21.10.1943
Neðri deild: 35. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í C-deild Alþingistíðinda. (2407)

64. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Það hefur býsna margt borið á góma, síðan ég talaði í þessu máli hér á dögunum, og hafði ég ekki ætlað mér að taka til máls, fyrr en ég hefði heyrt svar við öllu, sem ég bar þá fram.

Sannleikurinn er sá, að mjög mörgu af því, sem hv. 8. þm. Reykv. og hv. þm. Hafnf. hafa haldið fram, hefur verið svarað fullkomlega af öðrum, og verður þess nú vart, að sókn sú, sem átti að vera frá þeirra hendi, hefur snúizt upp í vörn. Þó eru það nokkur atriði í ræðu hv. þm. Hafnf., sem ég vildi minnast nokkuð á.

Það hefur oft verið mikið minnzt á kaupgjaldið og um það deilt. Alþingi fól sérstakri n. að taka málið upp og gera bindandi ákvarðanir fyrir þá aðila, sem fulltrúa áttu í n., en það voru neytendur og framleiðendur, og var oddamaðurinn skipaður af hagstofunni. Þetta var gert til þess, að ekki yrði gengið á hluta neins. N. tókst að komast að samkomulagi.

Nú skyldi maður halda, að allir hefðu orðið fegnir samkomulagi sex manna n. Landsmenn urðu mjög ánægðir, því að þessi gleðitíðindi komu mjög á óvart. Er það leið ekki á löngu, þar til einstaka menn fóru að ráðast á niðurstöður sex manna n. Það byrjaði með því, að blað sósíalista fór að halda því fram, að þó að samkomulag hefði náðst við bændur, þá hefði ekkert verið gert til þess að þeir fengju það. Það þýddi engan veginn það, að það þyrfti að standa til enda.

Ekki leið á löngu, unz Alþýðublaðið tók í sama streng, og brátt kom svo, að maður gekk undir manns hönd til þess að reyna að koma með alls konar dylgjur og rangfærslur um starf sex manna n. Þetta telst varla siðlegt, þegar þess er gætt, að Alþ. fól þessum fulltrúum þetta starf. En er þeir höfðu innt það af höndum, er ráðizt á þá fyrir svik í því starfi sem þeim er trúað fyrir!

Til þess að geta haldið ófriðnum áfram er ekki skirrzt við að búa þannig að þeim sem tilnefndir voru til að taka sæti í sex manna n. Það náttúrlega sýnir bezt, hvernig komið er, hversu Alþ. lítur á hlutverk sitt og skyldur, að búa þannig að þeim, sem það hefur falið trúnaðarstörf. Flest af því, sem sagt hefur verið um n., hefur verið sagt hér á Alþ., þar sem þeir hafa ekki getað borið hönd fyrir höfuð sér. Það var komið í fullkomið óefni. Alþ. gat ekki ráðið fram úr dýrtíðinni. En þegar leiðin er fundin með starfi n. og niðurstöðum, þá er ráðizt á hana og það af þeim, sem voru algerlega samþykkir því, að þessi leið skyldi farin í málinu. Hv. þm. Mýr. rakti rækilega, hvers vegna sumir hafa gripið til þess óyndisúrræðis að ráðast á störf sex manna n. Menn voru ekki færir um að stilla sig um að ráðast á n. fyrir starf hennar, af því að stjórnin var þeim andstæð. Annar mjög stór þáttur í þessu máli er sá, að fjölmargir hér hafa leyft sér að halda því fram, að verð á landbúnaðarvörum væri of hátt. Þeir hafa sótt það með slíku offorsi, slíku kappi, mér liggur við að segja heiftrækni, að það er með fullkomnum fádæmum. að ég ekki segi endemum. Og þegar þessir menn sjá, að nefnd, sem er þannig skipuð, kemst að þeirri niðurstöðu, að verðlag landbúnaðarvara sé ekki of hátt, heldur of lágt, þá fyllast þeir gremju og ráða sér ekki fyrir ofsa og bræði í garð þeirra, sem komust að þessari niðurstöðu í sex manna n. Það er fullkomin ástæða til að harma það, að menn skuli ekki hafa tamið sér þá framkomu að beygja sig fyrir niðurstöðum. Lágmarkskrafan er sú að beygja sig fyrir því að hafa rökstuddar ásakanir sínar.

Það er líka annað, sem hefur snert illa þá þm., sem deilt hafa harðlega undanfarin ár um verð landbúnaðarvara. Þeir hafa haldið því fram, að kaupgjaldið væri ekki neitt sérstaklega stórt atriði, það væri sama, hvert kaupgjaldið væri, þótt hvert mannsbarn viti, að það er enginn einstakur útgjaldaliður, sem hefur eins mikil áhrif og kaupgjaldið á verð landbúnaðarvara.

Nú liggur fyrir sú niðurstaða sex manna n., að það sé kaupgjaldið, sem orki langsamlaga mestu um það, hvert verðlag skuli vera á landbúnaðarvörum!

Ég hygg, að upp undir 80 af hundraði af verði því, sem bóndinn þarf að fá fyrir afurðir sínar, sé kaupgjaldið. Þessir menn hafa með tvennu móti strikað yfir fullyrðingar sínar um, að verð afurða landbúnaðarins væri of hátt: Í fyrsta lagi með því að samþykkja lögin og í öðru lagi með samkomulaginu í sex manna n.

Það er eðlilegt, að þeim svíði þessi niðurstaða. Hitt er annað mál, að það er ekki karlmannlegt að geta ekki unnið að því að framkvæma þær reglur, sem þeir hafa sjálfir sett.

Hér hefur verið gerður að umtalsefni sérstakur þáttur dýrtíðarmálanna: verðlagsmál landbúnaðarins í sambandi við störf sex manna n. og verð á þeim vörum, sem bændur flytja út úr landinu. Hv. þm. Hafnf. tók það skýrt fram, að það væri ekki skylt, ekki rétt, að bændur fengju uppbót á þær vörur, sem þeir flytja út, ef þær næðu því verði, sem sex manna n. hefur byggt niðurstöður sínar á. Hann sagði, að það hefði borizt, að nokkrir þm. hefðu drýgt þá óhæfu að undirrita skjal, þar sem því var yfir lýst, að þeir sömu þm. ætluðu að samþykkja, að bændur fengju það verð, sem þeir þyrftu að fá fyrir vörur sínar. Hann taldi það vítavert athæfi. Ég vil benda hv. þm. Hafnf. á, að það er ekki neitt nýtt, að þm. bindist samtökum um að koma máli fram. Þetta er ekki annað en það, að nokkrir þm. hafa bundizt samtökum um að flytja frv., þegar tímabært þykir. Væntanlega dettur þm. ekki í hug, að sá skilningur geti komið til mála, að verðlagsákvæðin séu bindandi fyrir bændur, þannig að þeir megi ekki selja vörur sínar hærra verði en tilgreint er. Það liggur skýlaust fyrir, að sex manna n. byggði niðurstöður sínar á því, að tiltekið verð fengist fyrir landbúnaðarvörur.

Hagstofustjóri var spurður um skilning sinn á þessu máli, hvort rétt væri að borga uppbætur á útfluttar vörur. Svaraði hann því, að innanlandsverðið byggðist beinlínis á því verði, sem fengist fyrir útfluttar vörur, það verð, sem n. byggði á.

Það hefur komið vitnisburður frá fulltrúa Alþýðusambandsins, sem sæti átti í n. Hann taldi ekki skylt að borga uppbætur á útfluttar vörur. Hann segir, að sér reiknist svo til að út sé flutt fyrir það verð, sem bændur þurfi að fá, það sé framleiðsluverð, og þar með slegið því föstu, að það sé það verð, sem þeir þurfi að fá. Síðan þarf hann að þjóna sínum flokksbræðrum og segir, að ekki hafi verið gert ráð fyrir, að bændur gætu fengið þetta verð, þótt þeir þyrftu þess. Hann m. ö. o. telur það samþykkt, að innanlandsverðið standi fast án þess að við fengjum fyrir útfluttar vörur það verð, sem hann hefur sagt að við þyrftum að fá.

