11.10.1943
Neðri deild: 30. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í C-deild Alþingistíðinda. (2402)

64. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Það hefur nú verið sannað hér, svo ekki verður á móti mælt, að frv. það, sem hér um ræðir, er einhver hin ófyrirleitnasta árás, sem borin hefur verið fram á Alþ., gegn bændastétt landsins og samtökum bænda. Ég hygg, að hvergi verði fundið hliðstætt dæmi nema þar, sem einræðisfyrirkomulagið hefur verið að brjóta undir sig landbúnaðinn. Það er þrennt, sem lagt er til grundvallar þessu frv. fyrst. Það á að banna bændum að selja vöru sína þar, sem aðalmarkaðurinn er fyrir hana. Annað: Það er ákveðið að koma upp mjólkurverðsdómstól, þar sem bændur eru í minni hluta, svo að þeir hafa ekki aðstöðu til að ráða nokkru um verð vöru sinnar. Þetta á að vera framtíðarfyrirkomulag, og svipaðar hömlur eru settar á aðra þátttöku bænda í þessum málum á öllum sviðum. Og í þriðja lagi er heimild til að taka eignarnámi eigur þeirra með því að greiða fyrir þær verð, sem undir mörgum kringumstæðum yrði langt undir kostnaðarverði fyrirtækjanna, — því það verður ekki séð, að það eigi að taka neitt tillit til þess, hvort um niðurskrifaðar eignir er að ræða, eða neitt tillit til verðlags í landinu í sambandi við þessar eignir, eins og venja er þó til, þegar verið er að taka eignarnámi. Það er því ekki að furða, þó að flm. reyni að grímuklæða þetta mál, enda er það gert. Aðalgríman er þetta: að ekki sé um neina árás á bændur að ræða, heldur það, sem þeir kalla „Framsóknarklíkuna“ í landinu og þá fyrst og fremst í nágrenni Reykjavíkur. Vitanlega er þetta gert til þess, að þeir menn í þinginu, sem ekki hafa neina ofurást á Framsfl., fylgi frv., ef þeir skyldu skapa sér þá skoðun, að verið væri að vega eingöngu að Framsfl. Og það er engu líkara en þetta ætli að heppnast. Svo var að heyra á hv. 7. þm. Reykv., og er það merkilegt, að hann virtist ekki sjá neitt í þessu frv. annað en baráttu við Framsfl. Ég hélt satt að segja, að hann væri of greindur til þess að sjá ekki í gegnum þennan vef. Ef mjólkin hefði verið í höndum stjórnskipaðrar n., þar sem stjórn Framsfl. hefði nefnt menn í n., þá hefði þetta getað staðizt, en ekki, eftir að bændur hafa tekið söluna í sínar hendur. Svo hélt ég, að menn vissu, að bændur á þessu svæði senda jöfnum höndum bæði framsóknarmenn og sjálfstæðismenn á þing, og ég veit ekki betur en stofnunin sé ópólitísk, þó að hver einstakur meðlimur hennar hafi sína ákveðnu pólitísku skoðun, eins og t. d. í Alþsambandi Íslands. Það er fleira, sem þeir bera fram sem ástæðu fyrir því, að taka þurfi upp þetta fyrirkomulag að taka yfirráðin af bændunum. Með því á að tryggja bæjarbúum meiri, betri og ódýrari mjólk. Ég get ekki séð, hvernig þetta fyrirkomulag, þótt að l. yrði, gæti tryggt vörugæði fram yfir það, sem nú er gert. Allir þessir bændur reyna að vanda vöru sína og koma henni á markaðinn í sem beztu ástandi. En l. er þannig háttað, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefur allt eftirlit með þessum málum. Samkv. þeim og reglugerðum um þau hafa bæjarfélögin ekki bara rétt, heldur skyldu til að fylgjast með þessum málum, frá því að við mjólkinni er tekið af bændum og þar til hún er komin til neytenda. Og ef sóðaskapur á sér stað, eins og látið er af, þá er vanræksla heilbrigðiseftirlitsins í Reykjavík ekki lítil. Bæjarstjórnin hefur í hendi sinni að setja reglur og fylgja þeim eftir. — En ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að þessar ásakanir allar eru ýktar. Mjólkurrifrildi er sem sé orðin landlæg pest hér í Reykjavík.

Ég hef fylgzt nokkuð með þessum málum hér um tuttugu ára skeið. Ég var í stjórn Mjólkurfélags Reykjavíkur á þeim árum, sem það rak hér fyrstu og einu mjólkurhreinsunarstöðina á landinu. Þá var mjólkursala leyfð hér eftirlitslítið í fjósum um allan bæinn og umhverfis hann. Og þar var aldrei um sóðaskap að ræða. — En Mjólkurfélagið v arð fyrir fráleitum árásum í bæjarblöðunum fyrir, að það seldi vonda mjólk og skítuga, — og ef mjólkurskortur var á haustin, var það af sumum kallað morðtilraun af hendi félagsins á börnunum í Reykjavík. Svo þegar Mjólkursamsalan tók við mjólkursölunni af Mjólkurfélagi Reykjavíkur, erfði hún ásakanirnar og í aukinni útgáfu, og nú minnist enginn annars en hún hafi verið hér í himnalagi, þangað til hin vonda Mjólkursamsala tók til starfa.

