16.09.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (2278)

20. mál, byggðasími í Álftaveri

Flm. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti. Till. sú til þál., sem hér liggur fyrir á þskj. 26, er flutt nú vegna þess, að svo þykir við horfa, að ekki sé kleift og ekki heldur ráðlegt að bíða lengur með sumt af þeim framkvæmdum, sem rannsókn og athuganir hafa leitt í ljós, að ráðast þurfi í til þess að skapa nokkrar varnir fyrir þá sveit, sem hér um ræðir, Álftaverið. Eins og grg. á nefndu þingskjali ber með sér, og sérstaklega þau fylgiskjöl, sem þar eru prentuð, fór þessi rannsókn fram þegar á árinu 1939.

Málinu var vísað til stj. og henni afhentar niðurstöðurnar og búizt við, að hún hæfist handa, fyrr en nú er orðið, en það hefur hún ekki gert. Má segja henni ýmislegt til málsbóta, svo sem ástandið ytra og innra, sem hefur gert það að verkum, að stj. hefur haft mörgu öðru að sinna, og í öðru lagi, að stj. hafa síðan ekki verið fastar í sessi. Nú þykir ekki kleift að bíða lengur eftir því, að eitthvað sé gert, og er þá það, sem flestum hefur komið saman um, til þess að fólkið viti fótum sínum forráð, sem sé það að koma upp í Álftaverinu byggðasímakerfi. Um þennan lið hefur ekki aðeins fjallað sú n., sem sett var á laggirnar, heldur hefur hún haft samvinnu við þá stofnun, sem til greina kemur, póst- og símamálastjórnina, og má af fylgiskjalinu sjá álit hvorrar tveggja. Ég tel nú, að allar framkvæmdir í þessu máli eigi, eins og till. bera með sér, að vera af hálfu stj. og kostnaður við þær eigi að greiðast af ríkinu eða a. m. k. af þeirri stofnun, sem kemur við málið, og skiptir litlu máli, hvort það er ríkissjóður eða landssíminn, sem greiðir þetta, því það er að nokkru leyti að taka úr öðrum vasanum og láta í hinn. En hér er um slíkt efni að ræða, eins og ég vænti, að hv. þm. sjái, að það er þjóðfélagið, sem á að skerast í leikinn. Þetta er varúðarráðstöfun til þess að vernda byggð í landi nú og fólkið, sem býr þar, og hvar sem er, mundi það vera talið skylt að gera þessar ráðstafanir, enda er grundvöllurinn lagður með því, sem hér liggur fyrir.

Hið opinbera hefur hlaupið undir bagga, þegar skaða hefur borið að höndum, og um það er ekki nema gott að segja, en því fremur ætti að leggja í kostnað til þess að varna því, að tjón verði á mönnum og málleysingjum í þessari byggð. Áður fyrr var þetta ekki gert, og má vera, að það hafi verið af því, að menn hafi ekki séð nein úrræði til þess að varna því, sem koma skyldi, en úrræðin ættu fyrst og fremst að vera þau, að bjarga því, sem bjargað verður, og gera ráðstafanir í tíma.

Eins og stendur í grg., er ekki hægt að ákveða stund og jafnvel ekki stað fyrir jökulhlaupin, en þó má gera ráð fyrir því, að það sé nálægt. Enginn veit, hvenær sá dagur eða sú nótt kemur, og því síður, hvað þá á að gera. Það má segja, að á liðnum öldum hafi liðið nálega 50 ár stundum meira og stundum minna — milli þess, sem Kötlugos hefur borið að höndum. Það leið lengra á milli síðast, og voru sumir farnir að halda, að Kötlugosin hefðu lagzt niður, en almenningur í Skálholtsþingi var á annarri skoðun og tók eftir ýmsum teiknum til marks um það, að það mundi koma að því. Fólkið tók eftir því, hvernig snjóröndin þokaðist upp í samanburði við fjallstoppinn, sem stóð upp úr. Þetta er aldagamall siður. Og almenningur tók eftir og vissi, hvað leið. Þetta færist nú nær. Það kom 1918 og nú er liðinn helmingur tímans, ef um lengsta tíma er að ræða, en það getur komið á hvaða ári, sem er. Það þarf ekki að lýsa því, hvernig jökulhlaupin eru. Menn geta lesið um það í skýrslum, en menn vita, að öll mannvirki á Mýrdalssandi, þar sem flóðaldan skellur á, skolast í sjó fram. Samt hafa verið smíðaðar brýr, lagður vegur og sími og annað til þess að halda uppi góðum samgöngum. Menn vita, að þetta fer, en þessi byggð, sem hér um ræðir, hefur alltaf staðið upp úr öllu saman, þó að fækkað hafi býlum í henni á ýmsum tímum.

Svo hagar til um þessar aðgerðir, að þessi byggð stendur nokkuð í hvirfingu. Hún er ekki stór og fólkið ekki margt, svo að það er tiltölulega auðvelt að framkvæma þá áætlun, sem gerð var af n. 1939. Að vísu er allur kostnaður nú meiri en hann var þá, eins og allir vita, ef ráðizt er í þetta nú þegar, sem æskilegast er, en um það er ekki að sakast, því að þótt kostnaðurinn verði meiri að krónutali en hann var fyrir stríð, er hann ekki meiri eftir gildi peninganna og dugir ekki að sjá í slíkt. Þessi framkvæmd er byggðinni nauðsynleg, og auðvitað getur hún haft nokkuð gagn af henni líka, og er þá vel, ef fer saman gagn og líka öryggi. Nú er ekki ætlazt til, að þetta kerfi standi í sambandi við utansveitarsímann, heldur er það hugsað, til þess að fólkið í byggðinni geti náð sambandi hvað við annað, ef hætta steðjar að, en þó á að vera í gegnum það hægt að ná til símstöðvar sveitarinnar. Þær framkvæmdir, sem hér verða gerðar, verða allar í samráði við forráðamenn landssímans og eftir því, sem bezt þykir henta.

Að svo mæltu þykist ég ekki þurfa að taka fram meira um þetta mál umfram það, sem í grg. stendur, og með því líka, sem fylgiskjölin segja. Ég vil fara fram á, að málið verði að lokinni þessari umr. látið fara til n. Ég geri ekki upp á milli, hvort það er allshn. eða fjvn., og er það mín frumtill., að það sé allshn., því að hún gæti þá athugað málið frá fleiri hliðum.