Ég er ekki að tala um þetta af því, að ég álíti, að það skipti máli, jafnvel þó að hann hafi misskilið hlutverk sitt, því að Alþ. hafði slegið þessu föstu með löggjöf. En það er merkilegt, ef ríkið verður ekki dæmt til að greiða bændum bætur. Ég vil vitna til þess, sem hv. 6. þm. Reykv. (BBen) sagði í umr. um annað mál, þegar þetta bar á góma. Ummæli hans komu heim við það, sem hagstofustjóri lét hafa eftir sér. Þingið er að lögum bundið við að þessi fjárhæð skuli greidd, og hygg ég að skilningur þingmannsins sé réttur.

Hv. þm. Hafnf. talaði af miklum fjálgleik um, hvernig komið væri vegna dýrtíðarinnar og verðlags á vörum landbúnaðarins. Ég hygg, að rétt væri fyrir hann að athuga, hvaða liður það er, sem átt hefur drýgstan þátt í að skapa hámarksverð þeirra vara. Ég tel rétt að benda á, að um 80% af tekjum bóndans fara í kaupgjaldið. (EmJ: Vill ekki hv. þm. athuga, hve mikinn þátt verðlagið á landbúnaðarvörum á í vísitöluhækkuninni?) Ég sé ekki að svo mikið dragi um það. En hann hefði átt að athuga þetta miklu fyrr. Hann og flokksbræður hans hafa haldið því fram, að kaupgjaldið hefði áhrif á verðlagið í landinu. En nú held ég, að hann hitti sjálfan sig fyrir. Hann benti á, að það ætti að flytja inn erlendar landbúnaðarvörur. Það er ekki glæsilegt að keppa við aðrar þjóðir, bæði með sjávar- og landbúnaðarafurðir. Hvernig litist honum á, ef við færum að flytja inn vinnuafl þaðan, sem það fengist ódýrast? Hvernig ætli sá samanburður liti út fyrir okkur Íslendinga? (EmJ: Verðlagið mundi ekki lækka). Ég sé ekki ástæðu til, að hv. þm. sé að skjóta inn fávíslegum athugasemdum. Fyrst hann hefur svona miklar áhyggjur út af dýrtíðinni, þýðir ekki fyrir hann að skjóta sér undan því með athugasemdum að benda á leið til úrlausnar.

Grundvöllurinn undir verðlaginu í landinu er kaupgjaldið. Það hefur meiri áhrif en nokkur annar einstakur þáttur. Það er eðlilegt að taka kaup fyrir að vinna, en það verður hvergi tekið nema af verði þeirra afurða sem menn framleiða. Allt er komið í mesta óefni, ekki sízt með flutningskostnað og kaupgjald. Smjörverðið er of hátt, kartöfluverðið of hátt. Fyrsta aðvörunin er rituð á vegginn, síðan koma aðrar. Það, sem liggur beint fyrir, er fullkomin stöðvun allrar framleiðslu. Annað atriði er að færa niður afurðaverðið, fella krónuna.

Ég skal játa, að það er ekki nema mannlegt, þótt klifað sé á því, að verðlagið sé undirrót alls þessa. En dýrtíðin verður ekki felld með því einu, heldur verða þeir, sem telja sig hafa umboð fyrir launastéttirnar í landinu, að gera sitt til þess, að það takist.

Það virðist sem hv. þm. Hafnf. hafi ekki mikið álit á hv. þm. V.-Sk., og taldi hann sig þess umkominn að lýsa yfir, að allt það, sem lofað hefði verið, þegar mjólkursamsalan var stofnuð, hefði verið svikið. Þau rök, sem hann færði fyrir máli sínu, hafa þegar fengið fullkomið svar.

