06.09.1943
Neðri deild: 8. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

30. mál, einkasala á tóbaki

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Ég tel ekki nauðsyn á að hafa langan formála fyrir frv. þessu, þar sem farið er fram á að gefa Tóbakseinkasölu ríkisins heimild til þess að hækka álagningu á tóbaki meira en verið hefur. Ríkisstj. telur ekki heppilegt að binda álagningu á tóbaki við 10–50% og telur rétt að heimila að leggja 10–150% á sumar tegundirnar, eftir því sem ástæða þykir til.

Ég leyfi mér að fara fram á, að mál þetta verði ekki sett í nefnd, heldur megi fá fullnaðarafgreiðslu í dag, þar sem það gæti valdið truflunum, ef afgreiðsla málsins tæki lengri tíma. — Að svo mæltu sé ég ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum.