09.12.1943
Neðri deild: 60. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í C-deild Alþingistíðinda. (2264)

186. mál, tekjuöflun vegna dýrtíðarráðstafana

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er kunnugt, að núverandi stj. hefur talið það aðalhlutverk sitt að berjast á móti vexti dýrtíðarinnar í landinu. Um þetta gaf hún yfirlýsingu, þegar hún tók við völdum, og slík yfirlýsing hefur margsinnis síðan verið endurnýjuð. En þrátt fyrir yfirlýsingar stj. um þetta, hafa framkvæmdirnar í dýrtíðarmálinu undir forustu hennar orðið heldur litlar, eins og kunnugt er. Stj. afsakar þetta að nokkru leyti með því, að Alþ. hafi ekki viljað fallast á till. hennar til lausnar í dýrtíðarmálunum. En þær samþykktir, sem gerðar voru í dýrtíðarmálunum á síðasta þingi, hafa þó verið framkvæmdar af stj., og hún hefur talið þær samþykktir þingsins þess verðar, að hún færi áfram með völd, til þess að hægt væri að framkvæma þær. Nú var það svo, að þær dýrtíðarsamþykktir, sem gerðar voru á s. l. vetri, voru flestar miðaðar við eitt ár og það var þá vitað mál, að á þessu þingi þyrfti að endurnýja þessar samþykktir eða koma með nýjar till. í dýrtíðarmálunum, og þess var sérstaklega vænzt frá þeirri ríkisstj., sem taldi það sitt höfuðhlutverk að berjast gegn dýrtiðinni, að hún legði fram gagngerðar till. um þetta, þegar hún vissi, hvernig málin stóðu hér í þinginu. En svo hefur nú farið, að þrátt fyrir það að þetta þing er búið að sitja í fjóra mánuði, hefur engin till. frá stj. komið fram í þessu dýrtíðarmáli fyrr en nú, þegar komið er að þingslitum. Slíkt er alveg óskiljanleg starfsaðferð, og menn hljóta að spyrja, hvað hafi dvalið stj., hvað hafi tafið fyrir henni að koma fram með till. í höfuðbaráttumáli sínu, því sem hún taldi sig komna til valda til þess að leysa. Nú á síðustu dögum þingsins á svo að hespa þetta frv. í gegnum þingið með afbrigðum, og svo mikið liggur nú við, að ræða verður málið á næturfundum.

Ef athuguð er sú stefna, sem þegar hefur komið fram hjá stj. í dýrtíðarmálunum, og það samband, sem er raunverulega á milli stj. og tveggja stærstu þingflokkanna, og svo sú stefna, sem þeir flokkar hafa í dýrtíðarmálunum, þá skýrist það nokkuð fyrir mönnum, hvernig stendur á þessum einkennilegu vinnubrögðum, að leggja þessa till. fram í því formi. sem hún er, og á þeirri stundu og með þeim hætti, sem nú er gert. Þegar hæstv. stj. á s. l. vetri lagði fram stefnu sína í dýrtíðarmálunum, kom í ljós, að hennar aðal-meðal til lausnar dýrtíðarmálunum var launalækkun. Hún vildi, að dýrtíðaruppbætur á laun manna í landinu yrðu ekki greiddar nema sem svaraði 80% af dýrtíðinni. Þetta var í rauninni alveg sama stefnan og hafði áður komið fram hjá Framsfl. og Sjálfstfl., þegar þeir flokkar fengust við að leysa þessi mál. Það var alveg ljóst, að meiri hl. þm. var í rauninni sammála þeirri stefnu, sem stj. lagði þarna til, — sem sagt Framsfl. og Sjálfstfl. —, en þó náði þessi stefna ekki fram að ganga í það sinn, og ástæðan var sú, að verkalýðssamtökin í landinu höfðu styrkzt allmikið og voru þegar búin að kenna þessum flokkum það, að þeir höfðu ekki vald til þess að knýja fram slíkar launalækkanir. Niðurstaðan af þeim samþykktum, sem gerðar voru á s. l. þingi í dýrtíðarmálunum, var svo verðlækkunarskatturinn, skattur, sem fyrst og fremst kemur á hærri tekjur eða hátekjur. Og ætlunin var að nota þær tekjur, sem fengjust á þennan hátt, til niðurgreiðslna á ýmsum nauðsynjavörum. Einnig var samþ. með dýrtíðarl. að leggja 3 millj. kr. í sjóð til þess að mynda atvinnuleysistryggingar. Í stað þess, að upphaflega till. beindist að því að skerða mjög laun hinna vinnandi stétta í landinu, varð útkoman sú, að l. voru heldur til hagsbóta þeim stéttum en hitt. Okkur sósíalistum var það að vísu ljóst, að niðurgreiðsluaðferðin var vitanlega ófullnægjandi leið til að tryggja lausn á sjálfu dýrtíðarvandamálinu, þó að við teldum það þó þess virði með þeim ákvæðum, sem þarna höfðu fengizt inn, eins og t. d. 3 millj. kr. til atvinnuleysistrygginga, að samþ. l. þannig. Okkur var ljóst, að það voru miklir annmarkar á þessum dýrtíðarl., t. d. þótti okkur með þessum nýja skatti gengið mjög freklega á tekjustofna bæjar- og sveitarfélaga, og hlaut það að leiða til þess, að bæjar- og sveitarfélögin þyrftu að draga saman seglin um nauðsynlegar framkvæmdir heima hjá sér, því að þau þurftu að sjá fyrir þessum hækkuðu sköttum með hækkuðum útsvarsstiga hvert hjá sér. En þegar séð var, að ekki mundi fást samþ. á Alþ. nein launalækkun, eins og stj. hafði lagt til, var gengið inn á þá braut, sem haldið hefur verið áfram á síðan, að ná launalækkuninni með óbeinum hætti og þá með því að rangfæra þá vísitölu, sem launin voru reiknuð eftir. Strax við samþ. dýrtíðarl. á s. l. vetri mátti sjá, að stefnt var inn á þessa braut, og ég vil nefna dæmi um það, hvernig vitandi vits var gengið inn á þessa braut.

