09.12.1943
Neðri deild: 60. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (2261)

186. mál, tekjuöflun vegna dýrtíðarráðstafana

Forseti (JörB):

Út af umkvörtunum hv. 8. þm. Reykv., að hæstv. fjmrh hefði gengið af fundi, tel ég mér skylt að upplýsa, að hann var kvaddur í síma.

Um þá fyrirspurn hans, hvort ég sæi mér ekki fært að slíta fundi kl. 11, vil ég segja, að hv. þm. hefur heyrt óskir hæstv. ríkisstj. um, að málinu væri hraðað sem mest.

Þótt ég amist ekki við því, að málefni þau, sem fram eru borin, sæti þinglegri meðferð, þá tel ég mér skylt að. verða við tilmælum flm., eftir því sem við verður komið, og veit, að hann getur fallizt á það með mér, að eðlilegt sé, að hæstv. ríkisstj. sé annt um, að þetta mál verði afgreitt sem fyrst til 2. umr., einkanlega þar sem nýlega er búið að fella annað svipað mál, sem hún stóð að, á Alþ., — og mun það ekki hafa verið tilgangur hennar að bera þetta frv. fram, en það mun fram komið, vegna þess að hitt var fellt. Hv. d. hefur í sinni hendi á hinn bóginn, hve mikinn tíma hún vill taka til meðferðar málsins. Ég vil gefa hv. þm. tækifæri til að ræða málið, eftir því sem þeim finnst þurfa.

Hv. þm. geta ekki kvartað yfir því, að fundir hafi staðið langt fram á kvöld á þessu þingi. Þó er ekki ótítt, að þingfundir lengist síðari hluta þings. Framan af þingi eru þeir stuttir, en verða síðar lengri, þegar málin hafa fengið afgreiðslu í n.

Viðvíkjandi máli því, sem hv. 8. þm. Reykv. drap á, — frv. um sölu mjólkur og rjóma, þá veit ég, að hv. þm. minnist þess, að ég hef gert það að umtalsefni á fundi nýlega, hve lengi það hefur verið í n. Forseti á að fylgjast með nefndarstörfum, en hann getur þó ekki annað gert en minna n. á að skila störfum. Ef n. skilar ekki málum, þá getur forseti tekið þau fyrir í þd., en það er venjulega ekki gert, nema þeir, sem eru flm. þeirra, óski sérstaklega eftir því, — en venjulega er það ekki gert.

Um fundarsókn er það að segja, að það er sjálfsagt að verða við ósk þm. um að veita fjarveruleyfi, þegar þm. eru forfallaðir vegna lasleika, en yfirleitt hafa þess konar tafir, sem þó eru orðnar nokkrar á þessu þingi, ekki verið með leyfi forseta. Það veit ég, að hv. 8. þm. Reykv. getur ekki ætlazt til, að forseti geri meiri ráðstafanir en þær að benda þm. á að rækja fundarsókn.

Ég hef hugsað mér að ljúka 1. umr. í þetta sinn um það mál, sem hér liggur fyrir, og ég ætla vissulega að gefa hv. þdm. tækifæri til að ræða málið ýtarlega. Þess vegna skal ég ekki taka hart á því, þótt hv. 8. þm. Reykv. „léti gamminn geisa fram“, eins og hann gerði áðan.