16.09.1943
Sameinað þing: 13. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (2317)

23. mál, afsláttarhross

Flm. (Jón Pálmason):

Þessi till. á þskj. 29 var lögð hér fram fyrir hér um bil hálfum mánuði, og er það eitt dæmið um seinaganginn í hlutunum hjá ýmsum ráðamönnum hér, að hún hefur ekki verið tekin fyrir. Ráðstafanirnar, sem um ræðir, þurfti að vera búið að gera fyrir sláturtíð þá, sem hefst í þessum mánuði. Sú bót er í máli, að atvmrh. (VÞ) hefur, síðan till. kom fram, látið safna skýrslum þeim, er till. fer fram á. Ég mun bera fram skrifl. brtt. um, að í stað 15. sept., sem í till. stendur og er þegar liðinn, komi 25. sept.

Hér er um að ræða talsvert alvarlegra og þýðingarmeira mál en menn gera sér margir í hugarlund að óreyndu. Þetta er miklu meira fóðurbirgðamál en hagsmunamál. Um rúma tvo tugi ára hefur verið óvanalegt góðæri í landinu og vetur vægir, nema þá veturinn í fyrra. Þetta hefur freistað manna að fjölga búpeningi sínum meir en fóðuraukningu nemur. Undireins og harðindi ber að höndum, getur það leitt til fóðurskorts fyrir mikinn fjölda hrossa og um leið annan búpenings ef hrossunum er ekki fækkað áður að mun. Ég veit ekki, hvað skýrslur um þetta leiða í ljós, þegar þær eru komnar, en hygg, að ég hafi ekkert ofsagt um það, að þetta er ekki smámál. S. l. haust reyndist markaður fyrir hrossin búinn á miðri sláturtíð, og sat fjöldi bænda uppi með hross sín yfir veturinn, þau sem farga átti.

Þegar skýrslur eru fengnar, verður að leita álits Búnaðarfél. Ísl. og annarra, sem að gagni mega koma, um það, hvað gera megi til betri markaðshagnýtingar, t. d. með niðursuðu kjötsins. — Ég sé beina þörf á, að málið fari til n., eftir að svo mjög hefur dregizt að taka það fyrir.