07.10.1943
Neðri deild: 28. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (2398)

64. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Jón Pálmason:

Herra forseti. Ég hafði búizt við, að þetta frv. færi til landbn., sem ég á sæti í. Ætlaði ég því ekki að blanda mér mikið í þær deilur, sem hér fara fram. En það voru nokkur atriði í ræðu hv. þm. Hafnf., sem fram komu hér í fyrradag, sem gerðu það að verkum, að ég kvaddi mér hljóðs. Þætti mér æskilegast, að hann gæti verið viðstaddur hér og gæti heyrt mál mitt. En fyrst ég tók til máls, skal ég örfáum orðum víkja að frv., sem hér liggur fyrir.

Ég verð að segja það, að á undanförnum árum hefur mér þótt ískyggilega horfa í því, hve miklar deilur hafa verið á milli seljenda og neytenda mjólkur og mjólkurafurða hér á þessu mjólkurverðlagssvæði. Og mér er það fullkomlega ljóst, að það mun ekki vera á neinu öðru viðskiptasviði hér á landi, sem ósamkomulag milli seljenda og kaupenda er eins mikið. Er þetta mjög háskalegt, bæði fyrir seljendur og neytendur og fyrir þjóðina alla, því að eins og gefur að skilja, skiptir það mjög miklu, að samkomulagið sé gott og gagnkvæmur skilningur um jafn-stórfelld viðskipti og þau, sem hér er um að ræða. Nú eiga framleiðendur fullkomna og eðlilega kröfu á því að fá fyrir vöru sína það verð, sem það kostar að framleiða hana, og um það hafa verið miklar deilur á undanförnum árum, hvað það verð væri. En við skulum vona, að nú sjái nokkru betur en verið hefur fram úr þeirri þoku. En jafnhliða því, sem framleiðendur eiga kröfu á þessu, þá eiga neytendur líka fulla kröfu á, að sú vara, sem þeir fá, sé svo vel með farin og vönduð sem kostur er á. Um þessi atriði hafa deilur staðið mjög alvarlegar í sambandi við mjólkursöluna hér í Reykjavík. Og það er nauðsynlegt, að gengið sé fram í því að stilla þær deilur, eftir því sem kostur er. Ég vil benda á, að á öðrum stöðum hér á landi, þar sem mjólkurskipulag er og mjólkursamsala, þar ríkir að kunnra manna sögn ekki nein óánægja, hvorki um vörugæðin né viðskiptin í heild. Þess vegna er nauðsynlegt, að rannsakað verði, hvort ekki er hægt að koma því þannig fyrir, að svo gott samkomulag geti einnig ríkt á þessu verðlagssvæði hér, sem nær yfir Reykjavík. Ég hef þá trú, og hef haft hana óbreytta frá því fyrsta, er ég kom á þing, að ef þessu ósamkomulagi yrði burt rýmt, mundi það hafa m. a. þau áhrif, að mjólkurneyzlan hér í Reykjavík mundi stóraukast frá því, sem nú er. Og það eru ekki aðeins framleiðendur mjólkurinnar, sem hér er neytt, sem eiga þar hagsmuna að gæta, heldur þjóðin öll. En út frá þessu sjónarmiði verð ég að segja það, að það þarf allt annað, að ég hygg, til þess að fá úr þessu bætt en þau ráð, sem fram koma í þessu frv., sem hér liggur fyrir. Því að mér virðist engin trygging liggja í því, þó að bæjum sé veitt heimild til að taka mjólkurstöðvar í sínar hendur og þar með vinnslu og sölu mjólkurinnar, fyrir því, að óánægjan í þessum málum minnkaði eða ástandið batnaði. Auk þess álít ég, að sú aðferð, sem fram á er farið í frv., að höfð verði, sé ekki sú sanngjarna leið, heldur verði að finna önnur úrræði til þess að koma á endurbótum í þessum efnum, sem hér greinir á um. Það, sem fyrst þarf að athuga, er að fá rannsakað, hvaða orsakir liggja til þess, að svo miklir gallar eru á þeirri vöru, sem hér er um að ræða, sem af er látið. Ég skal ekki að öðru leyti fara út í þær þrætur og deilur, sem hér hafa átt sér stað um þetta mál. En ég vildi aðeins láta þetta í ljós, að það er að minni hyggju ekki síður framleiðendanna vegna en neytendanna nauðsyn á, að hægt verði að setja niður þær deilur, sem hér hafa átt sér stað utan þings og innan út af þessum viðskiptum, og koma því til vegar, að báðir aðilar, framleiðendur og neytendur, gætu orðið sæmilega ánægðir.

