09.12.1943
Neðri deild: 60. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í C-deild Alþingistíðinda. (2269)

186. mál, tekjuöflun vegna dýrtíðarráðstafana

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, um tekjuöflun vegna dýrtíðarráðstafana, er í marga staði mjög einkennilegt mál og merkilegt. Það er nú talað hér um dálítið nýstárlegar uppástungur. En það er nú ekki í fyrsta skipti, sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur komið með dálítið nýstárlegar uppástungur í þessum málum. Hún stingur nú sem sagt upp á því hér, að 2% tollur sé lagður á allar innfluttar vörur í því skyni að minnka dýrtíðina í landinu. Þetta er svo mikil mótsögn, að það er furðulegt, að slíkt skuli vera borið hér fram, enda kaus hæstv. fjmrh. að fara sem fæstum orðum um þetta hér í ræðu sinni. Hann reyndi ekki að færa nein rök fyrir þessari ráðstöfun. Ég tók líka eftir því í ræðu hv. 2. þm. S.-M., að hann sneiddi alveg fram hjá þessu atriði og komst þó ekki hjá því að geta þess, að að sjálfsögðu hlyti þessi aukning á dýrtíðinni að koma til frádráttar á verði því, sem niður væri keypt.

Þetta háttalag, að leggja tolla á allar vörur, sem fluttar eru til landsins, í því skyni að lækka dýrtíðina, það er vitanlega hreinasta Kleppsvinna, en það er reynt að gera hana þannig, að svo líti út sem hún sé unnin með viti, af því að hæstv. ríkisstj. sér enga dýrtíð nema í sambandi við vörur, sem koma til greina við útreikning framfærsluvísitölunnar. En auk þess er frv. þetta þannig að frágangi og ber þannig að hér í þinginu, að það er gersamlega vansæmandi. Hæstv. ríkisstj. virðist vera að gera sér hér sérstakt far um að óvirða hv. þm. og hæstv. Alþ. yfirleitt því að þetta frv. er lagt fram að kalla greinargerðarlaust, og svo er því fylgt úr hlaði með ræðu hæstv. fjmrh., sem var ekki nema örfá orð. Það eru ekki einu sinni tekin á sig þau óþægindi að reikna út, hvað þetta gefur miklar tekjur eða hver áhrif þetta kynni að hafa á dýrtíðarvísitöluna í landinu. Og þetta hefði vitanlega verið innan handar að finna á mjög skömmum tíma og skýra í því efni, hvernig málið lægi fyrir. Þetta lét hæstv. fjmrh. líka ógert í ræðu sinni. Og svo endaði hann ræðu sína með því að segja, að hann vildi, að þetta frv. yrði afgr. til n. á einum fundi í þessari hv. d., en það þýddi, að ekkert tóm gæfist til þess að ræða málið rólega og yfirvega það. Og enn fremur fór hann fram á það og mæltist til þess við hv. fjvn. þessarar d., að hún tæki málið þegar í stað til afgreiðslu og afgreiddi það helzt með sem minnstum og helzt engum fyrirvara og hefði samstarf við hv. fjhn. Ed., til þess að hægt væri að ræða það sem minnst.

Við erum nú búnir að sitja hér á þingi í meira en þrjá mánuði, og allan þann tíma hefur hæstv. ríkisstj. haft tíma til þess að íhuga og leggja niður fyrir sér hvernig þessi mál stóðu. Hún getur því ekki afsakað sig með því, að hún hafi ekki vitað, að það kom ekki til mála að hagnýta sér yfirballansinn á fjárl., þar sem hann var horfinn, eftir að hv. fjvn. var búin að taka þann ágóða, sem tóbaks- og víntollurinn veitir inn á fjárl., til þess að borga uppbætur á útflutt kjöt, því að það var vitað, að 28 þm. höfðu skuldbundið sig til þess að fylgja því máli fram. Það virðist líka vera meiningin að haga svo störfum á hinu háa Alþ., að ef það eru mál, sem verulegu máli skipta, þá eigi hv. þm. að gefast sem allra minnst tóm til þess að athuga þau og sérstaklega til þess að gera sér ljósar afleiðingar þess að samþ. þau. Og það er ekki vanþörf á að gera sér sérstaklega ljósar afleiðingar þess að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir, og gera það að l.