Í haust var þess getið í einu bæjarblaðanna, að samsölumjólkin væri svo vond, að setuliðið vildi ekki líta við henni. Svo gefur einn af yfirmönnum setuliðsins vottorð um, að hann drekki mjólk frá samsölunni á hverjum degi, og ber henni í alla staði vel söguna, og nú keppast blöðin um að skammast yfir því, hve mikið af þessu óæti fari til setuliðsins, í stað þess að gefa það blessuðum börnunum.

Svona er nú málaflutningurinn. Það dettur hvorki mér né öðrum í hug að neita því, að ýmislegt standi til bóta í þessum málum. En ég leyfi mér að fullyrða, að verði ekki unnt að lagfæra það, sem þarf, undir því skipulagi, sem nú er á þessum málum, þá verði það ekki frekar lagfært, sem nú er stefnt að. Þrifnaðar- og heilbrigðiseftirlitið hafa bæjarvöldin í hendi sér, og sú hliðin, sem að bændunum snýr, verður ekki betur tryggð, þótt allt vald og ábyrgð í þessum málum verði af þeim tekin.

Það, sem mestum erfiðleikum hefur valdið í þessum efnum, er það, að stöð sú, sem samsalan tók við af Mjólkurfélaginu, er orðin langsamlega of lítil, — þar sem mjólkurmagnið hefur vaxið upp úr henni á skömmum tíma. Að enn þá hefur ekki reynzt unnt að koma upp nýrri mjólkurstöð, er af ýmsum eðlilegum ástæðum, sem bent hefur verið á í umr. En nú er hafizt handa um þetta mál, og ef ekki stendur á afgreiðslu véla í stöðina af stríðsástæðum, má vænta þess, að hún verði komin upp innan árs eða svo. Er þá stærstu hindruninni um fullkomna meðferð og vinnslu mjólkurinnar rutt úr vegi. Og það er nokkurn veginn víst, að stöðin kemst ekki upp einum degi fyrr en ella, þótt þetta frv. verði samþykkt.

Þá er það aukning mjólkurinnar. Það hefur í umr. verið sýnt fram á það með rökum, að aldrei hefur aukning mjólkurinnar á Reykjavíkurmarkaðinum stigið önnur eins risaskref og undir mjólkurskipulaginu. Og þó að nokkurs mjólkurskorts hafi gætt í nokkrar vikur yfir haustmánuðina, þá er það engin nýlunda í landi okkar. Eins og sýnt hefur verið og sannað, er mjólkurmagnið nú meira en það hefur nokkru sinni verið yfir haustmánuðina. Þetta sýnir, að þróunin fer í þá átt að jafna mjólkina yfir árið, þó að það sé bæði erfiðleikum bundið og mikill kostnaðarauki fyrir bændur að auka til muna mjólkurframleiðsluna yfir haustmánuðina.

En meðal annarra orða: Hvernig halda menn, að hægt sé að tryggja það, að alltaf verði nægileg mjólk og vaxandi, þótt bæjarstjórnirnar tækju að sér sölu hennar og vinnslu? Þeir, sem að þessu standa, hugsa máske eins og einn spekingurinn af götunni, — einn þeirra, sem alltaf eru að álasa bændunum fyrir amlóðahátt og þykjast kunna ráð við öllum meinum landbúnaðarins. Þessi spekingur sagði, að það væri einn votturinn um athafnaleysi bændanna að láta ekki kýrnar bera oftar á ári en þær gera. Þessir menn halda máske, að kýrnar yrðu svo upp með sér af því að mjólkin úr þeim ætti að fara í gegnum hinar fínu hendur bæjarstjórnar og borgarráðs, að þær tækju upp á því að bera með hverju tungli til að tryggja þeim næga mjólk.

Ég veit ekki og skil ekki rökin hjá þessum mönnum.

En af því að það eru bæjarstjórnar- og bæjarráðsformenn, sem að þessu frv. standa, finnst mér ekki úr vegi að biðja þá að stinga hendinni í eigin barm í sambandi við kröfur þeirra á hendur bændum. Þeir ætla að leysa öll vandamál mjólkursamsölunnar með því að taka þessi mál í sínar hendur. En hvernig gengur þeim með þau verkefni, sem þeir hafa tekið að sér fyrir bæinn? Hvernig er það með rafmagnið, sem þeir eiga að sjá um? Finnst þeim ekkert athugavert við það, þótt það sé af svo skornum skammti, að húsmæðurnar séu í vandræðum með að elda matinn og þeir, sem reka starfsemi sína með rafmagnsvélum, verði oft að standa verklausir tímum saman?