En það, sem gerði það að verkum, að ég kvaddi mér hljóðs, voru ummæli hv. þm. Hafnf. varðandi starfsemi landbúnaðarvísitölun. og þær niðurstöður, sem hún hefur komizt að. Mér þykir leiðinlegt, að hv. þm. Hafnf. er ekki hér viðstaddur. Það má að vísu segja, að þetta atriði, sem hann gerði að umræðuefni hér, komi ekki beinlínis þessu frv. víð, sem hér liggur fyrir. En hv. þm. fór út á það svið að ræða þetta nál. út frá því sjónarmiði, að hér væri verið að ræða um verðlag á mjólkinni, og sagði, að verðlagið væri samkvæmt þessu samkomulagi miklu hærra en það í raun og veru ætti að vera og hærra en framleiðslan kostaði. Ég sé því fremur ástæðu til að gera aths. við ræðu þessa hv. þm., af því að það er kunnugt, að hann er greindur og mikils virtur maður, og það er þess vegna meiri hætta á því, að rangfærslur frá hans hlið séu teknar til greina heldur en það, sem ýmsir aðrir kunna að segja um þessi mál. En mér virtist hann í ræðu sinni fara með það miklar villur, að ég tel, að því megi ekki vera ómótmælt. Hann tók fram í fyrsta lagi, að sér virtist, að þessi vísitölun., sem öllum kemur saman um, að miklu skipti starf frá, hún hefði farið út fyrir það svið, sem henni hafi verið ætlað. — Já, það er gott, að hv. þm. Hafnf. er kominn inn í salinn, því að ég var að byrja að svara þeim atriðum, sem hann kom að í ræðu sinni varðandi starf landbúnaðarvísitölun. Nú var það aðaltilgangurinn með þeirri nefndarskipun að fá úr því skorið, hvert skyldi vera hlutfallið milli verðlags landbúnaðarvara annars vegar og kaupgjalds hins vegar miðað við framtöl til skatts, til þess að þeir, sem landbúnað stunda og við hann vinna, geti fengið hlutfallslega líkt fyrir sína vinnu og þeir, sem starfa í kaupstöðum landsins og taka kaup fyrir sína vinnu samkvæmt samningum stéttarfélaga og á annan hátt. Ég held, að það sé misskilningur hjá þessum hv. þm. og öðrum, sem halda slíku fram, að þessi n. hafi farið út fyrir það starfssvið, sem henni var ætlað, og niðurstöður hennar séu ekki í samræmi við þær kröfur, sem til hennar átti að gera. Og ég held, að það sé mjög illa farið, að menn beiti sér fyrir því, hvort sem það gera hv. þm. eða aðrir, að tortryggja að ástæðulausu þá starfsemi, sem þarna hefur átt sér stað. Við vitum allir, að þeir menn, sem þarna áttu a. m. k. mest að leggja til mála í þessari n., sem sé hagstofustjóri og formaður búreikningaskrifstofu ríkisins, þeir hafa lagt sig mjög vel fram um það að byggja niðurstöður n. á sem fullkomnustum upplýsingum, sem kostur var á.

Hv. þm. Hafnf. áleit rangt að reikna til gjalda við útreikning á rekstri meðalbús vexti af höfuðstól. Þeir eru af n. reiknaðir 900 kr. Mér þykir þessi fullyrðing hv. þm. Hafnf. mjög undarleg. Og ég held, að í þessu sambandi hafi sá hv. þm. haft of mjög í huga ríkisbúin, sem þurfa ekki að borga neina vexti af höfuðstól, hvorki eftirgjald af jörð né annað, sem höfuðstól varðar. En það, sem hér er um að ræða í þessari 900 kr. upphæð í niðurstöðum n., er eftirgjald af jörð og vextir af höfuðstól, sem liggur í verkfærum og áhöldum, sem hvert bú þarf að eiga. Og þegar ég sá þessa upphæð fyrst, þótti mér hún undarlega lág miðað við það, sem ég hefði gert mér hugmynd um. Upphæðin hjá n. er 900 kr. fyrir það bú, sem í raun og veru er stærra en meðalbú. En að upphæðin er ekki reiknuð meiri en þetta, mun vera af því, að þarna sé talið, að að nokkru leyti sé um eign þess að ræða, sem búið rekur, og að nokkru leyti séu þetta innlánsvextir, sem miðað er við, en ekki útlánsvextir, því að um það bil helmings munur er á þeim vöxtum nú, og þess vegna verði vaxtaupphæðin lægri en annars mundi vera. — Ég held, að þegar hv. þm. Hafnf. fer að hugsa um þetta atriði, þá hljóti hann að komast að þeirri niðurstöðu, að þar sé hann á villigötum, þegar hann telur, að þessi liður eigi ekki að teljast með rekstrarkostnaði búsins.