Í þriðja lagi er þetta frv. merkilegt fyrir það, að ef þetta frv. verður samþ., fær hæstv. ríkisstj. þingsstuðning fyrir tilveru sinni. Og það virðist vera hagað öllum undirbúningi málsins með tilliti til þess að undirstrika það sérstaklega, í hvaða skyni frv. þetta er fram komið. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki opinberlega haft neinn stuðning í þinginu. Þó er vitað, að Framsfl. hefur alveg stutt hana. Og það hefur komið fram, að Sjálfstfl. hefur oft allur, en alltaf viss hluti af þingflokki hans, stutt hæstv. ríkisstj., eða karakúludeildin, eins og þeir kalla það sjálfir, sjálfstæðismenn. Þetta er þá sá meiri hl. þings, sem staðið hefur á bak við hæstv. ríkisstj. og stjórnin hefur getað reitt sig á. Og hún hefur líka dyggilega fylgt þeim ráðum og aðferðum, sem Framsfl. og þessi bændadeild Sjálfstfl. hefur óskað eftir, að fram gengju, og ekkert hik látið á sér finna, þó að hún þannig egndi upp gegn sér og ráðstöfunum sínum til að vinna bug á dýrtíðinni allar launastéttir landsins og bæjarbúa yfirleitt. Hér liggur þess vegna fyrir frv., þar sem úr því verður skorið, hvort þetta verður ríkisstj. með þingsstuðningi eða ekki. Eftir að búið er að afgreiða þetta mál, þá sést, hvort. stj. nýtur stuðnings meiri hl. Alþ. eða ekki. Og þeir hv. þm., sem greiða atkv. með þessu frv., eru þar með orðnir stuðningsmenn þessarar hæstv. ríkisstj. Og þó að þessir hv. þm. hafi oft og tíðum á víxl greitt atkv. með ýmsum málum, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið með, þá hefur þó aldrei staðið á með sama hætti og um þetta mál í þessu tilliti, því að hæstv. ríkisstj. lýsti hátíðlega yfir því, þegar hún var mynduð, að sitt væri að vinna bug á dýrtíðinni. Og seint og snemma í ræðum hefur það komið fram, að hún teldi það sitt langstærsta verkefni að vinna á móti dýrtíðinni. Hún lagði fram ýmsar till. hér í þinginu, sem áttu að miða að lækkun dýrtíðarinnar, till., sem hæstv. Alþ. gat ekki fallizt á og taldi, að mundu ekki, þótt samþ. yrðu, leiða til þeirrar lækkunar á dýrtíðinni, sem hæstv. ríkisstj. áleit, að verða mundi. Fyrir það var frv. hæstv. ríkisstj., þar sem þessar till. hennar voru, breytt mjög mikið á þinginu á s. l. vori. Og þó féllst þingið á að veita hæstv. ríkisstj. heimild til þess að greiða niður verð á innlendum afurðum með það fyrir augum að hindra óeðlilegan vöxt dýrtíðarinnar. En það var skýrt tekið fram af öllum þeim, sem þá fylgdu því máli, og það voru allir þingflokkarnir, að þeir skoðuðu þetta einungis sem bráðabirgðaráðstöfun. Og það komu sérstaklega hátíðlegar yfirlýsingar frá hv. 2. þm. S.-M., sem var aðaltalsmaður Framsfl. hér í hv. d., um það, að hann væri sérstaklega svartsýnn á þessa leið og hann væri ákaflega andvígur því, að þetta væri gert að varanlegum dýrtíðarráðstöfunum, og varaði við þeim afleiðingum, sem það gæti haft. Það var sem sagt meiningin hjá hv. þm., þegar þetta var gert, að það væri fullkomið réttlætismál, eins og þá stóð á. Og þá var komin ný ríkisstj., sem búin var að gefa út yfirlýsingar um það, að hún ætlaði að lækka dýrtíðina. Og hún fullyrti, hvað ráðstafanir hennar gætu haft mikil áhrif á dýrtíðina. Þegar svo skýlausar yfirlýsingar lágu fyrir, var ekki forsvaranlegt annað en gefa henni kost á að sýna, hvað hún gæti. Þess vegna var hæstv. ráðherrum veittur frestur til þess að sýna þetta, og var hann fyrst hugsaður til 15. sept. s. l. Og allir gerðu ráð fyrir því, að ekki næði nokkurri átt að framlengja þessi bráðabirgðaniðurkaup á verði innlendra landbúnaðarafurða, ef ekki yrðu þá komnar fram till. um ráðstafanir, sem varanlega yrðu til lækkunar á dýrtíðarvísitölunni. Og það var mikill áróður rekinn í sambandi við þetta á s. l. sumri. Ég man sérstaklega eftir því í Tímanum, að megináherzla var lögð á það, að þessar niðurborganir á landbúnaðarafurðum á innlendum markaði væri neytendastyrkur, sem bændum væri ekki aðeins lítið umhugað um, að haldið yrði áfram, heldur væru bændur því beinlínis mjög fylgjandi, að þessum niðurgreiðslum yrði hætt. Og haldnir voru fundir hér og þar úti um land, sem Framsóknarflokkurinn skipulagði og samþ. áskoranir, sem birtar voru í Tímanum á eftir, um það að hætta að borga niður dýrtíðina, hætta að borga neytendum þessa peninga. Það var þess vegna algerlega miðað við það í því samkomulagi, sem gert var með dýrtíðarl., þegar ákveðið var að halda áfram að greiða niður dýrtíðina, að þessi aðferð yrði höfð, á meðan hæstv. ríkisstj. væri að reyna að finna varanlega lausn á dýrtíðarmálinu. En eftir að hæstv. ríkisstj. hafði haft málið til yfirvegunar í nærri fimm mánuði og hafði ekki getað bent á neinar varanlegar dýrtíðarráðstafanir, þá var náttúrlega í alla staði mjög óeðlilegt að halda áfram þessum niðurgreiðslum. Og mér fannst ákaflega illa til fallin þessi leið að borga niður dýrtíðina. Það var augljóst mál, að þetta var aðeins bráðabirgðalausn á kostnað launþega. Það var augljóst, að bændur hagnast ekkert á þeirri aðferð, en launamenn tapa. En stóratvinnurekendur eru þeir einu sem græða á þessari niðurborgunaraðferð. Þessar niðurborganir urðu strax mjög óvinsælar, og ýmsir launamenn voru ákaflega óánægðir yfir þeim fulltrúum sínum, sem samþ. þessa leið. — Það er þarna inni í ráðherraherbergi nýr þingfundur, heyrist mér. — Og það er ekki vafi á því, að sú óánægja, sem varð vart yfir því hjá launþegum að segja ekki upp samningum sínum, var einmitt af því, að þeir töldu sig vera sérstaklega snuðaða með því, að vísitalan væri keypt niður, án þess að dýrtíðin minnkaði að sama skapi. Og þessar niðurgreiðslur varð að greiða úr ríkissjóði og þannig m. a. með skattgjöldum launþega. Það er þess vegna ekki vafi á því, að verði aftur höggvið í sama knérunn, aftur gerðar ráðstafanir í því skyni að lækka vísitöluna um ófyrirsjáanlegan tíma á kostnað launastéttanna, þá er farið miklu lengra en nokkur maður getur með sanngirni ætlazt til, að launastéttir landsins geti þolað. En þegar menn sætta sig við þetta sem bráðabirgðaráðstafanir, meðan verið sé að finna önnur ráð, að borga peninga til þess að kaupa niður sitt eigið kaup, þá er það náttúrlega hlutur, sem maður getur verið þakklátur þeim mönnum fyrir, sem vilja gera það. En það er ekki hægt að ætlast til þess þegnskapar af launastéttinni alveg endalaust. Og framlenging sú, sem fram á er farið með þessu frv., á þessu háttalagi, hlýtur, ef samþ. verður, að leiða til stórfelldra launahækkana. Það mundi verða til þess, að launþegar mundu segja: Það er ekki að marka dýrtíðarvísitöluna, lækkun hennar er gersamlega einskis virði fyrir aðra en nokkra stóratvinnurekendur, en þessar ráðstafanir ríkisstj. eru til tjóns fyrir okkur. — Ef farið verður svona með vísitöluna, eins og stefnt er að í þessu frv., þá hlýtur að reka að því, að launþegar taki í sínar hendur að ákveða grunnkaup sitt og útreikning vísitölunnar. Og ef þetta frv. verður samþ., þá hljóta átökin að verða margfalt harðvítugri en áður frá hálfu launþega, og stafar það sérstaklega af meiri þátttöku launamanna í samtökum þeirra en átti sér stað 1942.

