22.09.1943
Efri deild: 23. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (2318)

59. mál, ábyrgð ríkis, opinberra stofnana og bæjarfélaga, hreppa- og sýslufélaga á athöfnum þjóna sinna

Dómsmrh. (Einar Arnórsson) :

Mál þau, sem þetta frv. fjallar um, eru í raun og veru mjög vandasöm og mikilsverð.

Það mun vera alkunnugt hv. þdm., að dómstólarnir hafa — og það sjálfsagt réttilega dæmt bæjarfélög og ríkissjóð til þess að greiða bætur vegna ýmiss konar háttsemi starfsmanna sinna. Þetta er í samræmi við reglur einkamálaréttarins, því að það er, þótt ekki séu glögg lagafyrirmæli um það, a. m. k. ekki víðtæk, í samræmi við það, sem dómstólarnir hafa tekið upp, þar sem fyrirtæki, atvinnurekstur o. s. frv. verða að bæta fyrir háttsemi þjóna sinna. Margir aðilar munu geta tryggt sig gegn bótagreiðslum vegna þjóna sinna, en það mun ekki vera hægt fyrir ríki og bæjarfélög að gera slíkt. En ef þessi skaðabótaskylda væri ótakmörkuð, þá væri hægt að dæma t. d. bæjarfélag í milljóna króna bætur fyrir syndir þjóna sinna, sem þeir hefðu drýgt og mundu geta riðið þessum aðilum, sem bæta ættu, að fullu. Þess vegna hefur ríkisstjórninni þótt sjálfsagt að bera upp fyrir hæstv. Alþ. frv. í þá átt að takmarka þessa bótaskyldu. Hitt, hvort það hefur verið hitt á rétta takmarkið hér í frv., vil ég alls ekki dæma um. Það má lengi deila um það. En sú n., sem fær frv. til athugunar, mun taka það eins og önnur frv. til alvarlegrar íhugunar.

Eins er það, að um þetta mál er ákaflega mikið deilt meðal lögfræðinga, hvernig eigi að skipa þessum málum, sem hér er um að tefla. Það er mjög umdeilt erlendis, og mundu sjálfsagt verða deilur um það hér líka, ef lögfræðingar færu að tala eða rita um þetta. En mér finnst óhjákvæmilegt að hafa löggjöf um þetta efni og takmarka á einhvern hátt bótaskyldu þeirra aðilja, sem hér eiga hlut að máli.

Ég vil benda á, að það mun ekki eins dæmi, að bótaskyldan sé takmörkuð. Ég get um það tilfært t. d. ákvæði siglingalaganna, sem um er getið í aths. við frv.

Skal ég svo ekki lengja mál mitt frekar, en vil, ef hv. þd. þykir ástæða til að samþ. frv. til. 2. umr., að því verði þá vísað til hv. allshn.