30.11.1943
Neðri deild: 56. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (2354)

31. mál, útsvör

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla fyrst að víkja að því, sem kom nú fram hjá hv. 6. landsk. og öðrum þegar við 1. umr., að það væri eðlilegt, að þessi breyt. á útsvarsl. væri tekin í sambandi við breyt. á skattal. Ég er hissa á því, að þessi skoðun skuli hafa komið fram, þar sem það hlýtur að vera algild regla, að öll ákvæði um útsvarsálagningu séu í útsvarsl. og öll ákvæði um skattaálagningu séu í skattal. út af fyrir sig, en að þessu sé ekki öllu grautað saman inn í marga lagabálka, þannig að þeir, sem eiga að leggja á skatta og útsvör, séu ekki vissir um, að þeir hafi kynnt sér allt um þessi efni, þótt þeir hafi lesið bæði útsvars- og skattal.

Það hefur einnig komið fram, að það væri rétt að ganga frá þessu atriði, þegar tekin væri afstaða til fjölmargra annarra atriða í skattal. Mér finnst, að hægt sé að taka afstöðu til þessa máls alveg útaf fyrir sig, um það, hvort nýbyggingarsjóðirnir skuli vera skattfrjálsir gagnvart bæjar- og sveitarfélögum, eins og þeir eru gagnvart ríkinu. Varðandi efni málsins og brtt. hv. 6. landsk. vil ég taka það fram, að samkvæmt skattal. er öllum útgerðarmönnum og útgerðarfélögum heimilt að draga frá 1/3 hluta af tekjum sínum, áður en skattur er á lagður, enda sé það fé lagt í nýbyggingarsjóð.

Þegar þessi ákvæði voru sett í skattal., var það einnig ákveðið, að samtals skattar og útsvör skyldu mest ganga upp í 90% af tekjunum og að þá mætti ekki ganga meira á það. Þetta ákvæði var sett inn, vegna þess að ekki þótti hæfa að leggja meira á alls en 90%. Þá var sett inn ákvæði um það, að nýbyggingarsjóðstillag af tekjum yfir 200 þús. kr. skyldi ekki vera útsvarsskylt. En það var ekkert ákvæði um útsvarsálagningu á nýbyggingarsjóðstillög af tekjum undir 200 þús. kr. Ég held, að ég megi þó fullyrða, að það muni hafa verið ætlazt til þess er l. voru sett, — að það fé, sem útgerðarmönnum var heimilað að leggja í nýbyggingarsjóði, skyldi raunverulega ganga til endurnýjunar skipastólsins, en að það yrði ekki tekið sem — útsvör til bæjar- og sveitarfélaga. Og ég fullyrði, að þótt það hafi ekki verið ætlun löggjafans að veita útgerðinni þessi hlunnindi, til þess að. bæjar- og sveitarfélög drægju þau undir sig, þá var það ekki gert af neinum fjandskap til þeirra, heldur vegna þess, að útgerðin hefur sjálf mikla þörf fyrir þetta fé.

Nú veit ég líka, að þetta er víða framkvæmt eins og Alþ. ætlaðist til, að þegar útsvör eru lögð á, þá er gengið fram hjá þeim hluta teknanna, sem lagður er í nýbyggingarsjóð, en sums staðar er þessu ekki þannig háttað, heldur er lagt útsvar á allar tekjurnar og þá einnig á nýbyggingarsjóðstillagið. Vegna þessa hefur útgerðinni sums staðar orðið — mjög erfitt að notfæra sér — þessi hlunnindi, og hefur þannig stappað nærri, að skattfrelsið af hálfu ríkisins hafi alls ekki notið sín.

Af þessum ástæðum er þetta frv. fram komið, og þar er gert ráð fyrir, að þetta fé renni alls ekki til bæjar- og sveitarfélaga, þótt það sé þar vel komið, heldur skuli það renna til nýbyggingarsjóða útgerðarinnar. Þar, sem þessu hefur verið háttað eins og Alþ. ætlaðist til, verður engin breyt., en þar, sem bæjar- og sveitarfélög hafa lagt á þennan hluta teknanna einnig, þá verða önnur útsvör að hækka. Er ekkert við því að segja, það er í samræmi við það, sem ætlazt var til, því, að það er mjög áríðandi, að útgerðin geti komið sér upp, nýbyggingarsjóðum á þessum, árum, Ég veit ekki, hvað væri meira í þágu bæjar- og sveitarfélaganna sjálfra og hvort það væri betra að ganga nú svo nærri útgerðinni, að hún gæti nú ekki komið undir sig fótum og notfært sér þau hlunnindi, sem l. heimila.

Það er ekkert annað en fullkomin fjarstæða, sem hv. þm. heldur fram, að ríkið eigi að bæta upp skattfrelsið. Þetta er alveg ný hugmynd. Ríkið hefur vald til þess að takmarka það svið, sem bæjar- og sveitarfélög hafa til útsvarsálagningar, og það er engin ástæða til þess, að ríkið bæti slakt upp með fjárframlögum frá sér. Auk þess mundi það verða ómögulegt, vegna þess að ekki er hægt að dæma um, hvað það ætti að vera mikið, og einnig væri hægt að misnota það herfilega, þar sem niðurjöfnunarnefndir gætu sagt, að þær hefðu ætlað að leggja svo og svo mikið á.

Þessi till. er einungis flutt til þess að hafa eitthvað að segja og bera við. Það á að segja, að þetta hafi komið illa við útvegsmenn í sjávarplássum, en þetta er ekkert annað en endileysa og vitleysa. Ég ætlaði að segja örfá orð út af till. 6. landsk., en ég læt við þetta sitja að sinni. Þá vil ég minna menn á að gera greinarmun á skatta- og útsvarslögum, þótt vitanlega sé nokkur skyldleiki þar á milli.