Það var ákveðið, að sérstaklega skyldi greiða niður verð á kjöti og mjólk, en það var ákveðið, að niðurgreiðsla á mjólk skyldi eingöngu gilda hér í Reykjavík, þar sem mjólkurverðið væri fyrir ofan kr. 1.35–l.40 l. Við sósíalistar bárum fram till. um það, að mjólkurverðið skyldi greiða niður hlutfallslega eins annars staðar á landinu, en þeir flokkar, sem fyrst og fremst hugsuðu um að ná fram fölsun á vísitölunni, hugsuðu að vísu um það að fá fram fé með verðlækkunarskattinum til þess að greiða niður mjólk, er aðeins, að hún væri greidd niður á þeim stöðum, þar sem mjólkurverðið kom inn í vísitöluna. Hitt var augljóst, að úti um landið, í hverju einasta þorpi, var mjólkurverðið að hækka allt árið, og hefði því vísitalan hjá þeim launþegum átt að hækka í staðinn fyrir það, að mjólkurverðið í Reykjavík var látið lækka vísitöluna hjá launþegum úti um landið. En þetta er aðeins eitt dæmi um það, hvernig stefnt var að því að reyna að fá fram kauplækkun. Baráttan var ekki við dýrtíðina sjálfa, að lækka hana, heldur fyrst og fremst um það að koma fram kauplækkun. En þó kastaði fyrst tólfunum í þessum efnum, þegar í byrjun þessa þings kom beiðni um það frá stj. að fá að hækka verð á áfengi og tóbaki, en það fékkst aldrei ljóslaga upp, hvað gera ætti við þær 8–10 millj., sem fengjust með slíkri hækkun á víni og tóbaki. Þá var því hvíslað, að nota ætti féð til þess að greiða niður dýrtíðina í landinu, til niðurgreiðslu á nauðsynjavörum almennings. Það, sem þá átti að fara að gera og hefur verið gert síðan, var það, að fólkið í landinu sem notaði jafn almennt og raun ber vitni um tóbak og áfengi, átti að borga hærra verð fyrir þessar vörur, en fá hins vegar kjöt og mjólk með lægra verði í staðinn. Það var vitanlegt og augljóst mál, að það kom alveg að einu og sama fyrir fólkið, hvort það hafði borgað kjöt og mjólk nokkrum krónum hærra hvert kg og hvern lítra, eða hvort það var látið borga það í tóbaki, sem það notaði. Þarna var í stórum stíl gengið inn á þá braut alveg vitandi vits að rangfæra vísitöluna. Það, sem vannst með þessu, var það, að kjöt og mjólk lækkaði í verði að vísu, en það lækkaði vísitöluna og kaupgjaldið, en þó að áfengi og tóbak hækkaði í verði, hækkaði það ekki vísitöluna neitt. Og þar af leiðandi hækkaði kaupið ekki af þeim ástæðum, og til þess voru refirnir skornir í þetta sinn, eins og áður hafði verið gert, þó að í smærri stíl væri. Það sýndi sig, þegar þessi beiðni kom fram um það, að stjórnin fengi heimild til þess að hækka verð á áfengi og tóbaki, að það stóð ekki á þeim, sem vitað var um, að fyrst og fremst vildu kauplækkun, Framsfl. og Sjálfstfl., að fylgja slíkri till. Þeir greiddu svo fyrir þeirri till., að hún fór í gegnum þingið, að ég held, á einum degi. Það er nú öllum ljóst, að slíkar ráðstafanir, að hækka verð á þeim vörum, sem fólk notar, eins og tóbak og áfengi, þó að það lækki verð á annarri vöru, sem það einnig notar, eru engar dýrtíðarráðstafanir, það er eingöngu vísitölusvindl.