Þá er annað atriði, sem hv. þm. Hafnf. gerði aths. við, sem er stærsti útgjaldaliður bóndans, sem sé kaupgreiðslur. Þær eru, að ég hygg, reiknaðar af sex manna n. 8.600 kr. Þetta telur hv. þm. Hafnf. allt of hátt reiknað og mjög fjarri því, sem almennt eigi sér stað. En ég held, að hann hafi ekki athugað það, hversu ástandið er í þessum efnum breytt frá því, sem áður var. Í útreikningum n. er gert ráð fyrir því, að hlutaðeigandi bóndi þurfi að hafa karlmann í 41 viku, kvenmann í 37 vikur og liðlétting í 21 viku. Ég get alveg staðhæft það, að þessi vinna, vinna karlmanns í 41 viku, kvenmanns í 37 vikur og liðléttings í 21 viku, kostar miklu meira nú en 8600 kr., því að það almennasta kaupgjald fyrir fullkominn mann mun nú vera allt að 8.000 kr. árskaupið, eins og það er á þessu ári. En að þetta er reiknað lægra, byggist á því, að kauphækkunin var ekki að fullu komin á á hálfu — því tímabili, sem n. tók tillit til til að byggja á þennan útreikning sinn, því að hún reiknaði með kaupgjaldi á tímabilinu frá 1. sept. 1942 til 1. sept. 1943. En kauphækkunin kom ekki fram í sveitinni fyrr en á síðasta vori, þó að hún kæmi fyrr fram í kaupstöðunum. Og þess vegna hefur n. þarna reiknað með lægri kaupgreiðslum en verða mundi, ef til grundvallar væru lagðar þær kaupgreiðslur í sveit, sem nú eiga sér stað þar almennt.

Þá áleit hv. þm. Hafnf., að bóndanum væri ekki þörf á svona mikilli aðkeyptri vinnu. Þetta er atriði, sem náttúrlega getur komið til álita, og fer þetta að mjög miklu leyti eftir aðstöðu og jarðnæði bóndans. En ég hygg, að það séu þó almennt margir af bændum landsins, sem þurfa hlutfallslega meiri vinnu að nota en þarna er um að ræða. Þeir bændur eru líka til, sem þurfa minni vinnu til þess að framfleyta búi sínu vegna góðrar aðstöðu á jarðnæði sínu.

Þeim, sem halda, að þarna sé hjá n. of í lagt um þennan kostnað, bæði hv. þm. Hafnf. og öðrum, vil ég ráðleggja það að athuga hag og rekstur ríkisbúanna. Það er eðlilegast, að einmitt þeir menn athugi þessu til samanburðar rekstrarkostnað ríkisbúanna hér í kringum Reykjavík og annars staðar á landinu, þar sem þau eru rekin.

Þá vék hv. þm. Hafnf. að því, sem er mjög mikilsvert atriði í þessu sambandi, og það er vinna barna bóndans. Hv. þm. vildi vefengja, að það væri réttmætt að reikna til gjalda þann lið að fullu. Ég tel, að þetta skipti ekki máli. Vinna þeirra barna, sem eru innan 16 ára, er reiknuð í kaupi bóndans, en þau börn, sem þar eru yfir, eru reiknuð með í útborgaðri vinnu, og er það sanngjarnt og eðlilegt, því að það er vissulega ekki neitt sanngjarnt né eðlilegt við það, að bændur, sem geta haft börn sín heima, borgi þeim lægra kaup en þau geta fengið annars staðar. Það er nú eins og stendur eitt mesta meinið fyrir landbúnaðinn og hefur verið undanfarin ár, að börnin í sveitinni, jafnóðum og þau koma upp, fara burt, af því að þeim er boðið svo hátt kaup og góð aðstaða og betri en hægt hefur verið við sveitabúskapinn. Og þess vegna væri óeðlilegt að reikna bændum lægri rekstrarkostnað við bú sín, ef þeir njóta við búreksturinn vinnu barna sinna eldri en 16 ára, og gera þannig ráð fyrir, að þeim sé borgað lægra kaup fyrir það eitt að vera börn bóndans.