Hvernig er það með húsnæðisleysið, sem bæjarstjórnin hefur tekið að sér að bæta úr? Það hefur flogið fyrir, að sumt af íbúum bæjarins hafi orðið að búa í tjöldum síðastliðinn vetur og nú eigi að ráðstafa nokkru af fólkinu í skúrana hjá setuliðinu, — sem má þó ekki fá einn mjólkurdropa hjá samsölunni.

Eða þá vatnið? Nú hefur verið sagt, að í mörgum húsum væri ástandið þannig, að þangað fengist ekki vatnsdropi til suðu dag eftir dag og ekki væri hægt að hella úr koppunum daglangt (eða hleypa niður úr klósettunum, eins og það heitir á nútíðarmáli) vegna vatnsleysis. Og svo þykjast þessir sömu menn ætla að leysa allan vanda í mjólkurmálum með því að taka þau í sínar hendur. Halda þessir menn að það sé hægara að afla mjólkur en vatns í þessu landi rigninga og vatnsfalla? Mér er sem ég sæi yfirskriftina í dagblöðum þeirra, ef það væru bændurnir, sem tekið hefðu að sér að útvega borgarbúum, þótt ekki væri nema vatnið, — og leystu það ekki betur af hendi en þetta.

Nú bið ég menn að skilja mig ekki svo, að ég álíti það réttmætt að álasa bæjarstjórninni fyrir það, þótt hún hafi ekki, jafnóðum getað leyst úr öllum þeim vandamálum, sem að hafa steðjað á öllum þessum óvenjulegu tímum. En ég vil bara að þessir háu herrar skilji það, að fleiri hafa við erfiðleika að stríða í störfum sínum en þeir einir og að ekki dugar að heimta allt með frekju af öðrum, meðan þeir standa vanmáttugir gagnvart þeim verkefnum, er þeir hafa sjálfir tekið að sér.

Þá er það krafan um lægra mjólkurverð. Hún ein kynni að geta heppnazt, ef frv. yrði að l. og kæmist til framkvæmda. En það yrði ekki á þann hátt, að rekstur og sölukostnaður lækkaði. Hann er nú þegar svo lágur, að eins dæmi mun vera í þessum bæ. Rekstrarkostnaður samsölunnar var s. l. ár tæp 6% á sama tíma og t. d. er leyft að leggja um 50% á ölflösku í smásölu og annað eftir því. Það eru því mestar líkur til, að dreifingarkostnaðurinn hækkaði. En mjólkurverðið gæti vel lækkað samt sem áður á þennan ofureinfalda hátt að lækka bara verðið til framleiðendanna. Og það væri líka hægurinn hjá um það, þegar búið væri að taka alla verðákvörðun úr höndum bændanna — og öll tæki til að gera vörur úr mjólkinni, svo að þeir ættu ekki annars úrkostar en láta vörur sínar í hendur þessara manna með þeim skilmálum og gegn því verði, sem þeim væri skammtað, — eða hella henni niður. Með þessu móti væri máske hægt að tryggja lægra mjólkurverð, en ef til vill yrði vafasamt um mjólkuraukninguna.

Og svo bíta flutningsmenn höfuðið af skömminni í rökstuðningi sínum fyrir frv. með því að segja ofurmeinleysislega, að þetta frv. sé framhald af samkomulaginu í sex manna n. Framhald af samkomulaginu. Það má nú segja, að hræsnin og yfirdrepsskapurinn ríði hér ekki við einteyming. Mennirnir, sem stóðu að þessu samkomulagi, en hlupu frá því og sviku það álíka fljótt og blekið var að þorna á nöfnum fulltrúa þeirra í n., sem undirskrifuðu álitið og samkomulagið, — leyfa sér að tala um framhald af samkomulaginu. Ég hef engin orð frá sjálfum mér yfir þennan málflutning. En þó að ég sé ekki eins biblíufróður og hv. 8. þm. Reykv. (SigfS), þá minnir mig samt, að einhvers staðar standi þessi setning:

„Vei yður, þér hræsnarar“.

Við höfum oft heyrt það af vörum sósíalista, — einkum kringum kosningar, — að það væri nauðsynlegt, að samstarf gæti hafizt milli bænda og verkamanna á þjóðmálasviðinu, svo að þessar tvær stéttir gætu sameiginlega unnið að bættum kjörum sínum og alþýðunnar í landinu. Þeir hafa farið um þetta mörgum fögrum orðum, þó að nokkuð óljóst kæmi fram, hvernig þeir hugsuðu sér þessa samvinnu í einstökum atriðum. Nú liggur einn þáttur þessarar samvinnu fyrir í frv., svo að ekki verður um deilt.