Þegar hæstv. ríkisstj. leggur fyrir þingið slíkt frv. sem þetta, þá segir það sig sjálft, að þeir hv. þm., sem leggja sitt lið til þess að koma slíkri baráttu á, þeir hafa hugsað málið tvisvar og eru algerlega að hugsa um það að gerast stöðugir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. Og ef þessi hæstv. ríkisstj. ætlar að halda þessu máli til streitu, veitir henni ekki af stuðningi meiri hl. þingsins. Og í þessu tilfelli væri það eitthvað meira en venjulegur stuðningur við smámál af tímabundinni góðvild við eitthvert mál. Hér hlyti, ef þetta frv. yrði samþ., að vera í uppsiglingu eitthvað varanlegt og meira. Hv. þm. S.-M. segir, að það sé viðurhlutamikið að fella þetta frv. og sleppa dýrtíðinni lausri. Það er þá viðurhlutamikið af þinginu að gera þær ráðstafanir, að launþegum séu greiddar uppbætur eftir því, sem dýrtíðin er í landinu. En honum finnst ekki viðurhlutamikið að samþ. frv., sem hlyti að hafa þær afleiðingar, að vinnudeilur mundu rísa af því, sennilega í öllum verkalýðsfélögum á landinu. Nei, þau rök, sem fram hafa verið færð til stuðnings þessu máli, eru næsta léttvæg.

