29.11.1943
Neðri deild: 55. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í C-deild Alþingistíðinda. (2347)

31. mál, útsvör

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson) :

Herra forseti. Þetta mál hefur átt hálf erfitt uppdráttar hjá allshn. að því leyti, að það hefur lengi dregizt afgreiðsla þess af hálfu n. Og eins og nál. ber með sér, er orsök þess augljós. Innan n. voru skiptar skoðanir um það, á hvern veg skyldi afgreiða þetta mál. Töldu sumir í n., að það mætti vel samræma þessa lagabreyt. breyt. á skattal., sem búizt var við, að kæmi fyrir þetta þing og næði afgreiðslu, og töldu jafnvel sumir hv. nm., að þótt ekki fengist afgreiðsla á skattal. að þessu sinni, þá þyrfti það ekki að koma að sök, þó að afgreiðsla þessa máls, sem hér liggur fyrir, biði. En við tveir nm., hv. 2. þm. Eyf. (GÞ) og ég, lítum svo á, að lögfesta beri þessa breyt. á útsvarsl. og að hún eigi nú að ná fram að ganga á þessu þingi. Það hefði nú kannske verið betra af okkar hálfu, sem mælum með frv., að till. frá okkur hefði komið um það fyrr. En við vildum ógjarnan gera ágreining innan n., ef hægt væri að koma því fram, sem fyrir hv. flm. þessa máls vakti með flutningi málsins, með breyt. á skattal., þegar hún kæmi fram. Nú finnst mér að vísu og hv. 2. þm. Eyf., sem mælum með því, að þetta frv. verði samþ. á þessu þingi, að bezt fari á því, að slík breyt. sem þessi verði gerð á útsvarsl. Hún á þar heima, og það er áreiðanlega heppilegast, að þau lagaákvæði, sem snerta útsvarslöggjöfina, sé þar að finna, en þeim sé ekki blandað innan um skattal. hér og þar. Sums staðar mun framkvæmd skattal. vera eins og fyrir er mælt í þessu frv., en þó mun það ekki vera alls staðar. Við, hv. 2. þm. Eyf. og ég, erum sammála hv. flm. um það, að það beri að vernda þessi sjóðatillög fyrir útsvarsálagningu, því að ef það er ekki gert, og við skulum segja, að megnið af þessari upphæð sé tekið í útsvör hjá hlutaðeigandi manni eða fyrirtæki, þá er náttúrlega tilgangslítið að samþ. í sambandi við skattal. þessar ívilnanir, ef þannig skyldi svo með þetta farið. A. m. k. styður þá sú ráðstöfun ekki þá starfsemi, sem þessi fyrirtæki eða einstaklingar hafa með höndum, en það er þó vissulega tilgangurinn með þessu ákvæði skattalöggjafarinnar. Ég ætla þess vegna, að það fari bezt á því, að hæstv. Alþ. afgreiði þetta mál nú með því að samþ. frv. eins og það liggur fyrir.

Ég get getið þess, að við nm. leituðum til skattan. Reykjavíkur. En það svar, sem frá formanni hennar kom, var mótfallið því, að þessi breyt. næði fram að ganga. En það var að sjá svo, að þeir vildu gjarnan hafa óbundnar hendur um álagningu á þetta fé. En það rýrir ekki gildi þess að minni hyggju, að þetta frv. eigi að verða samþ. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, en ég vona, að hv. d. geti fallizt á till. okkar hv. 2. þm. Eyf. um að samþ. frv.