05.10.1943
Neðri deild: 27. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í C-deild Alþingistíðinda. (2394)

64. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. Áður en ég vík að málinu sjálfu, vil ég rétt aðeins fara nokkrum orðum um ræðu hv. þm. Hafnf. Þegar ég hlustaði á ræðu þessa hv. þm., duttu mér í hug niðurlagsorð á erindi eftir eitt af skáldum okkar, en þau hljóða svo:

„Síðan allri ævi eytt að gera það að engu“.

Það eru tvö mál, sem þessi hv. þm. hefur staðið að, af alhuga, en það eru skipulag mjólkursölunnar og skipun sex manna n. s. l. vor, en nú fordæmir hann þetta hvort tveggja. Það er um skipulag mjólkursölunnar að segja, að það hefur náðst árangur á öllum þeim sviðum, sem hann taldi fram, og ég tel bezt að sýna þennan árangur með örfáum tölum.

Hann sagði, að aðaltilgangurinn með stofnun Mjólkursamsölunnar 1934 hefði verið sá að tryggja nægilega mjólk í bæinn, en hann gat ekki um, hve mikil mjólk hefði verið hér til sölu, er samsalan tók til starfa. Þá voru hér til sölu 6.3 millj. lítrar árlega. Framleiðslan var ekki meiri með því sölufyrirkomulagi, sem þá var. Nú er mjólkurmagn það, sem selt er hér árlega, komið upp í 15 millj. lítra, þ. e. a. s., að mjólkurmagnið hefur um það bil þrefaldazt á þessum tæpa áratug, sem mjólkursamsalan hefur starfað. Ætli nokkur hefði getað sýnt meiri aukningu á mjólkurmagni þennan tíma heldur en þreföldun þess? — og það þrátt fyrir það, þótt það eigi sér stað, eins og hv. þm. Hafnf. minntist á, að talsverður hluti sé seldur til setuliðsins. Þá skulum við tala um verðið. Ég þykist mega fullyrða, að mjólkurskipulagið hafi í þessum efnum uppfyllt fyllstu vonir um það að auka mjólkurmagnið hér í bænum með því að þrefalda bað. Og þá skulum við athuga verðið. Hvað halda menn, að frjálst markaðsverð mundi nú vera hér í bænum, ef hingað væru seldir aðeins 6,5 millj. lítrar yfir árið? Halda menn, að það hefði engin áhrif á verð mjólkurinnar, ef svo mikill skortur væri á henni, að ekki væru seldir nema 8–9 þús. lítrar á dag hér í bænum í stað 20 þús. lítra og þar yfir, eins og salan er nú? Og væri frjáls sala á mjólkinni og hver keppti við annan, hvað mundi mjólkurverðið þá vera? Við skulum líta á hlutfallið eins og það er nú. Þegar mjólkurskipulagið tekur til starfa, þá kostaði mjólkurlíterinn 44 aura hér í bænum. Og hvað er þá kaup verkamanna? Það er 1,36 á klst., eftir því sem ég veit bezt. Það þýðir, að verkamaðurinn getur fyrir einnar klukkustundar vinnu fengið 3 og 1/10 úr lítra. Þetta er, áður en skipulagið byrjaði. Hvernig er þetta hlutfall svo nú? Ef það hefði orðið til þess að stórhækka mjólkina í verði, þá ætti það að vera verkamönnum í óhag. Nú er mjólkin seld út á kr. 1,45, þó að þeir ættu að borga út kr. 1,70 fyrir lítrann. Nú er kaup verkamannsins 5,51 á klst., og hvort getur hann nú keypt meira eða minna af mjólk fyrir klukkustundar vinnu nú eða áður en skipulagið byrjaði? Mér reiknast það ekki þrír lítrar, heldur allt að því fjórir lítrar, og þó er vitað, að þeir borga ekki þetta verð, heldur borga þeir kr. 1,45, svo að segja má, að sá tilgangur hafi náðst að gera mjólkina ódýrari fyrir fólkið í bænum, þó að lítils háttar skortur sé á þessari vöru suma tíma ársins, þó að það sé vitað, að mjólkurskorturinn mundi vera miklum mun gífurlegri, ef skipulagið hefði ekki starfað.

