og svo virðist sem málið ætli ekki að ljúkast. Málið hefur að vísu verið rætt, og það hefur verið sent til n., en þar hefur það síðan legið óratíma, og ekkert bólar á því enn.

Ég ætla að benda á eitt mál enn. Lögð hefur verið fram þáltill. um að fela ríkisstj. að athuga möguleika á að kaupa fiskiskip í Svíþjóð og víðar. Allir vita, að þetta er hið mesta nauðsynjamál, og fiskiflotinn hefur nú á tímum ekki vaxið, heldur hið gagnstæða. Það er upplýst í sambandi við þessa till., að 66,2% af fiskiflotanum eru nú eldri en 20 ára. Þessi hlutinn er því orðinn úreltur og af sér genginn. Það er því vissulega mál málanna, að undinn sé að því bráður bugur að endurnýja fiskiflotann. En hér er ekki verið að hafa hraðann á. Þessi till. er ekki enn þá komin til umr. í Sþ. Þegar verið er að ræða um hagsmunamál þjóðarheildarinnar, þá er ekki verið að flýta sér, en þegar velta á erfiðleikunum yfir á hina snauðu í landinu og lækka launin, þá er pöntuð hraðafgreiðsla með afbrigðum og aftur afbrigðum. Og svo á að tryggja það, að þjóðin heyri sem minnst um þetta.

Ég vil minnast á annað atriði í sambandi við mjólkurmálin. Svo virðist sem ýmsir hv. þm. hafi þann hátt að síma út um byggðir landsins til að gera bændum grein fyrir því, hvað þeir sjálfir teldu hér vera á seyði, og var þá venjulega miður rétt frá skýrt. Svo koma þeir með miklu brauki og leggja fram símskeyti með samþykktum, er gerðar hafa verið á fundum bænda og samkvæmt þessum röngu upplýsingum. Samþykktir þessar eru þá líka yfirleitt eftir því. Það er að vísu réttmætt, að þjóðin fái að vita um stórmálin, en þar verður þá að fara rétt með, svo að menn geti myndað sér heilbrigða skoðun. En þessa er ekki óskað, þegar till. um 10 milljónirnar er lögð fram. Nei, þá er óskað eftir hraða. Þjóðin á ekkert að fá að vita, fyrr en allt er um garð gengið.

Ég get ekki stillt mig um að taka til samanburðar enn fleiri mál. Það hefur komið í ljós hér stórfelld eyðilegging á kjöti, og orðrómur hefur gengið um eyðileggingu fleiri matvælategunda, t. d. fisks. Í þ. var lögð fram till. um, að öll þessi mál yrðu rannsökuð til hlítar og gengið úr skugga um, hvað hæft væri í þeim orðrómi, sem gengið hefur um stórfellda eyðileggingu matvæla og ekki aðeins kjöts. Öllum má vera ljóst, að hér var nauðsynjamál á ferðinni. Það er í tíma gert að vara við því, að hér í okkar fámenna þjóðfélagi yrði farið inn á þá svívirðilegu braut, sem farin hefur verið með stórþjóðunum, í því skyni að halda uppi verðlaginu. Hér var krafizt rannsóknar, en þar var þó ekki verið að hafa hraðann á. Málið var tekið á dagskrá og til umr., en umr. er ekki lokið. Nú þurfa hv. þm. að fá heimfararleyfi og ekki von, að þeir hafi tíma til að afgreiða nauðsynjamál eins og mjólkurmál, síldarmál, skipakaup og rannsókn vegna matvælaeyðileggingar. En til hins, að samþ. á allan almenning í landinu 8–10 millj. kr. útgjöld, sem hækka dýrtíðina, en lækka vísitöluna, — til þess hafa þeir tíma.