Það er sagt, að gjöf skuli gjaldast, ef vinátta á að haldast. Ef bændur vildu svara þessu samvinnutilboði í sama tón, ættu fulltrúar þeirra að leggja fram frv. á þ. um nýtt fyrirkomulag á málum verkamanna. Þar ætti að vera kveðið svo á, að öll vinnumiðlun í landinu og ráðstöfun vinnuafls skyldi fengin í hendur félagi atvinnurekenda. Þá ætti að ákveða þar að koma upp kaupgjaldsdómi, þar sem kaupgjald verkamanna væri ákveðið — og honum þannig fyrir komið, að atvinnurekendur hefðu þar meiri hluta. Þá þyrftu að vera þar ákvæði um, að heimilt væri atvinnurekendafélaginu að láta taka eignir verkalýðsfélaganna eignarnámi gegn greiðslu áhangandi skulda o. s. frv., ef það þyrfti á þeim að halda o. s. frv.

Og í grg. frv. væri sjálfsagt að geta þess, að nú væru verkalýðsfélögin gersamlega orðin handbendi kommúnistaklíkunnar í Reykjavík, sem réði þar lögum og lofum og reyndi að stuðla að vinnusvikum og hvers konar ótrúmennsku meðal verkamanna. Svo væri hægt að hafa dálítinn hjartnæman kafla um það, að framtíð barnanna okkar byggðist á því, að hægt væri að framleiða sem mest í landinu af sem ódýrastri vöru, bæði til neyzlu innan lands og til útflutnings, og að atvinnurekendum væri bezt trúandi til að hafa skilning á þessum málum og stjórna þeim með bændum og svo framvegis.

Svo mikið er víst, að það er ekki þessum mönnum að þakka og frumhlaupi þeirra, ef samvinna bænda og verkamanna tekur ekki þessa stefnu í framtíðinni.

Ég vil þá með nokkrum orðum snúa mér að ræðu hv. þm. Hafnf. (EmJ). Ýmsu úr ræðu hans er þegar svarað hér að framan og öðru af þeim hv. þm. V.-Sk. (SvbH) og A.-Húnv. (JPálm).

Þm. Hafnf. virtist nú ekki hafa neina tröllatrú á, að frv. þetta væri allra meina bót í mjólkurmálunum, og kemur mér það ekki á óvart um jafngreindan og venjulega sanngjarnan mann. Hitt er svo annað mál, að margt í málefnaflutningi hans var í þetta skipti allt annað en greindarlegt eða sanngjarnt. Hann gerði þetta frv. ekki nema að litlu leyti að umræðuefni, og snerist ræða hans mest um niðurstöður sex manna n. og verðlagið á landbúnaðarvörum.

Það má nú segja um ósamkomulagið út, af samkomulagi sex manna n. þetta, sem skáldið sagði forðum: „Undarlegt með tíkina“. — Á undanförnum árum, þegar mest var rifizt um verðlagið á landbúnaðarvörunum og kaupgjaldið, var iðulega að því vikið bæði í ræðu og riti, hver nauðsyn væri á því að fá þetta rifrildi út úr þinginu og út úr stjórnmálunum, með því að fulltrúar verkamanna og bænda semdu sín á milli um hvort tveggja og reyndu að finna sanngjarnt hlutfall þar á milli. Og um tíma var þetta orðið að slagorði, — ekki sízt hjá ýmsum fulltrúum verkamanna. Svo tók Alþ., sem ég hélt, að hefði verið búið að fá nóg af þessum deilum, þessar kröfur svo alvarlega, að það lögfesti þessa tilraun, sem eitt aðalatriði í dýrtíðarl. Svo var n. ákveðin, — tveir menn frá hvorum — bændum og verkamönnum, og til þess að tryggja það, að niðurstöður n. yrðu ekkert handahóf, voru lögskipaðir í n. tveir beztu kunnáttumenn, sem þjóðin átti völ á í þessum málum, hagstofustjórinn og forstöðumaður búreikningaskrifstofu ríkisins. Og til að tryggja enn betur, að reynt yrði að ná viðunandi niðurstöðu, var ákveðið, að niðurstöður n. skyldu því aðeins öðlast gildi, að fullt samkomulag allra nm. yrði um þær í öllum atriðum.

Ég hygg, að þeir hafi verið margir, sem kviðu því, að slík niðurstaða mundi ekki fást um svo viðkvæmt deilumál á þessum sundrungartímum í þessu sundrungarlandi. En svo gerðist hið óvænta. N. verður sammála um niðurstöðuna og skilar sameiginlegu áliti. Úr því átti þetta að vera leyst — og niðurstöður n. að vera fullnaðardómur í málinu, sem yrði ekki vefengdur og ekki áfrýjað. — Í fyrstu var sem menn fögnuðu þessum úrslitum, svo óvart sem þau komu. En Adam var ekki lengi í Paradís. Fljótlega byrjuðu árásir á niðurstöðurnar og samkomulagið, — og nú eru umræðurnar um störf n. komnar á það stig, að engu líkara er en samkomulagið í sex manna n. sé eitthvað það háskalegasta, sem hent hefur í þessum málum.