Það hefur nú verið talið, og sennilega er einhver fótur fyrir því, að fram hafi farið að undanförnu nokkrar umræður um það milli vissra parta Sjálfstfl. og Framsfl. um möguleika til þess að mynda ríkisstj. Og ég get einmitt búizt við því, að þetta mál, sem fram hefur komið hér, og meðferð þess sé hugsað sem fyrsta stigið, sem tilraun um það, hvort tök séu á því að mynda nýja stjórn og þá væntanlega nýjan flokk, sem Egill í Sigtúnum kallar sameiningarflokk framleiðenda og atvinnurekenda. En það mundi verða fyrsta ætlun þess flokks að koma á almennri launalækkun, fyrst og fremst atvinnuleysi og síðan almennri árás á launastéttirnar í landinu. Og þarna er líklega um fyrsta stigið á þessari braut að ræða, sem meðferð þessa frv. er. Þetta gerir það að verkum, að þeir, sem samþ. þetta frv., eru þátttakendur í að mynda stj., sem gerir tilraun til þess að stjórna í trássi við verkalýðsfélögin og launastéttirnar með því aðalverkefni að lækka launin.

Það er leitt að þurfa að tala hér yfir tómum stólum að næturlagi, en stj. hefur sýnt svo mikla frekju, að gefa ekki þinginu kost á að ræða þetta mál í næði, að ég ætla að halda ræðu mína eins og ef hvert sæti væri skipað.

Hæstv. fjmrh. tók það fram, að stj. væri legið á hálsi fyrir þær ráðstafanir, sem hún hefði gert í dýrtíðarmálunum. Það er alveg rétt. Henni hefur verið legið á hálsi og það svo mjög, að það, sem hún gerir vel, getur ekki komið að gagni fyrir það, hvað hún beitir launastéttirnar miklu ranglæti. Þess vegna er ekki mikil ástæða fyrir hana að kvarta yfir undirtektunum. Henni hefur verið sýnt mikið langlundargeð. Verkalýðurinn taldi það skyldu sína að stofna ekki til kaupdeilna, þó að hann væri óánægður með það, hvernig vísitalan var ranglega útreiknuð og ekki tekið tillit til ýmissa útgjalda, sem almenningur hafði. Þetta gerði Sósfl. að verkum, þó að ríkisstj. hafi í einu og öllu reynt að útiloka hann frá því að fylgjast með málum og hafa áhrif á gang þeirra. Það verður ekki gert átakslaust að ætla að leysa þetta mál á kostnað launastéttanna. Það á eftir að sannast.

