07.10.1943
Neðri deild: 28. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í C-deild Alþingistíðinda. (2399)

64. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Páll Zóphoníasson: Það er gersamlega ómögulegt að svara öllum þeim staðleysum, sem fram hafa komið í þessum umr., eða reka þær aftur, en nokkrar þeirra eru þó þess eðlis, að ég hef betri aðstöðu til að svara þeim en aðrir. Þar á meðal er sú staðhæfing hv. þm. Hafnf., að aldrei séu svo ákveðnar verðbreytingar á mjólkinni, að ekki sé fyrst haldinn fundur með fáeinum fulltrúum, áður en málið er tekið fyrir á reglulegum nefndarfundi. Þetta er alveg ósatt. Verðbreytingar hafa ævinlega farið fram samkvæmt atkv. nefndarmanna. Ég hef farið gegnum fundabók n., og kemur í ljós, að mjólkurverð hefur verið ákveðið 16 sinnum alls. Í nóv. 1934, þegar n. varð til, var mjólkurverðið samþ. með samhlj. atkv. Guðmundur Eiríksson vildi reyndar hafa sama verð á mjólk í flöskum og í lausu máli. Menn geta kallað það ágreining, ef þeir vilja, en ég kalla það ekki ágreining. Í okt. sama ár var mjólkin sett niður í 38 aura lítrinn með samhlj. atkv. allra. Svo stendur mjólkurverð óbreytt til 11. febr. 1938. Þá er hún hækkuð með samhlj. atkv. allra. Enginn ágreiningur. Næst, 12. jan. 1940, lagði ég til, að mjólkin yrði hækkuð upp í 45 aura. Meðnm. mínir, sem telja sig vera umboðsmenn neytenda, töldu, að verðið þyrfti ekki að vera meira en 44 aurar, og ráðh. fór þá fram á, að við frestuðum hækkuninni, þar til frekari athugun hefði farið fram á því, hver hækkun hefði orðið á dreifingarkostnaði. Við þeirri ósk var orðið, og fékk ráðh. þá Björn Árnason og Ara Thorlacius til að hafa á hendi þá athugun. Þeir skiluðu áliti 27. febr. og fundu dreifingarkostnað sama og ég hafði álitið hann. Ég veit ekki, hvort menn vilja kalla þetta ágreining, því að lægra verðið var látið gilda, þangað til nál. kom fram, og var það þá hækkað með samhlj. atkv. upp í 45 aura, en þá var búið að hafa af framleiðendum þennan eina eyri, meðan á rannsókninni stóð. Næsta hækkun fer fram í júní 1940. Þá var mjólkin hækkuð upp í 51 eyri, og fulltrúar neytenda voru þá báðir á móti. 30. sept. er hún aftur eftir till. frá Guðmundi Oddssyni, fulltrúa neytenda, hækkuð upp í 56 aura og þá með samhlj. atkv. 29. jan. 1941 er verðinu enn breytt í 61 eyri með 4 shlj. atkv., en einn greiddi ekki atkv. Við skulum segja, að þá hafi verið ágreiningur, en hann var þó ekki meiri en þetta. 1. apríl 1941 er verðinu breytt í 65 aura með samhlj. atkv. allra, og 6. júní í 72 aura, líka með samhlj. atkv., en einn sat hjá. 9. ágúst var mjólkin hækkuð í 80 aura með 3:2 atkv., 9. des. hækkar hún í 92 aura með samhlj. atkv. og 21. júní 1942 hækkar hún enn í kr. 1,15 með samhlj. atkv. allra í mjólkurverðlagsn. og allra í gerðardómi í verðlagsmálum, sem málið heyrði undir. 11. sept. 1942 hækkar mjólkin í kr. 1,50 með 4 shlj. atkv., en einn sat hjá, og 8. nóv. hækkar hún enn í kr. 1,75 með 3:2 atkv., en þeir tveir, sem á móti voru, lögðu til, að hækkuninni yrði frestað um sinn eða þar til Alþ. kæmi saman og gengi frá dýrtíðarráðstöfunum. Þessir nm. höfðu aðeins þessa sérstöðu, en töldu annars sjálfsagt að hækka verðið. Þetta er nú saga málsins. Og ef talið er saman, kemur í ljós, að á 8 fundum var enginn ágreiningur, en á 8 var nokkur ágreiningur, ef rétt er þá að viðhafa það orð, því að hann snerti oftast aukaatriði, sem komu ekki verðinu sjálfu við. Í annað hvort skipti hefur að minnsta kosti alls enginn ágreiningur orðið, en hv. þm. sagði, að aldrei hefði verið ákveðið verð á mjólk í n. ágreiningslaust. Gerðabókin er hér til sýnis, ef hv. þm. vill sjá hana.