Það er ekki óeðlilegt, að þm. Hafnf. hafi forustuna hér innan þings um að ráðast á álit sex manna n., þar sem það er flokksblað hans, Alþýðublaðið, sem hefur tekið þá forustu utan þings. Ég veit, að það eru fleiri af gömlum starfsmönnum hv. þm. og flokks hans, sem hefur orðið þetta mikil vonbrigði. En ástæðan er auðsæ. Alþfl. hefur fallið fyrir þeirri freistingu að beita sósíalista sömu bardagaaðferðum og þeir beittu Alþfl. áður.

Á meðan Alþfl. var í stjórnaraðstöðu og varð oft að taka á sig ábyrga afstöðu í viðkvæmum málum, sem auðvelt var að gera óvinsæl meðal ýmissa manna, þá notuðu kommúnistar, sem nú kalla sig sósíalista, aðstöðu sína til að afflytja málin og rægja Alþfl. fyrir að fylgja þeim. Á þennan hátt tókst þeim smátt og smátt að reyta fylgið af Alþfl. og ná sjálfir allmiklu af því fylgi og valdi, sem hinir höfðu áður.

Þannig eru flokksmenn þeirra nú í meiri hl. í Alþýðusambandi Íslands, og gátu þeir ráðið fulltrúavalinu í sex manna n. Og sumir telja, að fulltrúi starfsmanna ríkis og bæjar í n. sé einnig í stjórnmálum af sama sauðahúsi.

Nú var því skipt um hlutverk þessara flokka frá því, sem áður var. Nú voru það sósíalistar, sem þurftu að taka ábyrga afstöðu í þessu vandamáli og gerðu það í bili, með því að fulltrúi þeirra eða fulltrúar tóku þátt í nefndarstörfunum og undirskrifuðu nál. Þá gat Alþfl. ekki lengur setið á sér að láta þá finna til sinna eigin vopna og beita þú sömu aðferðum og þeir höfðu áður beitt Alþfl.

Þess vegna er ráðizt á starf og niðurstöðu sex manna n. í Alþýðublaðinu og síðan af þm. Hafnf. af öllu því hlífðarleysi, sem hugsazt getur, í þeirri von að geta með því komið höggi á Sósfl., sem þeir telja að hafi staðið að nál.

En þetta herbragð Alþfl. hefur reynzt þeim vita haldlaust, eins og vita mátti. Sósíalistar láta ekki króa sig svona inni. Þegar þeir sáu hina aðsteðjandi hættu, hlupu þeir auðvitað eins og fætur toguðu frá öllu samkomulagi og allri ábyrgð og skildu fulltrúa sinn eða sína eftir eina „bölvuninni íklædda“ og þóttust hvergi nærri koma. Og til að afsaka þessa augnabliksyfirsjón, að fara að taka afstöðu í vandasömu máli, hafa þeir svo reynt að friðþægja með því að láta Þjóðviljann keppa við Alþýðublaðið um að ráðast á og afflytja álit sexmenninganna — og þingmenn sína flytja hvert frumvarpið af öðru til að ráðast á hagsmunamál og félagssamtök þeirra manna, sem þeir eru ásakaðir fyrir að vera of hliðhollir í sex manna n. Þeir eru svo sem búnir að hvítþvo sig af þeirri grein.

En meðferðin á þessu máli er gott sýnishorn af þjóðmálaástandinu, sem klofningurinn í verkalýðsflokkunum hefur skapað. Flokkarnir gera með þessum aðförum hvorn annan óstarfhæfan. Hvorugur þorir fyrir hinum að taka ábyrga afstöðu til hinna viðkvæmustu mála, vegna þess að þeir óttast, að þeir verði affluttir fyrir það og rægðir og rændir fylgi og áhrifum.

Annars verð ég að segja það, að umr., sem farið hafa fram í blöðunum og í þinginu um álit sex manna n., eru í hæsta máta óviðkunnanlegar. Alþ. tekur sér það vald að fyrirskipa ákveðnum mönnum að leysa erfitt, en aðkallandi verkefni. Þeir verða við þessu og leysa starf sitt af höndum á tilskildum tíma eftir beztu samvizku. Þegar svo því starfi er lokið, leyfa blöð sumra stjórnmálaflokkanna og jafnvel þm. sér að ráðast á hinn dólgslegasta hátt á menn þessa og störf þeirra — og lýsa þeim eins og argasta prangara-svindli.

