25.10.1943
Efri deild: 39. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í C-deild Alþingistíðinda. (2326)

114. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Breyt. sú, sem hér um ræðir á skattal., er í því fólgin, að skattgreiðendum er gefin heimild til þess að verja ákveðnum hluta af tekjum sínum til líknar- og menningarmála, án þess að slíkar gjafir séu teknar síðar sem skattskyldar tekjur. Slíkt ákvæði sem þetta vantar í íslenzk skattal. Hins vegar er óhætt að segja, að þetta ákvæði er til í sams konar eða svipuðu formi í skattal. flestra annarra menningarlanda, enda virðist það vera viturlegt, að skattþegnar hafi heimild til að verja ákveðnum hluta tekna sinna, án þess að þeir þurfi að borga skatt af slíkum gjöfum. Hið opinbera ætti frekar að hvetja menn til að gera slíkt en að setja fyrirmæli, sem koma í veg fyrir þetta, því að það er vitað mál; að það hefur á margan hátt staðið í vegi fyrir því, að líknar- og menningarstofnunum, sem mikla þörf hafa fyrir fé, hafi getað áskotnazt fé á þennan hátt, þótt menn hér á landi séu mjög örlátir, og hafa því þessar stofnanir farið á mis við margar gjafir af þessum orsökum. Að sjálfsögðu verður að setja skorður við því, hversu miklu skattþegnar geti varið af tekjum sínum í þessu skyni. Það magn hefur verið ákveðið þannig, að skattgreiðendur mættu gefa til líknarstarfsemi og menningarmála allt að 10% af nettó tekjum, þó ekki hærri fjárh. en kr. 10.000.00. Ég skal viðurkenna, að þetta getur út af fyrir sig verið álitamál en ég tel, að ekki sé of djúpt tekið í árinni þótt mönnum sé heimilað að verja þessum hluta nettó tekna sinna í þessu skyni. Að sjálfsögðu verður að setja reglur um það, hvaða stofnanir og fyrirtæki geti komið til greina að verða þessa fjár aðnjótandi, því að vitanlegt er, að slíkar stofnanir ganga undir ýmsum nöfnum, sem má segja, að ekki séu viðurkennd opinberlega. Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta og legg því til, að frv. verði vísað til 2. umr. og n.