Þá sagði hv. þm., að sá tilgangur l. að tryggja hagsmuni framleiðenda og neytenda hefði ekki náðst. Samt viðurkennir hann í öðru orðinu, að útsöluverð hafi, skömmu eftir að samsalan tók til starfa, lækkað í 38 aura úr 42 aurum, sem var verðið fyrir tilkomu samsölunnar. Þrátt fyrir þessa lækkun varð verðið til bænda 0,7 aurum hærra en verið hafði. Það er augljóst, að þarna hafa báðir aðilarnir, neytendur og framleiðendur, hagnazt, og verður ekki um það deilt, að það er ekki öðru en skipulaginu að þakka. Þetta mun hann eiga við, þegar hann segir, að skipulagið hafi í fyrstu verið hagræði fyrir báða aðilana. En hvað hefur síðan gerzt? Það, að mjólkurmagnið, sem var 3–4 millj. kg 1934, þegar samsalan var stofnuð (hv. 8. þm. Reykv. segir reyndar, að það hafi verið 1935, en þetta eru ósannindi, hvort sem hv. þm. segir þau vísvitandi eða ekki), — var komið upp í 15–16 millj. kg. áður en stríðsástandið hófst. Verðið til bænda hafði heldur hækkað vegna skipulagsins. Nú er ríkjandi sérstakt ástand og ekki hægt að hafa það til samanburðar. Þó hefur heppnazt að láta dreifingarkostnaðinn vera heldur minni en áður en samsalan hófst. Það er óhætt að segja, að tilgangurinn með skipulaginu hefur náðst: Lægra verð til neytenda og betri mjólk og hærra verð til bænda. Hins vegar er það, að þegar verið er að vinna að mjólkinni, verða menn að hafa það í huga, sem margur veit ekki, að, mjólkurstöðin er reist fyrir 1930, á tímum, þegar mjólkursalan nam á 2. millj. kg. Hún var reist til að taka á móti 3 millj. lítra, en nú, þegar magnið er komið yfir 10 millj. lítra, er stöðin auðvitað allt of lítil. Það hefur virzt erfitt að koma upp nýrri mjólkurstöð og margt, sem hefur tafið það mál. Nú í fimm ár hefur staðið deila um það að fá stað undir nýja stöð, þar til samkomulag náðist loks um þann stað, sem nú er verið að reisa stöðina á. Það væri eina réttmæta ásökunin um það, að ný mjólkurstöð er ekki komin fyrir löngu. En hvern á að ásaka? Hver og einn mundi bera af sér. Það þarf ekki nema almennan skilning til að sjá, að mikið vantar á, að þessi litla stöð geti annað því að vinna alla þá mjólk, sem að berst, eins og nú er komið. Það skilja Hafnfirðingar betur en aðrir.

Þá var hv. 3. þm. Reykv. með ýmsar getsakir miður góðgirnilegar. Ég ætla ekki að svara þeim neitt að ráði, en ég held, að þótt ég sé ekki guðfræðingur, geti ég gert mér í hugarlund, hvað það er, sem liggur á bak við þetta frv.

Bændur eiga að vera skyldaðir til að afhenda mjólk sína óunna til neytenda. Þetta er réttlætt með því, að sex manna n. hafi ákveðið, hvað bændur skuli fá fyrir hana, en þó ekki nema þær mjólkurafurðir, sem seldar eru innan lands.

En það, sem ég hygg þá, að sé á bak við þetta frv., er það, að þeir, sem hér þykjast vera að hugsa um hagsmuni neytenda, vilji eignast og hafa í sinni hendi öll þau tæki, sem þarf til að gera mjólkina seljanlega vöru. Þá hafa þeir einnig í sinni hendi, samkvæmt þeirra hugsunarhætti, að segja nei, þegar þeim þykir mjólkin of mikil. Það er hugsað, að neytendur nái umráðum yfir öllum þeim tækjum, sem gera mjólkina seljanlega vöru. „Þá getum við“, hugsa þeir, „skammtað verðið“. Svona vilja þeir hafa það. Þeir hafa vanizt því áður. Þeir hafa haft það svona í kaupgjaldsmálum. Þeir hafa sett, kannske ekki hnefann, heldur bara lófann, á kollinn á Ólafi Thors og sagt: „Við hættum að skipa upp, nema við fáum þetta eða þetta fyrir vinnuna“. Þegar svo þeir væru búnir að ná á sitt vald mjólkurvinnslutækjunum, þá mundu þeir segja: „Vinnslan kostar þetta og þetta, neytendur geta ekki keypt mjólkina dýrara verði en þetta eða þetta, þess vegna verða bændur að selja hana fyrir mismuninn, þ. e. a. s. það verð, sem við ákveðum. Annars kaupum við ekki mjólkina“. Ég ímynda mér, að þetta séu sízt verri getsakir en ástæða er til að gera sér. Náttúrlega segja þeir þetta ekki nú, en reynslan sýnir, að þessa aðferð mundu þeir nota, ef þeir hefðu aðstöðu til þess, til að fá ákveðið verð.

