06.09.1943
Neðri deild: 8. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

30. mál, einkasala á tóbaki

Sigfús Sigurhjartarson:

Mér eru það ákaflega mikil vonbrigði, ef hæstv. ráðh. sér sér ekki fært að gefa okkur nánari skýringu á málinu. Það ber hér að á undarlegan — svo að ég segi ekki dularfullan — hátt, og það er á engan hátt rökstutt. Ég get ekki gert mér annað í hugarlund en ríkisstj. hafi hugsað sér að mæta einhverri — ákveðinni þörf, sem hún telur fyrir hendi, með því að afla ríkissj. þessara sérstöku tekna. Og afstaða mín til málsins — og ég geri ráð fyrir, mjög margra annarra þm. — fer algerlega eftir því, hver þessi þörf er. Mér skildist á ræðu hv. þm. G.-K., að hér mundi vera eitthvert talsvert víðtækara mál á ferð. Hann taldi það — eins og rétt er — eðlilegt og sjálfsagt að loka tóbakseinkasölunni, á meðan þetta mál væri til meðferðar. En í því sambandi nefndi hann, að líka væri rétt að loka áfengisútsölunni. Ég sé nú ekki, hvaða. rökrænt samhengi er þarna á milli. Þetta gerir málið enn dularfyllra og sýnir, að það er verið að dylja menn einhverju í sambandi við málið. (PO: Ekki höfum við líklega á móti því, að áfengisverzluninni sé lokað!) (Hlátur.) Ne-hei, sannarlega hef ég og hv. þm. Borgf. ekki á móti því, heldur mundum við manna fyrstir greiða atkv. með því. Og það er ekki sérstaklega sennilegt, að við værum út af fyrir sig á móti því, að verðlag á tóbaki hækkaði dálítið, ef verja á þeim tekjum, sem þannig er aflað, til einhverra skynsamlegra og nauðsynlegra hluta.

Ég geri að till. minni, að þessu máli verði vísað til fjhn., svo að það geti fengið einhverja meðferð þar og kannske aflað þeirra upplýsinga, sem hæstv. stj. sýnist ekki vilja gefa þinginu.