Nú vita það allir, sem menn þessa þekkja, að þeir eru hinir samvizkusömustu í störfum sínum. Hagstofustjóri er þekktur að því að beita hinni ýtrustu nákvæmni og vísindalegri vandvirkni í öllu sínu starfi, og alveg hið sama er vitað um forstjóra búreikningaskrifstofunnar meðal þeirra, sem hafa kynnt sér vinnubrögð hans. Með þessum mönnum veljast svo til starfsins af hálfu launamanna mjög skýr og athugull hagfræðingur svo og verkamaður, sem aldrei hefur verið borið það á brýn, að hann héldi ekki jafnan fram ýtrustu kröfum verkamanna, hvað sem annars hefur um hann verið sagt. Svo er látið í veðri vaka, að fulltrúar bændanna í n. hafi vafið þessum mönnum öllum um fingur sér og sagt þeim fyrir um niðurstöðurnar — með frekju og yfirgangi. Fyrr mega nú vera ásakanir á báða bóga. Nei, þó að um einn eða annan einstakan lið í áliti sexmenninganna kunni að vera álitamál, þá er nefndin sjálf og vinnubrögð hennar full trygging fyrir því, að niðurstöður hennar eru næst því rétta, sem komizt verður í þessu flókna og vandasama máli, hvað sem liður fleipri og fullyrðingum hv. þm. Hafnf. (EmJ) og annarra, sem eru að reyna að snúa álitsgerð hennar í villu.

Eitt af því, sem þm. Hafnf. fann n. til foráttu, var það, í stað þess að finna vísitölu landbúnaðarvara, hafi hún snúið sér að því einu að fara að skapa bændunum tekjur. Þetta er með öllu óréttmætt. N. gerði nákvæmlega það, sem fyrir hana var lagt, eins og menn geta sannfært sig um með því að lesa þá grein, sem um þetta fjallar í dýrtíðarl. Hún fann grundvöll að vísitölu landbúnaðarafurðaverðsins með því að reikna út, hve mikinn þátt hver einstakur kostnaðarliður í búrekstrinum vegur í heildarframleiðslukostnaðinum, og getur þar af leiðandi jafnan séð, hve mikið framleiðslukostnaður meðalbúsins hækkar eða lækkar, með því að athuga verðbreytingu hinna einstöku kostnaðarliða. En n. var einnig fyrirskipað að ákveða bóndanum kaupgjald þannig, að þeir bæru úr býtum fyrir þann tíma, er þeir hafa unnið að framleiðslunni, álíka kaupgjald og aðrar vinnandi stéttir í landinu hafa haft á sama tíma. Báðar þessar niðurstöður liggja fyrir í störfum nefndarinnar.

Þá gerði hv. þm. lítið úr þeim grundvelli, sem n. byggði starf sitt á, en það voru hinir 40 búreikningar búreikningaskrifstofunnar. Nú vil ég minna þm. á það, að þeir búreikningar, sem lagðir voru til grundvallar fyrir vísitölu framfærslukostnaðar í landinu og launabætur allra launamanna eru reiknaðar eftir um allt land, voru ekki nema 40 — og allir teknir í Reykjavík. Einnig má geta þess, til samanburðar, að samskonar reikningar annars staðar á Norðurlöndum voru a. m. k. fyrir styrjöldina sízt fleiri tiltölulega en hér, og eru þó byggðar á þeim hagfræðilegar niðurstöðvar um afkomu landbúnaðarins, eins og hér er gert. Nú halda búreikninga 6–7 af þúsundi bænda. Í Danmörku munu þeir vera lítið eitt fleiri, en í Noregi og Svíþjóð aðeins 3–4 af þúsundi. Og enn má bæta við, að búreikningar í þessum löndum eru næstum allir einfaldir, en hér eru þeir tvöfaldir og sundurliðaðir og því stórum auðveldara á þeim að byggja. En nú var ekki eins og n. tæki reikninga þessa og niðurstöður þeirra gagnrýnislaust. Hún lét sannprófa þá með samanburði á skattskýrslum og verzlunarskýrslum o. fl., þar til hún hafði sannfært sig um, að þeir sýndu rétta og raunverulega mynd af meðalbúum í landinu. Þá fyrst byggði hún á þeim.

Ég geng hér fram hjá ýmsum einstökum liðum í gagnrýni þm., með því að þeim hefur þegar verið svarað af öðrum. En það, sem allar hans deilur stefndu að, var sú fullyrðing hans, að kaupgjald bóndans væri óhæfilega hátt reiknað. Í því sambandi gat hann þess, að kaup bóndans samkv. búreikningunum hefði verið fyrir stríð kr. 1000, en væri nú metið 14.000 eða meir en fjórtánfaldað. Nú er þetta út af fyrir sig rangt. Þegar bóndanum var reiknað 1000 kr. í kaup, var konu hans og börnum innan 10 ára aldurs einnig reiknað kaup og þeim öllum framfærsla af búinu. Nú er kaup og framfærsla alls þessa fólks fólgið í þessum 14 þús. kr., og verður þá munurinn engan veginn óeðlilegur. En hvers vegna var kaup bóndans fyrir stríð reiknað 1000 krónur aðeins? Það var af þeirri einföldu ástæðu, að reikningar búsins sýndu, að afkoma þess leyfði ekki hærri kaupgreiðslur. Meðalbóndinn var með öðrum orðum rétt rúmlega matvinnungur.

