19.11.1943
Efri deild: 52. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 295 í C-deild Alþingistíðinda. (2311)

17. mál, innheimta skatta og útsvara

Frsm. minni hl. (Bernharð Stefánsson) :

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. hefur skýrt frá gangi málsins í n., og þarf ég engu þar við að bæta. N. hafði málið einnig til athugunar í fyrra, en þá varð það ekki útrætt. Lítur að vísu út fyrir, að eins fari enn, því að málið hefur oft verið tekið af dagskrá nú, svo að ég býst við, að það séu lítil líkindi til, að það nái fram að ganga. En ég verð að segja það, að ég fann ekki, að það væri eins mikill ágreiningur í n. og kom fram hjá hv. frsm. Allir voru sammála um, að ýmis atriði þess væru til bóta frá því, sem nú er. Þó fór það svo, að n. klofnaði. Meiri hl. var með því að vísa málinu frá með rökst. dagskrá. Ég og hv. 3. landsk. leggjum til, að það verði samþ., en að vísu með breyt., sem síðar verða bornar fram, ef til kemur. Hv. frsm. meiri hl. gerði grein fyrir nýmælum frv. í áliti sínu. Aðalatriðið er sameining innheimtu útsvara og ríkisgjalda í Reykjavík með því að hafa sameiginlega innheimtustofnun. Hitt það að taka upp fleiri gjalddaga á tekju- og eignarskatt en nú er, og var öll n. sammála um, að fleiri gjalddagar á gjöldum til ríkisins væru til bóta. Við í minni hl. álítum þetta atriði svo mikils vert, að ekki sé rétt að vísa frv. frá, þó að ekki sé fallizt á öll ákvæði þess. Það var ekki þetta, heldur hitt atriðið — um sameiginlega innheimtu —, sem n. klofnaði á. Við álítum einnig það til bóta. Hv. frsm. meiri hl. telur, að þetta muni vera dýrara en nú er. Það er sízt fyrir það að synja, því að margt fer öðruvísi en ætlað er. En það kemur í bága við það, sem komið hefur fram hér oft, þegar sameina hefur átt stofnanir. Þá hefur það ævinlega átt að vera til sparnaðar. En þó að það yrði dýrara, þá hefur þetta fyrirkomulag svo marga kosti, að vera mætti, að það borgaði sig samt.

Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, þá var þetta frv. sent borgarstjóra til umsagnar. Borgarritari hefur svarað fyrir hans hönd. og verður að líta þannig á, að hann hafi svarað fyrir hönd bæjarstjórnar. Hv. frsm. taldi meðmæli borgarritara væg, en það liggur þó í þessu orði, að hann hafi komið með meðmæli með frv. Það er satt, að borgarritari vill fá breyt. á frv. og getur um ákveðin skilyrði fyrir fylgi sínu, en slíkt hefði mátt taka til athugunar meira en gert hefur verið.

Það, sem hann telur því aðallega til gildis, eru þægindin fyrir almenning. Hann játar það og segir, að þótt bæjarstjórn Reykjavíkur hafi ekki beina hagsmuni af frv., þá sé það hægðarauki fyrir gjaldendur í bænum að geta borgað öll gjöld sín í einu lagi og á fleiri gjalddögum. Af því skilst mér, að hann telji rétt að samþ. þetta frv. Hv. frsm. gerði að vísu lítið úr þeim þægindum og sagði, að það væri litlu hægara að ganga í einn stað en tvo. Ég hygg, að hagræði gjaldenda sé meira en það. Með því að fá á einn gjaldseðil allt, sem þeir þurfa að greiða til opinberra þarfa, mun margur fá betra yfirlit yfir það, hvað hann þarf að taka frá af tekjum sínum. Ég veit, að hv. frsm. þarf sjálfur ekki á slíkum leiðbeiningum að halda. Hann er það sinnugur maður, að hann getur komið því í verk að reikna það saman. En sumir eru skeytingarlausir og verður það oft fyrir að eyða því, sem þeir hafa handa á milli, ef ekki er knýjandi þörf að verja því í annað.

Þá kem ég að því, sem hv. meiri hl. n. taldi aðalatriðið fyrir sig. Honum finnst hallað á hlut Reykjavíkurbæjar og að bærinn muni hafa óheppilega sérstöðu, ef frv. er samþ. En eins og ég hef vikið að, er það einkennilegt, ef þetta frv. hallar stórlega á Reykjavík, að það skuli ekki hafa komið fram nein mótmæli á þeim grundvelli frá bænum sjálfum. Það, sem fram hefur komið, verður að telja frekar meðmæli en mótmæli, enda er það svo, ef gjaldendur hafa hag af því og innheimtur eru jafn tryggar og áður, að þá virðist það eðlilegt af hendi bæjarins að vilja láta taka þennan hátt upp. Ég sé því ekki, að eftir sé annað en metnaður fyrir Reykjavík, sem mér virðist þó misskilinn metnaður. En við í minni hl. viljum taka það til athugunar á vinsamlegan hátt, hvernig hægt væri að koma því fyrir, að bæjarfélagið tryggði sig gagnvart stofnuninni eða a. m. k. hefði íhlutun um rekstur hennar.

Frv. á að gilda fyrir aðra kaupstaði, þegar ráðherra kveður á um það. Þó að því sé frestað að taka upp sameiginlega innheimtu í öðrum kaupstöðum, þá gilda sömu l. fyrir þá. Og ef Rvík finnst hún hafa óheppilega sérstöðu vegna heimildarákvæðanna handa sveitarfélögum í 10. gr., þá mætti athuga, hvort Reykjavík getur ekki komið undir þá heimild.

Þar sem meiri hl. fjhn. styður dagskrána og þeir tveir flokkar, sem að henni standa, hafa meiri hl. í hv. d., teljum við í minni hl. ekki ólíklegt, að hún verði samþ. Þess vegna höfum við ekki séð ástæðu til að bera fram brtt. við þessa umr. málsins. Sýni það sig aftur á móti, að frv. hafi fylgi í d. og fari til 3. umr., þá má taka það aftur til athugunar og bera fram brtt. við 3. umr., og eru það sérstaklega ákvæði 8. gr., sem við teljum, að þurfi lagfæringar við. Við teljum, að það sé með öllu óhugsandi og óframkvæmanlegt að hafa skyldu vinnuveitanda til að greiða útsvör og önnur gjöld þeirra, er hjá honum vinna, jafnvíðtæka og frv. gerir ráð fyrir, t. d., að það nái til kaupgreiðslu til daglaunamanna. Álitum við, að það gæti tæplega náð til annars en árs- eða mánaðarkaups, m. ö. o., til fastráðinna manna. Þá teljum við einnig, að það þurfi að setja skýrari ákvæði um, að innheimt gjöld skiptist jafnóðum og í réttum hlutföllum til aðila. Þá viljum við athuga möguleikana fyrir því, að bæjarfélagið fái þátt í innheimtunni eða eftirlit með henni.

Það eru fleiri atriði, sem við teljum þurfa athugunar, en þau eru smávægileg. Að hinu leyti erum við sammála hv. meiri hl. um það, að ef þessu frv. verður vísað frá, þá sé sjálfsagt að taka upp breyt. á l. um tekju- og eignarskatt þannig að hafa fleiri gjalddaga og láta gjaldendur til ríkisins njóta þessa hagnaðar og ríkið þá einnig njóta hagnaðar með því að innheimta ríkisgjöldin fyrr en ella.

Það er þá till. minni hl. fjhn., að frv. verði samþ. óbreytt til 3. umr. og síðan athugaðar breyt. við þá umr.