08.09.1943
Sameinað þing: 11. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (24)

27. mál, fjárlög 1944

Fjmrh. (Björn Ólafsson) :

Eins og ég tók fram í framsöguræðu minni, gerði ég ráð fyrir, að mér mundi legið á hálsi fyrir það, sem þeir kalla, að ekki sé séð fyrir fjárveitingu til verklegra framkvæmda eins og stundum áður. Hv. fulltrúi Sósfl., Lúðvík Jósefsson, hélt fram, að fjárlfrv. sýndi enga nýja stefnu í framkvæmdum og framleiðslu eftir stríð og sýndi skilningsleysi á gildi framfaramála. Ég vil benda hv. þm. á það, að það hljóta jafnan að vera mjög ákveðin takmörk fyrir því, hve fjárlagafrv. getur markað nýja stefnu í framkvæmdum og framleiðslu fram í tímann. Á þetta ekki sízt við um þetta frv., þar sem Alþ. hefur þegar gert ráðstafanir til þess að marka stefnu í atvinnumálum eftir stríðið með því að skipa nefnd til að gera till. í þessu efni. Og flokkur hv. þm., Sósfl., á fulltrúa í þessari n., svo að honum ætti að vera innan handar að gera þar till. um það. sem hann telur á skorta í sambandi við fjárlagafrv.

Hv. þm. Ísaf. var talsvert þungorður um það, að afnumin hafa verið framlög til hafnargerða og brúa og að „krukkað hefur verið í atvinnubótaféð,“ eins og hann orðaði það. Það hlýtur hverjum manni að vera ljóst, að ekki er hægt fyrir stj. að taka í fjárl. framlög til hafnargerða og brúargerða, nema fyrir liggi málaleitan í þá átt frá réttum aðilum. Um þetta hafði stj. ekki borizt neitt. Alþingi mun venjulega hafa frumkvæðið um þetta atriði, a. m. k. að miklu leyti.

Um atvinnubótaféð er það að segja, að það virðist næstum kynlegt að veita stórfé í fjárl. til atvinnubóta á sama tíma sem eftirspurnin eftir vinnuafli í landinu er meiri en nokkru sinni hefur áður þekkzt og meiri en hægt er að fullnægja. Ég ætla ekki að fara hér út í notkun þess fjár, sem kallað er atvinnubótafé í fjárl.

En ég geri ráð fyrir, að ég geri það að umtalsefni við fjvn. Því að mínum dómi má mjög mikið um það deila, hve réttlátt er að halda uppi slíkri fjárveitingu sem þar er gert.

Sami hv. þm. ásakaði mig harðlega fyrir að láta ekki færa í fjárl. orlofsfé skrifstofufólks og starfsmanna ríkisins. Orlofsfé er fært á vegamálin og á kostnaðaráætlun landssímans fyrir verkamenn, sem þar vinna. En mér vitanlega fá fastlaunaðir starfsmenn ekkert orlofsfé, því að þeir fá orlof sitt með fullu kaupi. Ég vænti þess, að hv. þm. átti sig á þessu við nánari athugun, að ásökun hans er mjög hæpin, svo að ekki sé fastar að orði kveðið. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fara nánar út í þá gagnrýni, sem þessi hv. þm. bar fram.

Hv. 2. þm. S.-M, bar einnig fram gagnrýni vegna verklegra framkvæmda. Ég vil benda þeim hv. þm. á, að það er fleira verklegar framkvæmdir en vegagerð. Það verður varla um það deilt, að þær 2 millj., sem veittar eru til áburðarverksmiðju, eru verklegar framkvæmdir.

Ég held það hafi verið sami hv. þm. sem gerði að umtalsefni vélar við vegavinnu. Ég get skýrt frá því, að vegamálastjórnin hefur tekið þetta mál til athugunar og þegar fengið nokkrar stórvirkar vélar, sem komnar eru í starf. Og það er fullur áhugi fyrir því hjá vegamálastjórninni að ná þeim vegavinnuvélum, sem nú eru til í landinu og hafa nýlega verið fluttar inn, þegar tækifæri verður til þess. Því að það er öllum ljóst, að þær vélar geta breytt mikið þeim vinnuaðferðum, sem nú eru.

Út af fyrirspurn hans um, hverju mundi nema framlag til að halda óbreyttu verði á kjöti og mjólk, þegar tillit er tekið til grundvallar, sem settur hefur verið af vísitölunefnd, skal ég taka fram, að ég er ekki tilbúinn að leggja ákveðnar tölur fram um þetta, en hygg það fé muni nema nálægt 10 millj. kr. Ég álít, að ef greiddur er mismunur á því verði, sem gert er ráð fyrir að áliti n., og því verði, sem nú er selt við á innlendum markaði, þá mundi það halda vísitölunni nokkuð óbreyttri. Ef verð innanlands á landbúnaðarafurðum ætti að hækka eins og n. ákveður, þá mundi það nema 17 stigum í vísitölu. Ef hins vegar tap bænda á útfluttu kjöti ætti að bætast við verð á innlendum markaði, mundi kjötkílóið að öllum líkindum verða að hækka upp í 11–12 kr. Og ef slíkt verð yrði á kjötinu innanlands, er líklegt, að vísitalan hækkaði um 30 stig, þ. e. að hún færi upp í 280 stig. Slíka hækkun á framleiðslukostnaði innanlands, sem af því leiddi, gæti útflutningsframleiðslan í landinu að mínu áliti alls ekki borið. Það er dýrt að greiða niður dýrtíðina, en það verður dýrara að gefa henni lausan tauminn.