En það þótti ekki nóg að koma með þessar ráðstafanir, og því er nú þetta frv. flutt, sem hér liggur fyrir til umr., sem er frv. um það að hækka enn á ný tollana í landinu og hækka þar með vöruverð til mikilla muna, m. ö. o. frv. um að hækka verðlag í landinu, hækka dýrtíðina, þótt það sé sagt, að það sé flutt í því skyni að lækka dýrtíðina. Sú samþykkt að leyfa hækkun á tóbaki og áfengi hefur um 8–10 millj. kr. tekjur í för með sér, miðað við vísitölu, og er það fyllilega eins há upphæð og þær tekjur, sem hafa fengizt með verðlækkunarskattinum. En auk tóbaks- og áfengisteknanna er svo farið fram á auknar tekjur um 7–8 millj. kr. með þessu frv. En meginástæðan til þess, að það er flutt, er sú, að sífellt fara vaxandi þær milljónauppbætur á landbúnaðarvörur, sem meiri hl. þings hefur ákveðið að greiða, og því verður vitanlega að grípa til slíkra ráðstafana sem hér er gert til þess að hafa fé í því skyni. Það er sem sagt vilji meiri hl. Alþ. að greiða milljónir kr. í verðuppbætur til stórbænda í landinu, manna, sem hafa yfir 14500 kr. í árslaun. Þó að þeir hafi 50 þús. kr. tekjur, þá greiðir ríkissjóður svo millj. kr. skiptir í verðuppbætur til þeirra manna, og eðlileg afleiðing þess verður frv. eins og þetta. Á einn eða annan hátt verður að ná peningunum inn, og er þá ekki hugsað um, þó að það verði til þess að hækka dýrtíðina, ef aðeins er hægt að koma því þann veg fyrir, að það þurfi ekki að hækka vísitöluna og halda mætti áfram að rangfæra hana eins og gert hefur verið undanfarin ár.

En það þykir ekki nóg að reyna að fegra þær ráðstafanir, sem hér er verið að gera, með því að tala um, að það fé, sem inn á að koma, eigi að fara til þess að greiða niður verð á nauðsynjavörum, heldur er því haldið fram, að þetta sé gert fyrir fiskimenn, það sé gert fyrir hlutarsjómenn og smáútvegsmenn. En í því sambandi langar mig til að benda á það, hvernig búið hefur verið að málefnum fiskimanna og hlutarmanna alveg sérstaklega varðandi þeirra dýrtíðarmál. Ég held, að hinn alkunni fisksölusamningur, sem er sérstaklega óhagstæður fyrir smáútveg landsins, hafi verið gerður af ríkisstj., og hann er sérstaklega óhagstæður fyrir smáútveginn vegna þess, að fisksölusamningurinn gerir ráð fyrir jafnháu verði fyrir hina dýru framleiðslu smáútvegsins, eins og t. d. ýsu og þorsk, eins og vörur stórútgerðarinnar, t. d. ufsa. Það á að fastbinda verð á fiski án tillits til verðs á útgerðarvörum. Þær eiga að hækka, án þess að fiskverðið breytist.

Hvað hefur ríkið gert til að hindra okur á vörum til útgerðarinnar? Það hefur ekki einu sinni fengizt til að taka upp eftirlit með nauðsynjum hennar. Það er öllum vitanlegt, að s. l. tvö ár hefur beitusíld verið seld á okurverði. Mörgum sinnum hefur verið farið fram á það við verðlagsyfirvöldin, að þau hindruðu verðhækkun á beitu, en ekkert hefur verið að hafzt. Hér í þinginu hefur verið upplýst um verðlag á olíu til útgerðarinnar. Með samþykki verðlagsyfirvaldanna græða olíuhringarnir á 3. milljón kr. á því að selja olíu til útgerðarinnar, og það er álit margra, að þeir græði enn meira en þeir hafa gefið upp til skatts. Ekkert hefur verið gert útgerðinni til hjálpar í þessu efni. Ekkert hámarksverð er á vélum og bátum. Það blasir við öllum, sem til þekkja, að ekki fer mikið fyrir aðstoð ríkisins við útgerðina. Þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, eru blekkingar einar og til þess að villa heimildir. Vil ég í tilefni af ummælum hv. 2. þm. S.-M., sem vildi leggja sérstaka áherzlu á, að hann og Framsfl. vildu styðja þetta frv. til þess að forða hlut fiskimanna frá vaxandi dýrtíð, segja það, að hann þarf ekki að halda, að fiskimönnunum í landinu sé ekki ljóst, hvernig Framsfl. hefur búið að þeim og að þetta er fyrst og fremst gert til þess að halda áfram milljónagreiðslum til stórbændanna í landinu. Þær ráðstafanir, sem Framsfl. virðist standa að, eru þessar:

1. Hækkun verðs á áfengi og tóbaki, sem er ekki nema til að auka dýrtíðina.

2. Tollahækkun, sem nemur verðhækkun á vörum um nálega 8 millj. króna.

3. Hækkun tekjuskatts, meðal annars á láglaunamönnum.

4. Dýrtíðarráðstafanir um að greiða milljónir kr. til stórbændanna í landinu.

Þetta eru ráðstafanir, sem eiga að ráða niðurlögum dýrtíðarinnar í landinu. Getur nú hver dæmt um það af sínum sjónarhóli, hversu vel þessi ráð muni gefast til að lækka dýrtíðina. En þau koma að liði til að lækka vísitöluna, til þess að ná fram kauplækkun með falsaðri vísitölu. Þessi leið er óhugsandi, og hljóta launastéttirnar að krefjast launahækkunar, þær eru neyddar til þess. Menn verða að gera sér ljóst, að afleiðingin getur ekki orðið önnur.

Þegar þetta er athugað, finnst mér vera fundin skýring á því., hvernig á því stendur, að ríkisstj. leggur nú fram þetta frv. í dýrtíðarmálunum. Það á að nota síðustu daga þingsins til að drífa málið í gegn með óeðlilegum hraða. Ríkisstj. er á sömu línu og Frams.- og Sjálfstfl. Hún hefur beðið eftir því, að þessir flokkar sæju sér fært að samþ. slíka till. Þeir treystust ekki til þess s. l. vetur og ekki fram að þessu, en helzt treysta þeir sér til að hespa þetta af nú í skyndi, ef menn átta sig ekki á, hvað er að gerast. Þess vegna er málið borið fram á þennan hátt. Það kann að vera, að einhverjir ráðherrarnir líti öðrum augum á málið, ríkisstj. sé ekki sammála. En vera má, að ráðh. sé ljóst, að vilji meiri hl. Alþingis kemur fram í þessari till., vilji Frams.- og Sjálfstfl. Þeir mega ekki heyra nefnda lækkun tolla, þótt þannig megi lækka bæði dýrtíðina og vísitöluna. Ástæðan til þess, að ríkisstj. ber ekki fram aðra till., er sú, að hún þarf fylgi meiri hl. við hana.

Við sósíalistar bentum á, að fyrst ætti að freista að lækka tolla, t. d. tolla á öllum nauðsynjavörum, en við það hefur ekki verið komandi. Lækkun tolla á neyzluvörum mundi nema um 11 millj. kr. Þessi lækkun mundi þýða 15 stiga lækkun vísitölunnar, segja hagfræðingar, og meiri lækkun á sjálfri dýrtíðinni. Bein afleiðing yrði a. m. k. 20 stiga lækkun vísitölunnar, að áliti þeirra, sem mikið hafa fjallað um þessi mál. Er það því undarlegt, að þeir, sem mest vinna að þessum málum, skuli ekki fallast á lækkun tollanna. Þessi 11 millj. kr. tekjumismunur mundi endurgreiðast með lækkun kaupgjalds. Það er alþýðan í landinu, sem borgar tollana, og er því vinningurinn mestur fyrir hana, ef þeir yrðu lækkaðir. Baráttan stendur hjá ríkisstj. og þessum tveimur flokkum fyrir því að lækka ekki sjálfa dýrtíðina, heldur koma fram launalækkun. Þess vegna er þessi leið ekki farin. Alþýðan í landinu segir við þá flokka, sem þykjast berjast á móti vaxandi dýrtíð: Byrjið þið á að lækka tollana, þar sem það gefur svona raunhæfa lækkun dýrtíðarinnar. Fyrr trúum við ekki, að þið séuð að berjast á móti vaxandi dýrtíð í landinu.

Fjármálaráðherra viðhafði þau orð um tollalækkun, að hún væri hreinasta fjarstæða, og efa ég ekki, að hún er það í augum þeirra, sem berjast á móti henni.

Ég get nú farið að ljúka máli mínu, en það er ekki óeðlilegt, þó að þm. vilji ræða nokkuð um svo mikilvægt mál sem þetta er, og gefst mér væntanlega tækifæri til að ræða það frekar síðar. En að endingu vil ég segja það, að öllum almenningi í landinu er ljóst, að með slíkri dýrtíðarráðstöfun sem þessari er ekki verið að bera fyrir brjósti hlut sjómanna og verkamanna. Það eru ekki aðrir en stóratvinnurekendur, sem græða á lækkun launa verkamannanna, því að dýrtíðarráðstöfun er þetta ekki.