Hv. 2. þm. S.-M. talaði um, að það væri eingöngu fyrir smáútgerðina, sem hann vildi ekki, að dýrtíðinni yrði sleppt lausri. Þetta kemur úr hörðustu átt, frá þeim mönnum, sem ekki einasta nú, heldur í allri sögu flokks síns hafa skoðað sem sitt höfuðverkefni að ráðast bæði á útvegsmenn og launastéttirnar, gera sjávarútveginn að hornreku, en nota hann sem mjólkurkú. Þessir menn, sem eru að tala um, að verið sé að sleppa dýrtíðinni lausri, ættu að athuga, hvern þátt þeir sjálfir hafa átt í að skapa hana. Þeir geta ekki lengi flotið á að ætla að halda dýrtíðinni niðri með greiðslum úr ríkissjóði. Það er kannske hægt á þessu ári, en síður næsta ár og enn þá sízt þar næsta ár. Hver er aðalástæðan til þess, að dýrtíðin er svona mikil? Aðalástæðan er sú, að nauðsynjavarningur almennings er í svo háu verði. Íslenzkar landbúnaðarafurðir eru svo óhæfilega dýrar, að launin eru ekki nógu há til þess að geta borgað þær. Mjólkurneyzlan þarf t. d. að vera miklu meiri en hún er, en fólk getur ekki keypt meiri mjólk. Leiðin til að leysa þetta er að grafa dýpra, svipta blæjunni burt og horfast í augu við sannleikann og staðreyndirnar. Allar ráðstafanir Framsfl. í landbúnaðarmálum hafa gengið í þá átt að halda við skipulagi, sem gerir það ókleift að lækka verð landbúnaðarafurða, og niðurstaða sex manna n. sannar, að eftir að búið er að ausa milljón eftir milljón í landbúnaðinn, er hann svo illa á vegi staddur sem raun ber vitni um. Við verðum að gera okkur ljóst, að ef okkar innlendu atvinnuvegir eru ekki samkeppnisfærir við atvinnuvegi annars staðar, hljóta þeir að falla niður. Við getum ekki girt okkur tollmúrum og innflutningsbönnum. Slíkt er ekki hægt í heiminum eins og hann er.

Hv. 2. þm. S.-M. talar með hneykslan um, að kaupgjaldið sé orðið svo hátt, að það sé að sliga atvinnuvegina og muni skapa atvinnuleysi eftir stríð, en vill ekki gera sér ljóst, að 75–80% af launum fólks fara til að kaupa þessar ísl. landbúnaðarvörur, svo að undirstaða málsins er sú, hvað landbúnaðurinn er ófullkominn. En ef við eigum að geta gert atvinnuvegi okkar samkeppnisfæra, þarf fyrst og fremst að bæta framleiðsluskilyrði landbúnaðarins. Það er engin ástæða fyrir okkur að vera að breiða neina blæju yfir það, hvernig ástandið er. Framsfl. hefur alveg mistekizt í landbúnaðarpólitík sinni.

Það hefur mikið verið rætt um tollapólitík. Ég er sannfærður um, að við Íslendingar setjum alheimsmet í háum tollum. Það er enginn hlutur til, sem ekki er tollaður, það er alveg sama, hvað bráðnauðsynlegur hann er. Og tollarnir eru ekkert smáræði, ekki bara fáein prósent, heldur 30–40 prósent og þaðan af meir, bæði verð- og vörutollar. Ég er viss um, að það eru engin dæmi til slíks, og samt hafa allir flokkar haft það á stefnuskr á sinni að afnema tolla á nauðsynjavörum. Verður okkur stætt með þessum tollum? Hafa menn gert sér ljóst, hvaða áhrif slíkir tollar hafa, þegar stríðinu er lokið? Við vitum, að bandamenn eru að gera ráðstafanir til að koma skipulagi á milliríkjaverzlun eftir stríð, og þær eiga líka að ná til framleiðslunnar til þess að koma í veg fyrir, að framleiðsla tveggja landa rekist á. Fyrst í stað mun takast að hindra þá gífurlegu markaðsörðugleika, sem við áttum við að etja fyrir stríð, enda býst ég við, að flestir stjórnmálamenn bandamanna séu búnir að gera sér ljóst, að þegar þjóðir Evrópu eru búnar að þola hörmungar stríðsins, þýðir ekki að bjóða upp á atvinnuleysi og hungur. Atvinnulífið er ekki til fyrir atvinnurekendurna, heldur fyrir þjóðirnar, þjóðarheildina. Það fyrsta, sem bandamenn munu gera, er að krefjast þess af þeim, sem njóta þess að fá að selja samkv. söluskilmálum bandamanna, að loka ekki innanlandsmarkaði sínum með tollum. Þeir hljóta að gera það að skilyrði, að ef þjóð nýtur þeirra vildarkjara að vera með í söluskipulagi þeirra, verði hún að opna markað sinn fyrir vörum annarra aðila og fella niður tolla. Það er viðbúið, að mikið af þeim iðnaði, sem bar hæst á dögum gjaldeyrisbrasksins fræga, sé búinn að vera. Menn blekkja ekki sjálfa sig svo, að það sé íslenzkur iðnaður, ef kardemommur eru keyptar í stórum ílátum og skipt niður í smábréf, sem íslenzk orð eru prentuð á.