Þá er enn eitt mál, hið svo kallaða olíumál. Það liggja fyrir upplýsingar frá hæstv. ríkisstj. um það, að óheyrilegt okur sé rekið í sambandi við olíuverzlunina, og það verður ekki betur séð eftir þeim upplýsingum en olíufélögin hafi stungið í sinn vasa frá útgerðarmönnum tveim millj. kr. á einu ári. Á þ. virðist vera fyrir vilji til að heimila hæstv. ríkisstj. að láta fara fram rannsókn út af þessu máli. En hvað gerist? Olíufélögin áttu verjendur á Alþ., og þeir þvæla málið og semja aftur á bak og áfram, og Alþ. gerir raunverulega ekkert í málinu. Hér var ekki verið að hafa hraðann á til afgreiðslu stórhagsmunamáls fyrir útgerðina. Hér hefði verið hægt að spara útgerðarmönnum mjög álitlegan skilding. Hvers vegna var ekki þessum málum fylgt eftir með oddi og egg? Vegna þess, að bæta átti hag útgerðarinnar á kostnað nokkurra stórgróðamanna og félaga. Það mátti ekki. En nú á að bæta hag útgerðarinnar á kostnað verkamanna og annarra launþega, og þá er annað upp á teningnum. — Ég vil þó geta þess til að láta hæstv. ríkisstj. njóta sannmælis, að hún hefur þó komið fram með frv. í olíumálinu, sem gæti orðið til úrbóta. En það er tafið og tafið, og mér kæmi ekki á óvart, þó að hv. þm. þættust ekki hafa tíma til að afgreiða það. En þeir hafa raunar tíma til að hækka dýrtíðina með því að lækka vísitöluna.

Ég ætla, að í því, sem ég hef þegar sagt, hafi komið fram allskýr mynd af þeim stefnum, sem ráða starfsháttum Alþ. og ríkisstj. Það er ekki nýstárleg mynd, sem þarna kemur fram í höfuðdráttum. Allt, sem gera á til að draga úr dýrtíðinni, á að gera með nefsköttum á þá, sem snauðastir eru í þjóðfélaginu. Allar aðgerðir, sem stuðla að því að efla alþjóðarhag á kostnað hinna auðugu, eru kæfðar og drepnar á Alþ. Mér virðist svo dásamlegt samræmi í stefnu Alþ. og hæstv. ríkisstj., að til þeirra málaloka megi draga, að sá meiri hl., sem tefur og eyðileggur öll þjóðþrifamál, taki nú á sig ábyrgð af ríkisstjórninni.

Ég sé, að hæstv. fjmrh. hefur flúið úr hv. d. Mér finnst þó, að þessi virðulegi ráðh. hefði getað látið vera að sýna Alþ. þessa lítilsvirðingu, að hverfa héðan, þegar rætt er um meginmál hans hæstv. ríkisstj., því að hann situr þó hér af ríkisstjórans náð. Ég hygg þó raunar, að svo muni fara, að hæstv. ríkisstj. fái sitt fram í þessu efni og geti þannig skapað sér þann þingræðislega grundvöll, sem hana hefur skort. Mér virðist allt hverfa að því, að Framsfl. og Sjálfstfl. ætli að víkjast vel undir það áhugamál hæstv. ríkisstj. að berjast gegn vísitölunni, en ekki dýrtíðinni, og berjast fyrir hagsmunum stórútgerðarinnar á kostnað hinna snauðu í landinu. En það hefði óneitanlega farið vel á því, að þjóðinni hefði verið gefinn kostur á að vita um það, sem fram er að fara, og málið hefði verið látið hljóta eðlilega og þinglega meðferð. Og ég vil beina máli mínu til hæstv. forseta og spyrja hann, hvort honum þyki ástæða til að hafa nætursetu til að hespa málið af og það sé rætt að mestu yfir tómum bekkjum. Ég mælist til, að fundi verði slitið um ellefu-leytið og það látið ráðast, hvort málinu heldur áfram næsta dag. Hann er þá orðinn því vanur að taka sömu málin á dagskrá dag eftir dag, og þarf ekki annað en minna á mjólkurmálið, sem var 12 sinnum á dagskrá og látið óátalið, þó að það hvíldi hjá hv. landbn. í hálfan annan mánuð. Nú ber hæstv. forseta að hafa eftirlit með störfum þingnefnda og því, að þær skili störfum af sér. Ég vænti, að hann vilji taka sér til fyrirmyndar þá meðferð, sem þessi stórmál hafa hlotið, að því leyti, að mönnum verði veittur ríflegur tími til að velta þeim fyrir sér. Væri ekki til mikils mælzt, þó að farið væri fram á, að hv. Nd. afgreiddi svona mál gegnum allar umr. á hálfum mánuði og hv. Ed. fengi svipaðan tíma til að fjalla um það?

Ég vil endurtaka þá fyrirspurn mína til hæstv. forseta, hvort hann telji ekki rétt að ljúka fundi nú um kl. 11 og gefa málinu eðlilegan tíma til að sæta þinglegri meðferð.