Þá vil ég segja það, að það liggur fullkomlega sannað fyrir, og það veit þessi hv. þm. (EmJ), að af því tvennu, sem skipulagið átti að stefna að, hefur þó a. m. k. tvennt náðst betur en vonir stóðu til. Mjólkurmagnið hefur þrefaldazt á þessum 9 árum, og verðlagið hefur líka hlutfallslega lækkað borið saman við kaupgjald verkafólksins í bæjunum. Þetta er ómótmælanlegt.

Þá kem ég að þriðja atriðinu, hvort mjólkin sé betri eða verri. Þetta skal ég játa, að er erfitt að sanna, vegna þess að gæðamat á mjólkinni átti sér ekki stað, áður en mjólkurskipulagið tók til starfa. En eftir að skipulagið tók til starfa, fór fram gæðamat á mjólkinni á hverjum degi, og hún hefur aldrei verið seld nema undir eftirliti, síðan skipulagið tók til starfa, þó að það sé vitað, að hvar sem er í heiminum, er ekki hægt að reka mjólkursölu svo, að ekki komi fyrir óhöpp, svo lengi sem nokkrum getur skeikað. Ég sé það, að í blöðum bæjarins er talað mikið um það, að óhreinindi séu í flöskunum. Það getur komið fyrir, þegar flöskurnar eru þvegnar, að flaska fari fram hjá, ef sá, sem við það er, t. d. lítur við, og þannig geta framleiðsluóhöpp komið fyrir. En ég þori að fullyrða það, að síðan mjólkurskipulagið kom, hefur farið fram gæðamat á mjólkurvörum, sem ekki þekktist áður. Ég þori líka að fullyrða, að síðan mjólkurskipulagið tók til starfa, höfum við haft menn með betri tekniska menntun við mjólkurframleiðslu en áður. En hitt er vitað mál, að með þessu geysilega aukna vörumagni hefur ekki verið hægt að stækka mjólkurstöðvarnar eins og þörf hefði verið fyrir. En þó er það vitað, að mjólkurbúin hafa stækkað stórlega, og það hefur aldrei verið sett sig úr færi um það að fá hinar beztu vélar, sem völ hefur verið á. Mjólkurstöðin hér í bænum hefur verið endurbætt stórlega, en það hefur ekki verið hægt að ná í mjólkurvélar um lengri tíma. Nú vitum við það vel, að þessi mjólkurstöð er ekki í eins góðu ástandi og hún ætti að vera, og þess vegna hefur skipulagið ráðizt í það að leggja fram stórfé til þess að reisa nýja mjólkurstöð, og nú er þessi mjólkurstöð bráðlega komin upp. En það, sem hefur aðallega staðið á, er það, hvernig gengur að útvega mjólkurvélar í stöðina. Þó eru miklar vonir um það, að þær muni fást á þessum vetri, og ef það tekst nú á næsta vori að koma þessari fullkomnu mjólkurstöð upp með hin fullkomnustu tæki, þá má fullyrða, að ekkert skipulagsleysi hefði verið búið að koma þessu þrennu viðvíkjandi mjólkurskipulaginu í það horf, sem það þá verður komið í og hv. þm. Hafnf. telur aðalatriði málsins, að tryggja fólkinu í bænum nóg af ódýrri og góðri mjólk. Síðasta atriðið er verið að leysa, og það er honum eins kunnugt og mér, hversu erfitt það er nú á tímum að koma upp nýju fyrirtæki, fá til þess vélar og allt annað, sem til þarf. Ég vil fullyrða, að þrátt fyrir alla erfiðleika hefur aldrei verið sleppt neinu tækifæri, til þess að þessi mjólkurstöð kæmist upp eins fljótt og frekast væri auðið. Ég tel það ganga kraftaverki næst, ef þessi fullkomna stöð verður komin upp á næsta ári, þrátt fyrir þá erfiðleika, sem eru á því að fá slíka hluti flutta inn, sem til slíks þarf. Ég hygg því, að hv. þm. Hafnf. þurfi ekki að sjá eftir því að hafa stutt þetta mál, ef hann leggur það niður fyrir sér, að um öll þessi þrjú atriði hefur náðst meiri árangur en nokkurn okkar dreymdi um, þegar verið var að koma mjólkurskipulaginu á.