Hv. þm. Hafnf. sagði, að eitt gleggsta dæmið um einræðið í verðlagsmálum landbúnaðarvara væri það, að það væri ákveðið þvert ofan í vilja fulltrúa neytendanna. En þm. var varla búinn að sleppa orðinu, þegar það var upplýst af 1. þm. N.-M., að í þrjú skipti af sex hefðu fulltrúar neytenda og framleiðenda staðið saman um, að verðlagið væri of lágt sett!

Þetta dæmi sýnir glöggt, að það skortir mjög mikið á, að þessi mál hafi verið athuguð á þann hátt sem þarf, og má segja, að harla lítið af því, sem hv. þm. Hafnf. hefur sagt hér, eigi sér nokkurn stað í veruleikanum.

Þótt hv. 8. þm. Reykv. hafi kosið þá aðferð að svara ræðu minni ekki ýkja mikið, en vera í staðinn með dylgjur í garð hv. þm. V.-Sk., ætla ég að víkja að ræðu hans nokkrum orðum. Þessi hv. þm. hélt því fram, að afurðir bænda væru teknar af þeim, áður en þær væru komnar í söluhæft ástand, og sagðist ekki skilja í því, að þeir þyrftu að fylgja afurðum sínum ofan í pottinn. Sjómenn og útgerðarmenn annast sölu sinna. Ætli hv. 8. þm. Reykv. þættu það ekki harðir kostir, ef þeim, sem framleiða sjávarafurðir, væri ekki leyft að fara nema ofan í fjöruna með aflann? En þetta er það, sem hann býður bændum upp á. Hv. 8. þm. Reykv. réðst með dylgjum að hv. þm. V.-Sk. og notaði þá hið sérstaka ræðusnið farandkonunnar. Þessar dylgjur voru þannig fram settar, að það var hverjum þm. ósamboðið, en ekki vantaði, að þær væru settar fram með mjúkri tungu, eins og þessu ræðusniði hæfir. Þm. taldi, að hv. þm. V.-Sk. hefði gerzt talsvert frekur til fjárins í sambandi við rekstur Mjólkursamsölunnar. Ég held, að hann hafi talað um 300 kr. mánaðarlaun. Held ég, að þm. hafi leikið á reiðiskjálfi yfir því, að hv. þm. V.-Sk. tæki 300 kr. mánaðarlaun fyrir forstöðu mjólkursamsölunnar! En þetta sýnir, hvað þm. þarf að seilast langt til raka að nefna 300 kr. mánaðarlaun fyrir forstöðu stærstu mjólkursamsölu landsins.

Þeir, sem kunnugir eru launagreiðslum nú, vita bezt, hve mikil firra það er að koma með annað eins og þetta. Þm. veit vel, að menn setjast ekki svo í bankaráð, að þeir hafi ekki mörg hundruð króna mánaðarlaun, og ef þessi upphæð, 300 kr., er borin saman við kaupgjaldið í landinu yfirleitt, sést bezt, hve smávægileg hún er.

Þá talaði þessi þm. um það, hvernig hv. þm. V.-Sk. rækti starf sitt, og var sú lýsing allt annað en glæsileg. Hins vegar væri hann hinn ógurlegi húsbóndi, sem stæði með reidda svipuna yfir starfsfólki mjólkurstöðvarinnar, svo að það þyrði ekki sig að hreyfa! Þetta var í samræmi við málaflutning þessa hv. þm., þegar hann var af veikum mætti, en fullkominni illgirni að reyna ýmist að særa hv. þm. V.-Sk. eða að fá menn til þess að grípa á lofti dylgjur og persónulegar ásakanir um hann. Hámarki sínu náði þessi kafli ræðunnar, þegar hv. þm. sagði það berum orðum, að hv. þm. V.-Sk. væri þannig gerður, að það væri mjög líklegt, — og ég held, að hann hafi fullyrt það eða þá sagt á þá leið, að ekkert væri sennilegra en það, að hann, þm. V.-Sk., blandaði óhroða í mjólkina til þess að gera Reykvíkingum sem mesta skapraun og svívirðingu.