Er þá rétt af okkur, þegar við getum séð það fyrir, að þessi skilyrði verða sett, að sleppa þessum tekjuháu árum fram hjá okkur svo, að við lækkum ekki tollana? Ef tekjur almennings minnka, svo sem búast má við, eigum við þá að hafa alla tolla óbreytta, en þurfa svo, þegar verst gegnir, að lækka þá um 20–30 millj. eftir kröfum utanlands frá?

Ég veit ekki, hvort ríkisstj. hefur kynnt sér þetta í sambandi við umr. milli bandamannaþjóðanna um eftirstríðsvandamál, en það væri nauðsynlegt fyrir hana að gera það og gera þær ráðstafanir, sem gera okkur kleift að eiga hlut að máli.

Sjálfstfl. hefur ekkert látið til sín heyra í þessum umr. Það finnst mér í fyllsta máta einkennilegt og skil ekki, hvernig hann getur forsvarað það. Það er verið að gera beina árás á alla launamenn landsins, en meira en helmingurinn af þeim, sem fylgja Sjálfstfl., er launamenn. Hugsa ég, að þeim muni þykja undarlegt, að flokkurinn láti mál þeirra sig svo litlu skipta. Ég er hræddur um, að þetta þýði það, að Sjálfstfl. ætli eins og fyrri daginn að gefa hagsmuni launamanna upp á bátinn. Þeir ætla að láta Ingólf á Hellu ákveða stefnu flokksins. Hann á þann heiður að hafa skapað dýrtíðarpólitíkina og var grunaður af sínum eigin flokksmönnum um að hafa verið flugumaður Framsfl. Hann hugsaði bara um að komast á þ. sem 2. þm. Rang. Lengra náði ekki hans hugsjón. Það er furðulegt langlundargeð, sem kjósendur hér í Rvík sýndu Sjálfstfl. við síðustu kosningar, en sjálfstæðismenn skulu ekki láta sér detta í hug, að launamenn taki því með þökkum æ ofan í æ, að aldrei sé skeytt um málstað þeirra, en að Sjálfstfl. sé alltaf með, þar sem hatramlegast er ráðizt á launastéttirnar. Þó virðist svo sem þeir sjálfstæðismenn, sem einkum eru fulltrúar fyrir bæina, skilji þetta, en þeir eru svo hræddir við bændurna, að þeir þora ekki að gera neitt. Þeir eru að deyja úr hræðslu. En fólki fækkar í sveitunum, og það er eðlileg þróun. Það er sama þróunin, sem breytir landbúnaðarlandi í iðnaðarland, svo að íbúunum veitist ýmis hlunnindi menningarþjóða, en þeir, sem eftir verða í sveitunum, fá betri tæki og meiri möguleika til framleiðslu. Þetta er sú eðlilega þróun, þó að Framsfl. hafi tekizt að hindra að afköstin ykjust.

Ég vona, að það komi fram, bæði í fjhn. og við næstu umr., hvern hug Sjálfstfl. ber til málsins, og ég á erfitt með að trúa því, að hann allur láti sér sæma að snúast svo berlega gegn hagsmunum launamanna, að hann fylgi frv. óbreyttu.

Ég vil einkum beina því til n. að athuga, hvað þetta frv. mundi gefa í tekjur, ef að l. yrði, og athuga möguleikana á að breyta því á einhvern hátt, þannig að varanlegar dýrtíðarráðstafanir geti komið út úr þessu frv. Það er vel þess vert að íhuga tollalækkun. Það þarf ekki að byrja á að afnema alla tolla, heldur mætti velja úr þá vöruflokka, sem mesta þýðingu hafa, fyrst í stað, og gefa svo stj. heimildir til lækkunar. Allir mundu fagna því, að slíka lausn mætti búa við. En ef hraðað er í gegn þessum nýju sköttum, má óhjákvæmilega búast við kaupdeilum eftir áramótin.