Þá var hv. þm. Hafnf. að tala um það, að hann hefði síður en svo á móti því, að bændur bæru sæmilega úr býtum, en það mætti ekki vera svo mikið, að verðið væri ekki samkeppnisfært á erlendum markaði, framleiðslan á landbúnaðarvörunum mætti ekki vera dýrari en í nágrannalöndunum. Hann sagði, að það mætti fá smjör frá Suður-Ameríku fýrir 7 kr. kg., en það kostaði hér á landi 21 kr. kg., kartöflurnar kostuðu 30 aura kg., en kr. 1,40 hér og annað eftir því. Og hann sagði, að slíkir hlutir gætu ekki gengið. En hvernig stendur nú á því, að þetta er svona dýrt hjá okkur? Er það ekki vinnuaflið, sem því veldur? Það er ekki í nokkru landi í kringum okkur jafndýrt vinnuafl og hér á landi. Hvaða áhrif hefur þetta svo? Heldur hv. þm., að það hafi engin áhrif á framleiðsluvörurnar, hvað vinnukrafturinn kostar? Hvað segir sex manna n. um þetta? Hún segir, að vinnan sé stærsti kostnaðarliðurinn við framleiðsluna. Og þetta er rétt. Og þegar þessi kostnaðarliður er orðinn svona hár, eins og hann er hér á landi nú, þá er ekki hægt að framleiða vörurnar öðruvísi en þær verði dýrari en annars staðar. En gætum við flutt inn erlendan vinnukraft til þess að gera þetta ódýrara? Ég skal ekki segja um það. En það hlýtur að haldast í hendur, framleiðslukostnaðurinn í landinu og kaupgjaldið.

Það land, sem hefur ódýran vinnukraft, hlýtur að vera samkeppnisfærara á erlendum markaði en það land, sem hefur dýran vinnukraft. Þess vegna er það ekki aðeins hagsmunamál bænda, að framleiðslan sé að þessu leyti samkeppnisfær á erlendum markaði, heldur eru það einnig og ekki síður hagsmunir verkamanna. Hver lætur sér koma til hugar, eins og nú er ástatt á vinnumarkaðinum hér á landi, að nokkur maður fáist til að framleiða landbúnaðarvörur og bera ekkert úr býtum, nú, þegar hver maður getur fengið vinnu, eftir því sem hann vill? Það mundi ekki þýða neitt annað en það, að framleiðslan mundi dragast niður með öllu. Að núverandi verðlag á landbúnaðarvörum er í ósamræmi við kaupgjald verkamanna samanborið við það, sem áður var, getur þessi hv. þm. séð með því að bera saman tölur um þetta fyrr og nú. Enda komst sex manna n. að þeirri niðurstöðu, að bændur hefðu ekki sett verðið nógu hátt samanborið við kaup verkamanna, og það varð samkomulag um þetta í sex manna n. Það sýnir, að allur sá rógur um það, að bændur væru að okra á vöru sinni, er á sandi byggður.

