01.10.1943
Efri deild: 28. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (2268)

74. mál, verðlag á landbúnaðarafurðum

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Hv. 3. landsk. þm. tók það fram, að það væri ekki rétt að blanda neinu karpi um réttmæti nál. í umr., en hann var samt sjálfur alllangorður um það, og tilefnið var, að á þennan grundvöll n. var nokkuð minnzt og skiptar skoðanir um hann. Sannleikurinn er, að þegar nm. var falið að finna þennan grundvöll, máttum við gera ráð fyrir, að ekki væri svo mikið af hagskýrslum til staðar, að hægt væri að fá grundvöll, sem ekki mætti endalaust deila um. En við höfum ástæðu til að halda, að grundvöllurinn hafi verið reiknaður út hlutdrægnislaust, þar sem að verki voru hagstofustjóri, sem er þaulæfðasti hagfræðingur landsins, Guðmundur Guðmundsson tryggingafræðingur fyrir launamenn og Þorsteinn Pétursson fyrir Alþýðusambandið.

Ég skal ekki deila um einstök atriði. Það verður tækifæri til þess í sambandi við annað mál. En um, að búreikningar hafi ekki fengizt, vil ég segja, að ég veit ekki, hvort það er rétt, en það væri ekkert óskiljanlegt, því að þeir eru frumgögn, sem aðilarnir þurfa að fá aftur til að færa aftur inn í heildarbúreikninga. Enda getur ekki skakkað, nema rangt sé farið með tölur á búnaðar reikningaskrifstofunni, en í nál. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Tala þessara búreikninga er aðeins um 40 á ári, og var því strax byrjað á athugunum á því, að hve miklu leyti meðaltölur þessara búreikninga hefðu gildi sem sýnishorn af meðalbúskap í landinu. Við þennan samanburð var fyrst og fremst stuðzt við eftirfarandi gögn: Hagskýrslur, skattaskýrslur bænda úr hreppum víðs vegar um landið, innflutningsskýrslur frá Áburðareinkasölu ríkisins, nautgriparæktarskýrslur, skýrslur frá kjötverðlagsn., Sláturfél. Suðurlands o. fl. Við þennan samanburð komu meðal annars fram eftirfarandi atriði:“ Síðan er sýnt nákvæmlega, hvað þessi samanburður hefur leitt í ljós: „Meðalbúreikningabúið er nokkru stærra en meðallandsbúið“. Síðan eru niðurstöðurnar teknar.

Þá eru kaupgreiðslurnar. Hv. 3. landsk. þm. las upp úr nál. viðvíkjandi greiðslum til vandamanna. Þar segir, eftir að tekið hefur verið fram, að upplýsingar kaupgreiðsluskýrslnanna um kaupgreiðslur til vandamanna, einkum vinnandi barna, hafi verið miklu óáreiðanlegri en upplýsingar um kaupgreiðslur til vandalausra, að það hafi orðið að ráði í n. að byggja eingöngu á upplýsingum skýrslnanna til vandalausra og reikna greiðslu fyrir allan aðkeyptan vinnukraft eftir þeim. Niðurstaðan er, að kaupgreiðslur hafa verið reiknaðar eftir því, sem skýrslur lágu fyrir um.

Það er ekki nauðsynlegt að ræða um grundvöllinn fyrir útreikningsáferðinni á tekjum verkamanna. Það er búið að lesa það hér upp, og liggur það ljóst fyrir, og verður tæpast um deilt, að þær kaupgreiðslur séu svo nærri lagi, að ekki skakki neinu, svo að máli skipti.

Ég tel það mjög mikilsvert, þegar samkomulag er fengið af hæfum og sanngjörnum mönnum, að reynt sé að halda áfram að byggja á þeim grundvelli, og mun greiða till. atkvæði.