Nei, bændur eiga sannarlega aðra viðurkenningu skilið fyrir það, hvernig þeir hafa brugðizt við þeim margvíslegu erfiðleikum, sem stríðsástandið hefur lagt í götu þeirra. Og einhver þjóð mundi telja sig sæla að hafa heldur afgang en skortur sé á ýmsum helztu matvælanauðsynjum, þótt hún þyrfti að leggja á sig nokkurn aukakostnað því til tryggingar.

Ég minnist þess, hvern ótta margir báru í brjósti í upphafi stríðsins um það, að hér gæti orðið matvælaskortur í landinu vegna erfiðra aðdrátta á nauðsynjum og vegna þess, að hinnar innlendu matvælaframleiðslu í landbúnaðinum yrði ekki nægilega gætt. Þessi ótti jókst stórum við það, er þess varð vart, hve starfsemin við sjóinn dró ört að sér vinnuaflið frá landbúnaðinum. Verð á sjávarafurðum margfaldaðist á stuttum tíma og eftirspurnin var ótakmörkuð. Hins vegar lokuðust ýmsir beztu markaðir landbúnaðarins í útlöndum, og vörum eins og kjöti var haldið niðri í verði, t. d. í Englandi, með greiðslum úr ríkissjóði. Hér var því ójafn leikur.

Síðan bættist starfsemi setuliðsins við, þannig að allir, sem vildu, gátu fengið störf utan landbúnaðarins, sem greidd voru með ævintýralegum vinnulaunum. Afleiðingar þessa urðu vitanlega þær, að fólkið þusti frá landbúnaðarstörfunum hvaðanæva og þess gætti mjög, að bændur voru farnir að leita til þessara starfa — og jafnvel gengu frá jörð og búi.

Það voru margar bollaleggingar uppi um það, hvernig helzt yrði við því spornað, að framleiðsla landbúnaðarins færi í auðn og fólkið yrði matvælalaust í landinu innan um allar seðlafúlgurnar, sem fylltu vasa landsmanna.

Það var hreyft þeirri hugmynd, að koma á þegnskylduvinnu við landbúnaðarstörf o. fl., o. fl., sem þó fáir fengust til að líta við, því að hver vildi sitja við þann eldinn, er bezt logaði, eins og gengur. Það ráð, sem þá var upp tekið og eitt sýndist tiltækilegt, eins og komið var, var það að haga verðlaginu á landbúnaðarvörunum þannig, að bændum yrði unnt að fá einhverja hjálp við framleiðslustörfin, en þó einkum til þess, að þeir neyddust ekki til að yfirgefa bú sín í atvinnuleit í kaupstöðunum, til að geta orðið að einhverju leyti þátttakendur í hinni auknu velmegun landsmanna, heldur fyndu hvöt hjá sér til að leggja sig fram við matvælaframleiðsluna, sem þjóðin mátti hvað sízt við að vanrækja. Bændur voru yfirleitt meira og minna skuldugir, og þeim var það nauðsyn að fá hag sinn bættan í hlutfalli við aðra. Það var því bæði óhjákvæmilegt, bæði vegna innlendu matvælaframleiðslunnar og framtíðar landbúnaðarins, að búa þannig að bændum, að þeir gætu yfirleitt unað hag sínum við landbúnaðinn og framleiðslustörf hans. Og þetta hefur tekizt öllum vonum framar. Bændur hafa staðið það vel að framleiðslumálum sínum, að hér hefur yfirleitt verið gnægð þeirra hluta, sem þeim er unnt að leggja í þjóðarbúið, eða svo hefur það verið til þessa. Þrátt fyrir það að vandræði með starfsfólk í þágu landbúnaðarins hafi verið stórkostleg víða um land, verður ekki séð annað en framleiðslu landbúnaðarins hafi verið haldið fullkomlega í horfinu, og verður að telja það út af fyrir sig afrek af bændastéttinni, sem gat því aðeins náðst, að bændur legðu óvenjuhart að sér — auk þess, sem hagkvæmt tíðarfar mikinn hluta þessa tímabils gerði sitt til.

Nú skyldi maður ætla, að þetta yrði að einhverju metið af þeim, sem framleiðslu þeirra njóta í landinu. En hér hefur viljað bera á því sem víðar, að menn kunna ekki til fulls að meta það, sem þeir hafa gnægð af og þekkja ekki, hvað er að vanta.