Ég held, að það sé aðeins eitt atriði í viðbót í ræðu hv. þm. Hafnf., sem ég vildi minnast á. Hann sagði, að mjólkurskorturinn hér í bænum þessa dagana stafaði að mjög miklu leyti af því, að nokkuð mikið af mjólk sé selt til setuliðsins, og hann sagði, að það væri ergilegt, að landsmenn þyrftu að borga mjólk ofan í Bretann. En það er einn ágallinn við það að greiða niður dýrtíðina, að við verðum að láta útlendingana sitja við sama borð og aðra neytendur hér á landi. En það er sannarlega ekki eingöngu fyrir bændur gert að borga mjólkina niður, því að þetta er eingöngu neytendastyrkur, og hann hefur það í för með sér, að það er ekki hægt, þegar erlendir neytendur eru í landinu, að láta þá sæta öðru verði. Nú er það satt, að nokkur þús. lítrar af mjólk eru seldir til setuliðsins. Þó hefur verið mjög dregið úr því, þó að það sé erfitt, vegna þess að setuliðið gengur fast eftir því að fá þann ákveðna skammt, sem um var samið, að það keypti. Og nú er það svo, að alla tíma ársins er okkur framleiðendum, sem með þessi mál förum, og neytendum og þjóðinni allri það nokkurt hagsmunamál, að herinn kaupi nokkra mjólk, vegna þess að mjólkurskortur á sér aldrei stað nema fáar vikur að haustinu, þ. e. frá hálfum mánuði upp í 6 vikur. Alla aðra tíma ársins er mjög mikið af umfram-mjólk, sem verður að vinna vörur úr. Þess vegna er það líka sjáanlegt, að það er mikið hagsmunamál, ekki aðeins bændum, heldur þjóðfélaginu í heild, að þessi umfram-mjólk sé keypt af þessum aðila. Ef sú mjólk, sem herinn kaupir, yrði að færast í vinnsluvöru, þá sér hver maður, að verðuppbæturnar þyrftu að aukast stórkostlega og það aðeins vegna þessa lítils háttar skorts á mjólk hér í bænum í hálfan mánuð eða svo. Og vegna þessa smávægilega skorts á mjólk þennan stutta tíma ætti svo að taka af setuliðinu alla þá mjólk, sem það annars hefði fengið. Eins og nú er ástatt þessa dagana, hefur mesta sala daglega verið í kringum 27 þús. lítra hér í bænum, en suma dagana hefur hún farið niður í 22 þúsund lítra, og af þessu er hægt að sjá það, að skorturinn er ekki mikill. Nú er spurningin, hvort ganga eigi nær og eyðileggja markaðinn hjá setuliðinu fyrir þessar fáu vikur, þar sem skorturinn er þó ekki meiri en hér er um að ræða. Nú getur vel verið, að þetta væri rétt, ef þjóðarnauðsyn væri sérstök fyrir því, en á meðan yfir 20 þús. lítrar eru sendir út til neyzlu hér í bænum daglega, er enginn voði fyrir dyrum. En nú skulum við segja, að þetta væri rétt að gera. En það kemur sannarlega úr hörðustu átt, þegar fulltrúar verkamanna ráðast á bændur fyrir það, að þeir vilja verzla með vinnu sína lítinn tíma af árinu, þegar þeir hafa átt þeim skilningi að mæta, að hvað sem við hefur legið, hafa þeir ekki getað fengið vinnukraft til framleiðslunnar, vegna þess að setuliðið hefur alltaf setið fyrir um alla vinnu, — og það ekki aðeins lítinn tíma úr árinu, heldur allan tíma ársins. Þegar tilraun hefur verið gerð til þess að setuliðsvinnan væri minnkuð og framleiðslan látin ganga fyrir um vinnuafl, þá hefur það verið kallað þrælatök og annað slíkt. Ég verð því að segja það, að það kemur úr hörðustu átt, að slíkir málsvarar skuli ráðast á bændur fyrir það, að þeir vilji ekki sleppa markaðinum hjá setuliðinu.

Ég held, að það sé ekki fleira í ræðu hv. þm. Hafnf., sem er sérstaklega þörf á að athuga. Ég vænti þess, að jafngreindur maður og hann er hafi lagt niður fyrir sér þessar staðreyndir, sem ég hef bent honum á. Meginhlutinn af því, sem hann var að drótta að bændum og Mjólkursamsölunni, það er a. m. k. á mjög veikum tölum byggt, svo að ekki sé meira sagt.