Annars væri gaman að vita, hvernig þeir, sem að þessu frv. standa, hugsa sér, að neytendur reki hin ýmsu mjólkurbú. Ég hef sérstaklega í huga eina elztu mjólkurstöð landsins, mjólkurbúið á Baugsstöðum. Hvaða neytendur hugsa þeir sér, að eigi það? Það er mjólkurbú á Sauðárkróki, sem býr til vörur, sem seldar eru um allt land. Hvaða neytendur eiga að yfirtaka það? Það er mysuostur gerður í mjólkurbúinu í Hveragerði. Hvaða neytendur eiga að reka það? Mjólk er soðin niður í dósir í Borgarnesi. A. m. k. 90% neytenda hennar eru um borð í skipunum, sem ganga milli landa og út á fiskimiðin. Hvaða neytendur eiga að reka það? Hvaða neytendasamband á að taka það? Mig langar til að fá skorið úr þessu, alveg ákveðið: Það eru smjörsamlög í Dalasýslu, — ég held þau séu 3. Hverjir eiga að taka við þeim? Þetta langar mig til að fá að vita hjá flm. þessa frv.

Þeir segja kannske sem svo: Þetta á bara við stöðina hér í Reykjavík. Gott og vel. Látum svo vera. En hver á þá að taka við því, sem er fram yfir það, sem neytendur þurfa? Það, sem af er þessum mánuði, hafa verið seldir hér 22–27 þúsund lítrar á dag. Hvað ætli þeir fái mikið á dag, þegar neytendur taka við? Hvernig hugsa þeir sér það? Þeir sögðu um daginn, að ekki kæmi til mála að taka meira en það, sem þyrfti fyrir innlenda markaðinn. En nú er mjólkurneyzlan mjög mismunandi dag frá degi. Við hvað á að miða, hvað nóg er? Þegar neytendur hugsa um það sjálfir, þá hljóta þeir að sjá, hver vandkvæði eru á því, ef ekki á að taka við meira en þarf á hverjum tíma. Framleiðslan er mismunandi — allt frá 20–60 þús. lítrum á dag. Ef þeir ætla ekki að taka meira en þeir þurfa, þá þarf að senda mjólkina á aðra staði til að koma henni í verð. Nú er mjólkin tekin eins og hún kemur, það selt, sem hægt er, og unnið úr því, sem af gengur.

Það er talað um mjólkurskort þessa dagana. Það er satt. Það er ævinlega mjólkurskortur um þetta leyti árs. En þessi mjólkurskortur er minni nú en hann hefur nokkurn tíma verið. Ef við förum 10–12 ár aftur í tímann, þá munum við það, að þá var hvergi mjólk að fá, þegar komið var fram yfir hádegi. Bændurnir á mjólkursvæði Reykjavíkur hafa fært til burðinn á kúnum á þessum tíma. Í stað þess, að fyrir 10 árum voru 46%af kúnum haustbærar, eru nú ekki nema 30% haustbærar, burðurinn orðinn jafnari og nokkrar sumarbærar. Afleiðingin er sú, að nú er mjólkurmagnið meira en það hefur nokkurn tíma verið um þetta leyti árs. Þó er talað meira um mjólkurvandræði núna en nokkru sinni fyrr.

Ég vænti þess, þó að þetta frv. fari til n., - það er gott að vera góður og kurteis og lofa því það, — þá detti engum í hug í alvöru að samþykkja það. Það mundi hafa það í för með sér, að þeir, sem ættu hús mjólkurstöðvarinnar og tækin, hefðu algerlega í hendi sér að skammta bændum, ekki einungis verðið fyrir mjólkina, heldur og hvað mikil þeir mættu selja. Það yrði óskemmtileg úlfakreppa. Þar að auki mundi það verða til þess að skapa minni hugsun á því, að varan yrði góð á því stigi, sem hún berst í stöðina, en um það þarf fyrst og fremst að hugsa á heimilunum sjálfum. Það er fyrst og fremst til hagsmuna fyrir bændur sjálfa, að varan sé ekki bara góð, heldur, að hún sé sem mest.

Þetta frv. á þess vegna ekki að verða samþykkt. Þó get ég verið svo góðhjartaður við það að senda það til n., en lengra líf á því ekki að auðnast.