Ef menn hér á landi hefðu fengið, þótt ekki væri nema viku- eða mánaðartíma að kynnast af eigin raun því ástandi, sem matvælaskorturinn skapar nú í fjölda landa um allan heim, í stað þess að vaða í allsnægtum, þá hefðu þeir máske kunnað að meta betur en nú er gildi þeirra starfa, sem bændurnir annast, og þau afrek, sem þeir hafa leyst af höndum í matvælaframleiðslu fyrir þjóð sína, afrek, sem ég tel hiklaust, að gangi næst starfi þeirra manna, sem segja má að nokkru leyti, að hafi tekið þátt í styrjöldinni til að halda uppi siglingum að og frá landinu, — sjómannanna.

Í stað þess er starf þeirra þakkað með því, að þeir eru hundeltir og svívirtir í blöðum landsins dag eftir dag og viku eftir viku, — menn þeir, er bændur hafa falið forustu í félagsmálum sínum og á Alþingi, og bændastéttin sjálf, næstum eins og þetta væru landráðamenn. Þetta er gert jöfnum höndum af þeim, sem skrifa hina „ábyrgu“ stjórnmálaleiðara þessara blaða, og þeim, er stjórna kjaftakerlingadálkum blaðanna, þar sem „Konen ved Vandposten“ safnar saman öllum slúðursögum bæjarins, bæði sönnum og lognum, og leggur út af þeim. Þær þykir rógsmönnum bændanna gómsætt sælgæti til að smjatta á, um framleiðslu þeirra og framleiðsluvörur, starfshætti og jafnvel lifnaðarhætti. Margt af þessu kjaftæði er svo rotið og niðrandi, að það nálgast atvinnuróg, þótt enginn hafi enn þá tekið þessar kjaftakindur svo alvarlega að draga þær fyrir lög og dóm.

Nú veit ég ekki, hvort á að skilja þennan samanburð hjá þm. þannig, að hann telji, að kaup þetta hefði átt að haldast svipað eða lítið breytt hjá bóndanum á sama tíma og allar aðrar stéttir og einstaklingar margfölduðu sínar tekjur. En eitt er víst, að ef slíkri stefnu hefði verið fylgt í landinu, þá hefðu vandamálin í sambandi við landbúnaðarafurðirnar orðið með nokkrum öðrum hætti en þau eru nú, — m. ö. o., þessi vara væri þá ekki til á markaðnum.

Það þótti mér óskiljanleg þröngsýni af þm. Hafnf., að amast við því, að kaup bænda væri að einhverju leyti miðað við tekjur iðnaðarmanna, þó að það yrði heldur til að hækka kaupgjald bóndans.

Báðar stéttirnar vinna að framleiðslu neyzluvara, hver á sínu sviði. Ég tel, að bóndinn þurfi til að bera álíka starfsmenningu og iðnaðarmaðurinn, þó að á annan hátt sé. Bóndinn vinnur að jafnaði lengri vinnutíma en iðnaðarmaðurinn og þarf að stjórna hinum margháttuðu störfum búsins, auk þess sem hann ber fjárhagslega ábyrgð á útkomunni og verður að taka á sig hallann af uppskerubresti vegna ótíðar o. s. frv. Samt telur þm. ekkert að athuga við það, að kaup iðnaðarmannsins margfaldist með því að margfalda verðið á iðnaðarvörum, sem líka í ýmsum greinum hefur hækkað ekki síður en verð á landbúnaðarvörum, en sér ótal hættur og ósanngirni í því fólgnar, ef bóndanum er leyft þetta sama. — Mér finnst þetta einkennileg „jafnaðarmennska“.

Að síðustu flutti þm. hjartnæma prédikun um þann voða, sem stafaði af dýrtíðinni, sem verðið á landbúnaðarafurðunum væri einn liður í, fyrir útflutningsframleiðslu landsmanna og alla afkomu. Mikið var. En þingmaðurinn ætti að beina þeim umvöndunarorðum til annarra en bændanna. Hann ætti að snúa máli sínu til þeirra manna, sem bæði með löglegum og ólöglegum ráðum unnu að því að rífa niður allar þær hömlur, sem reynt var að setja gegn hinu ægilega dýrtíðarflóði, — með þeim afleiðingum, sem nú eru öllum kunnar. Það er tilgangslaust að fella krókódílatár í þinginu nú út af því, sem komið er. Þm. ætti að gráta afdrif þeirra mála í einrúmi heima hjá sér eða flokki sálufélaga sinna, sem á úrslitastund tóku þá ákvörðun að sleppa öllum hömlum gegn dýrtíðarflóðinu, því að þessir menn höfðu ekki leyfi til að vera svo heimskir að sjá það ekki, að hóflaus hækkun kaupgjalds og launa hlaut að hafa í för með sér hækkun vöruverðsins í landinu, bæði á framleiðsluvörum landbúaaðarins og iðnaðarins, og auka þannig dýrtíðina.

Ég mun greiða atkvæði gegn málinu og læt mig engu skipta, til hvaða n. það fer, ef það þykir þess virði, að n. fjalli um málið.