Ég skal svo víkja nokkrum orðum að þessu frv., sem hér liggur fyrir og hv. 8. þm. Reykv. er 1. flm. að. Ég þarf þó ekki mikið um það að ræða, því að hv. þdm. eru sjálfsagt búnir að gera sér það nokkuð ljóst, bæði innihald þess og tilgang. Frv. gengur út á þrennt: Í fyrsta lagi, að taka vörurnar, sem bændur hafa framleitt, og láta bæina fá einkarétt á því að selja þær vörur og taka þannig af framleiðendum umráðaréttinn yfir vöru sinni, áður en hún er fullunnin hvað þá meira. Þetta hygg ég að sé fullkomið eins dæmi í íslenzkri löggjöf. Þá er það að setja gerðardóm til þess að fjalla um verðlag á mjólkurvörum til bænda, sem væri ekki aðeins um stundarsakir, heldur væri það fast fyrirkomulag, að bændur skyldu alltaf vera í minni hl. um það að ákveða verð á vöru sinni og þar með réttlausir um það, hvað það væri. Ég held, að hv. 2. þm. S.-M. hafi nokkuð minnzt á það, hvernig þetta liti út, ef þetta ætti að gilda fyrir verkamenn. Því hefði a. m. k. ekki verið tekið með þökkum, hefði verið talað um gerðardóm í því skyni að ákveða verð á vinnu verkamanna. Og hvað er verð á landbúnaðarafurðum annað en verð á vinnu bænda? Ef það eru þrælalög fyrir eina stétt að mega ekki hafa umráðarétt yfir vinnu sinni, þá eru það líka þrælalög á aðrar stéttir, þ. e. a. s., það er í öllum lýðræðisþjóðfélögum. En þar, sem einræðisríki eru, þar er réttlætið tvískipt. En nú er það skipulag ekki komið á í þessu þjóðfélagi, og Íslendingar vona, að það komi aldrei inn í þetta land. Landnámsmennirnir vildu upphaflega lifa hér sem frjálsir menn, og ég hygg, að íslenzka þjóðin mundi vera liðin undir lok, þegar ætti að fara að framkvæma réttlætið í landinu á þann veg, sem ætlazt er til með þessu frv., að einni stétt væri boðið upp á gerðardóm út af umráðaréttinum yfir vinnu sinni, en nákvæmlega sömu aðferðir væru kallaðar þrælalög gagnvart öðrum stéttum. En frv. er byggt á þessum hugsunarhætti, að hér eigi að vera tvenns konar réttlæti. Þess vegna eru þetta ekkert annað en þrælalög.

Þetta eru tvö aðalsjónarmið frv., og svo er ákvæði um stundarsakir um það, að það sé líka rétt að láta bændur hafa annan rétt, þegar farið sé að taka af þeim eignir þeirra. Hafi bændur greitt eitthvað fyrir fram í þeim fyrirtækjum, sem um er að ræða í bæjunum, undir þessu skipulagi, þá eiga þeir ekki að fá neitt greitt fyrir, heldur skulu þeir greiða skuldir, ef einhverjar eru. En öðrum en bændum er leyft að halda sínum eignarrétti, og þess vegna gildir eignarétturinn ekki fyrir okkur frekar í þessu efni en öðrum. Hér stendur orðrétt í ákvæðinu um stundarsakir: „Nú ákveður bæjarstjórn eða hreppsn. að hagnýta sér sérleyfisrétt sinn til sölu og dreifingar á mjólk og mjólkurafurðum samkv. 5. gr. hér að framan, og tekur hún þá við öllum eignum og réttindum, þ. á m. leiguréttindum þeirrar mjólkursamsölu, sem starfandi kann að vera í umdæminu, með skuldum, sem á þeim kunna að hvíla, og án annars endurgjalds“. — Ég vil nú spyrja: Hverjir ætli eigi skuldakröfur í þessi fyrirtæki? Ætli það séu ekki bankarnir? — Með öðrum orðum: Bankarnir eiga að fá greitt það, sem þeir eiga í þessum fyrirtækjum, en bændurnir eiga að tapa eignarrétti sínum, því, sem þeir hafa átt í þessum fyrirtækjum. En hvernig stendur nú á því, að þessir menn, bændurnir, eiga að vera réttlægri en eignir bankanna? Hvernig er hugsunarháttur þeirra manna, sem þannig hugsa? Ég held, að þetta sé ekki einu sinni kommúnismi, eftir því sem honum er lýst í „Das Kapital“. Þar hef ég séð því haldið fram, að eignir auðmanna eigi að taka og skipta þeim á milli þeirra, sem lítið eiga og eru lágt launaðir. — En hér er vegið að eignarrétti einnar stéttar út af fyrir sig. (SigfS: Væri ekki rétt, að hv. þm. læsi þessa málsgr. til enda?). Ég get gert það, ef hv. 8. þm. Reykv. er nokkur fróun í því eða ef hann hefur ekki gert það sjálfur: Þar segir svo: „Þau mjólkurbú eða þeir mjólkurframleiðendur, sem kunna að hafa lagt fram stofnfé eða önnur peningaframlög til mjólkursamsala eða mannvirkjagerða þeirra vegna, skulu fá það endurgreitt“. En með hvaða hætti leggja bændur venjulega fram fé til þessara mannvirkja? Hafa þeir venjulega þau fjárráð, að þeir leggi fram stórfúlgur? Nei. Þeir hafa orðið að taka lán og greiða þau smátt og smátt með hluta af framleiðslu sinni. Það sér því hver maður, hvað í þessu felst. Þeir fá aldrei endurgreitt það verðmæti, sem þeir hafa lagt fram á þennan hátt.