Þá er þriðja höfuðatriði hv. þm. Hafnf., þar sem hann gerir mikið úr því, að útgjöldin séu reiknuð búum bænda allt of há og þó sérstaklega kaup bóndans sjálfs. Ég hef ekki aðstöðu til að vita nákvæmlega, hve þær undirstöður eru réttar, sem sex manna n. lagði til grundvallar útreikningi á tekjum annarra stétta, eða hve rækilega hefur verið í þetta farið, en eftir því, sem fram hefur komið, er ekki annað sjáanlegt en það hafi verið gert svo samvizkusamlega sem hægt er á svo stuttum tíma. N. hefur tekið skattaskýrslur hlutaðeigandi stétta eða ákveðins hóps manna úr þeim stéttum og byggt útreikning sinn á þeim. Samkvæmt ræðu hv. þm. Hafnf. var svo að sjá sem helzt hefði eitthvað verið athugavert varðandi útreikninginn á tekjum sjómanna. Hann heldur því fram, að n. hefði tekið tekjur sjómanna yfirleitt og reiknað á þær vísitöluhækkun. Ég hef nú spurt einn nm. um það, hvernig með þetta hafi verið farið, og staðfestir hann það, sem tekið er fram í nál., að sjómenn með áhættuþóknun hafi ekki verið teknir með. En hinir, sem teknir voru, eru annars vegar hlutasjómenn að einhverju leyti, en að hinu leytinu sjómenn, sem vinna fyrir kaupi og fá verðlagsuppbót. Nú er svo með þetta farið, að kaup þessara manna er tekið samkv. skattaskýrslum ársins 1942, og að svo miklu leyti sem dregið er frá, er það gert samkv. þeim breytingum, sem urðu á vísitölunni á síðari hluta ársins 1942 og fyrri hluta 1943, en þær breytingar voru litlar. Þarna getur að vísu einhverju skakkað, en nær því rétta er varla hægt að komast. Það er auðvitað aldrei hægt að fá alveg nákvæmlega rétta niðurstöðu með þessari aðferð, að taka fjóra mánuði af öðru árinu og átta mánuði af hinu, að því er snertir hlutasjómenn, því að tekjur þeirra fara eftir því, hver aflinn er. Varðandi tekjur bóndans að öðru leyti skal ég ekki fullyrða, hvort einhverju kann að muna, en sé það nokkuð, þá er það mjög lítið. En ég vil taka fram annað atriði, sem hefur ekki komið fram í umr., sem sé það, að ég álít ósanngjarnt, að atvinnurekendur eins og bændur, sem þurfa að hafa fjölþætta þekkingu á starfi sínu og eru yfirleitt fullorðnir menn, megi ekki hafa hærri tekjur en sá hluti verkalýðsstéttarinnar, sem er ekki eldri en 16–25 ára og þarf ekki neinnar sérþekkingar við til að rækja starf sitt. Þess utan er áhætta bóndans við venjulegar kringumstæður þess eðlis, að gjarnan mætti taka hana til greina. Við sjáum það þessa dagana, hver þessi áhætta er, þegar meiri eða minni hluti af heyjum manna liggur undir vatni og fönn. Þetta kemur oft fyrir, þó að meiri brögð séu að því nú en endranær.

Þá hafði hv. þm. Hafnf. orð á því, að sér virtist sem stefnt væri til byltingar í þjóðfélaginu, ef haldið yrði áfram á þeirri leið að hlaða undir eina stétt manna, eins og gert væri, en þar átti hann við bændastéttina. Hann sagði, að það gæti ekki horft til þrifa, er svo væri komið, að hægt væri að kaupa landbúnaðarafurðir frá útlöndum fyrir lægra verð en það, sem greiða verður fyrir innlendar landbúnaðarafurðir. Það má að vísu segja, að komið sé á óheillavænlega leið þegar slíkt á sér stað. En hverju er um að kenna? Því, að vinnukostnaður er orðinn hærri hér en í nágrannalöndunum. Og ég held, að þeir, sem standa nærri iðnaðinum, eins og hv. þm. Hafnf., ættu að hugleiða, hvort ekki sé svipuðu máli að gegna um iðnaðinn. Hvernig mundi aðstaða iðnaðarins vera, ef hætt væri að vernda hann? Ég held, að nú þegar sé líka svo mikill munur á verði innlendrar og erlendrar iðnaðarframleiðslu, að ekki muni síður horfa óvænlega fyrir framleiðslu okkar á því sviði, þegar verðbólgan rénar. Ég ætla ekki að fjölyrða um þetta, en vildi þó ekki láta þessu atriði ósvarað, vegna þess að mjög er hættulegt, þegar verið er að reyna að koma á sættum í svo harðsóttu deilumáli sem þessu, að þá sé haldið fram staðhæfingum, sem byggðar eru á vanþekkingu einni saman, ekki sízt þegar það er gert af gáfumönnum, sem njóta mikils trausts. Hér er einmitt þörf á meiri gagnkvæmum skilningi en til hefur verið að dreifa að undanförnu.

Læt ég svo þetta nægja, en býst við að fá tækifæri til að ræða þetta efni nánar síðar meir.