30.11.1943
Neðri deild: 56. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (2356)

31. mál, útsvör

Lúðvík Jósefsson:

Það kom fram í ræðu 2. þm. S.-M., að honum þótti einkennilegt að taka þetta eina atriði út úr skattal. og láta það ekki heyra undir aðrar endurbætur þessarar löggjafar. Enn fremur vildi hann svo vera láta, að þetta heyrði undir útsvarsl. öllu fremur en skattal., en þá gleymir hann þeirri staðreynd, að allt þessu viðkomandi heyrir undir skattal. Meiningin með þessu er einungis að tryggja það, að það fé, sem ætlað er til nýbygginga fiskiskipa, fari til þess og ekki annars. Þá leggur hann áherzlu á, að þegar veitt var til nýbyggingarsjóðs, hafi það verið ætlun þm., að þau framlög væru útsvarsfrjáls. En um þetta finnst hvergi stafur, og má það vera einkennileg afgreiðsla á máli, að þetta skuli hvergi tekið fram. Eysteinn Jónsson telur, að ókleift sé að leggja útsvör á framlög í þessu skyni. Þetta hygg ég, að sé rangt. Þar, sem ég þekki til, hæfa menn ráðizt í slíkt, enda þótt þeir yrðu að bera útsvör, ef þeir njóta skattfríðinda. En með því móti léttir á einstaklingum. Hann segir, að ég flytji þessa till. einungis til þess að hafa eitthvað til að segja og skjóta mér á bak við. En ég vil benda honum á, að mín till. mælir ekkert í mót útsvörum á hlutafélög. Sannleikurinn er sá, að háttv. 2. þm. S.-M. og flokki hans liggur í léttu rúmi hvort bæjarfélögin þurfa að gjalda nokkrum tugum þúsunda meira. En það kemur verr við hans flokk, ef gjalda þarf þessa upphæð úr ríkissjóði, sem hann ætlar í ákveðna átt. Og hann rangfærir mín orð, þegar hann stagast á „skattfrelsi“ í stað „tekjumissi“

Loks er það eitt atriði enn, sem ég vildi hrekja, þegar hann segir, að ég vilji ekki hrófla við þeim, sem hafa 200 þús. og þar, yfir.

Og þetta segir hann, þótt hann viti, að við sósíalistar höfum alltaf verið þessu andvígir, sem flokkur hans stóð að. Ég vona nú, að háttv. deildarmönnum sé ljóst, hvaða málstaður það er, sem þm. S.-M. berst hér fyrir.