Þá voru nokkur öfugmæli hjá 1. frsm., er þarf að leiðrétta. Hann sagði, að mjólkurstöðin væri byggð fyrir verðjöfnunarsjóð samsölunnar. Þetta er ekki rétt. Samsalan og verðjöfnunarsjóður hennar hafa algerlega aðskilið bókhald og eru tvö fyrirtæki. Verðjöfnunarsjóður sér aðeins um verðjöfnun til bænda. Bygging mjólkurstöðvarinnar hefur ekki verið á hans vegum, heldur sérskilins byggingarsjóðs, er bændur hafa lagt í sjálfir smátt og smátt.

Enn fremur var hv. frsm. að segja hér, að einhver meðlimur úr mjólkursölun. hefði leitað eftir að fá að kynna sér reikninga Mjólkursamsölunnar, en verið synjað um það. Hver er þessi maður? Hví hefur hann ekki komið til mín eða forstjóra samsölunnar? Hann skal óðara fá að sjá alla reikninga, sem hann vill. Þá geta allir fengið að sjá, sem vilja. Þeir hafa verið sendir mörgum, þ. á m. öllum alþm., bankamönnum, mjólkurbúum o. s. frv. Og ef þessi maður er einn úr mjólkursölun. og vill kynna sér reikninga samsölunnar, hví kemur hann þá ekki fram í dagsljósið? Hví kemur hann ekki til mín? (SigfS: Ég skal senda hann beint til hv. þm.). Sannleikurinn er sá, að það er ekki hægt að neita um að fá að sjá þessa reikninga, og það hefur aldrei verið gert. Þetta sýnir aðeins, hve mikið getur safnazt fyrir í huga manna af því, sem enginn fótur er fyrir.

Hv. 8. þm. Reykv. sagði, að dreifing mjólkurinnar skipti neytendurna miklu meira máli en framleiðendurna. Ég fæ ekki skilið þetta. Bændur eiga allt undir framleiðslu sinni, en neytendur eiga þó aldrei nema brot af tekjum sínum undir því, hvernig dreifing mjólkurinnar er framkvæmd. Og hvort er meira allir hagsmunir eins manns eða brot af hagsmunum hans? Það er vitað mál, að í þeim vörum, sem bændur framleiða, eru allir þeirra möguleikar. Þeir eiga allt undir framleiðslu sinni og sölu framleiðsluvaranna, en neytendur eiga sáralítið undir því að skipta sér af þessu. Ég skil því ekki, að sá eigi að hafa meiri réttinn, sem minni hagsmuna á að gæta.

Það er tvenns konar réttlæti í þessu frv., nokkurs konar undir- og yfirstétt. Ef hagsmunir annars aðilans snerta lítið hagsmuni hins, þá eiga hinir litlu hagsmunir þess síðast nefnda að ráða.

Ég skal svo ekki vera að lengja umr. um þetta mál. Ég býst við, að það sé rétt, sem hv. 1. flm. gaf í skyn, er hann reifaði fyrst þetta mál hér, að á kjark þyrfti að halda til að flytja það, því að ég tók eftir, að hann byrjaði ræðu sína og endaði með því að segja, að vert væri að spara sér umr. um þetta mál, og óskaði eftir, að þær yrðu sem minnstar. Þetta er rétt frá því sjónarmiði, að þetta mál er hér til stórrar háðungar. Því legg ég til, að þingið taki nú rögg á sig og tefji sig ekki á að vísa því til n. og sýni með því, að það eru takmörk fyrir, hvað bjóða má virðingu þess.