19.11.1943
Efri deild: 52. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 297 í C-deild Alþingistíðinda. (2312)

17. mál, innheimta skatta og útsvara

Fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta, að hann hefur dregið að láta þetta mál koma fyrir deildina vegna lasleika míns, svo að ég gæti verið viðstaddur og tekið þátt í umr. Ég vil segja, að það urðu mér nokkur vonbrigði, að meiri hl. fjhn., eftir að búið var að athuga málið á tveimur þingum, langan tíma á hvoru, skyldi svo vísa því frá með dagskrá. Hv. 1. þm. Reykv., frsm. meiri hl., hefur gert grein fyrir þeim rökum, sem meiri hl. n. færir fram gegn þessu frv., og tel ég þau rök mjög léttvæg. Frv. þetta byggist á tveim aðalþáttum. Annar aðalþáttur þess er sá að breyta gjalddögum þannig, að ríkissjóður fái ekki öll gjöld greidd í einu. Hinn aðalþáttur frv. er sá, að innheimta öll gjöldin í einu lagi og minnka þannig innheimtukostnað. Borgarstjóri, 6. þm. Reykv., leggur fram frv. um fjölgun gjalddaga á greiðslu útsvara og segir svo í greinargerð þess frv.: „Varð þess ekki vart, að gjaldendur hefðu yfirleitt nokkur andmæli gegn innheimtu með þessum hætti, en margir létu beinlínis í ljós ánægju yfir því, að gjalddögum var með þessu móti fjölgað og lægri fjárhæð innheimt hverju sinni að sama skapi. Má óhætt fullyrða, að gjaldendur og þó einkum launþegar tóku breytingunni yfirleitt vel.“

Hv. form. meiri hl. fjhn. telur, að þessi skipun komi til með að verða almenningi til óhagræðis. Þetta er alveg gagnstætt því, sem borgarstj. segir, og ég tel, að þetta sé tvímælalaust hentugra fyrir launamenn, enda komið á í flestum menningarlöndum. Þegar þessi venja er komin á, verða menn skattanna lítt varir. Launin verða einungis þeim mun lægri sem skattupphæðinni nemur. Þá segir frsm., að það sé skerðing á rétti skattþegnsins að láta hann ekki ráða gjalddaga. En hvað er þá að segja um útsvörin? Ef bærinn þarf á sínum tekjum að halda á ýmsum tímum árs, er þá ekki skiljanlegt, að ríkissjóður þurfi þess einnig? Annars hygg ég að það mætti æra óstöðugan, ef fara ætti að taka slíka hluti sem þessa alvarlega.

Háttv. meiri hl. finnur frv. enn tvennt til foráttu. Hann telur þessa skipan hafa í för með sér aukinn kostnað. Þetta tel ég alveg órannsakað mál. Reykjavíkurbær hefur fullkomna skrifstofu, og ég hygg, að það yki ekki mikið störf hennar, þótt hún annaðist þetta. Auk þess er hér tollskrifstofa með starfsmönnum með 120 þús. kr. launum til samans. Þessi skrifstofa yrði óþörf. Niðurstaðan yrði því sennilega sú, að innheimtukostnaðurinn mundi minnka. Enn fremur eru greiddar á þessu ári um 312 þús. kr. til rekstrar þessarar skrifstofu, en hún á að vera gjaldendum til þæginda.

Það hlýtur að vera sparnaður við það að láta einn aðila koma í stað þessara tveggja. Borgarstjóri telur, að bæjarbúar séu yfirleitt ánægðir með þetta fyrirkomulag. Hvers vegna mega ekki skattgreiðendur njóta sömu hlunninda?

Háttv. frsm. segir, að bærinn setji tvö skilyrði fyrir að þetta verði samþykkt. Á þetta hefur ekki verið minnzt við mig.

„Önnur krafan er sú, að bærinn hafi forgangsrétt“. Ég sé ekki, að slík krafa sé frambærileg. Auðvitað eiga báðir aðilar að hafa jafnan rétt.

Hitt atriðið er, að bærinn hafi íhlutunarrétt um innheimtu. Það er ekkert aðalatriði fyrir mér, hvor hefur innheimtuna. Aðalatriðið er, að frv. nái fram að ganga, og til samninga um þetta atriði er ég reiðubúinn, hvenær sem er.

Ef þessi rökstudda dagskrá verður samþykkt, sem mér virðist öll líkindi benda til, hlýtur ríkisstj. að nota sér heimild í 42. gr. skattal. til þess að fjölga gjalddögum, og það verður gert, ef þetta frv. verður fellt, en ég tel það illa farið, ef ríkisstj. neyðist til að neyta þeirra heimilda, sem til eru hér um, og skipta þannig því, er framkvæma mætti í einu lagi.

Ég vænti því, að háttv. n. sjái sér fært að láta málið ná fram að ganga.