Þá var það einn þáttur í þessum kafla ræðunnar hjá hv. 8. þm. Reykv., þegar hann var að tala um, að hv. þm. V.-Sk. væri sennilega lítill prestur, en sennilega þó enn minni bóndi. Það hefði verið skemmtilegt mjög, ef hv. 8. þm. Reykv. hefði þá haft nokkru stærri áheyrendahóp, þegar hann sagði þetta, heldur en var, því að það mun mega búast við, að fáir, sem hér voru viðstaddir, kunni vel að meta þessa staðhæfingu hv. 8. þm. Reykv., þessa vanmáttugu tilraun til þess að særa hv. þm. V.-Sk. persónulega eða koma á framfæri um hann ákveðnum dylgjum. Það vita allir, sem kunnugir eru, að búskapur hv. þm. V.-Sk. hefur verið með þeim ágætum, að til fyrirmyndar má vera fyrir alla. Það sýnir aftur á móti stráksskap hv. 8. þm. Reykv. og vanmáttuga löngun hans til þess að ná sér persónulega niðri á hv. þm. V.-Sk., að hann skuli koma fram með þessa fullyrðingu.

Því hefur verið mjög haldið fram í þessum umr., að það sé vont samkomulag milli neytenda og framleiðenda landbúnaðarvara. Jú, við höfum heyrt það áður, að vont samkomulag væri milli þeirra. Og það er náttúrlega alveg rétt, að þegar neytandinn getur ekki fengið nóga vöru, eins og t. d. mjólk, svo að fullnægt sé eftirspurn hans, þá þykir honum það verra, og hann mundi gjarnan vilja, að nóg væri af þeirri vöru á boðstólum. En ég hygg, að það sé eitthvað meira en lítið saman við allt tal um það illa samkomulag milli framleiðenda og neytenda. Mjólkurmálin voru gerð að nokkuð miklum deilumálum fyrir nokkrum árum, og þá var fyrir þeim deilum staðið á þann hátt, sem sízt var til fyrirmyndar. Þegar þannig stendur á, er hægt að halda svo lengi fram ýmis konar ósannindum í sambandi við eitthvert mál, að þeim sé trúað að lokum, og svo var það í þessum mjólkurmálum. Og síðan hefur það verið siður, — og það hafa a m. k. hv. þm. sósíalista vitað, — að ef átt hefur að koma af stað ófriði við Framsfl., sem sérstaklega stóð að mjólkurlöggjöfinni, þá hefur verið byrjað að klifa á vondri og lélegri mjólk og yfirleitt að taka upp allan þann róg um mjólkursöluna, sem haldið var fram hér á árunum, þegar samsalan komst á. Og síðan, þegar hv. 8. þm. Reykv., — sem sennilega kaupir sjálfur mjólk, — er búinn að fylla blöðin hæfilega marga daga af þessum rógi, þá kemur hann hér fram á Alþ. og segir: Sjáið þið nú, hvað samkomulagið er orðið ógurlega illt á milli framleiðenda og neytenda mjólkurinnar. Það verður að gera eitthvað í þessu. — Þeir skrifa í blöðin þessir menn, hv. 8. þm. Reykv. og hans líkar, til þess að gera neytendur mjólkurinnar óánægða, og svo er leikinn þessi leikur.

Þá eru það gæði mjólkurinnar, sem mikið hefur verið talað um hér. Það má vel vera, að finna megi eitthvað að gæðum hennar, og það er sjálfsagt, að menn vilji ráða bót á því, ef hún er ekki nógu góð. En ef menn vilja bera saman, hvernig menn tala um gæði mjólkurinnar annars vegar og gæði annarra vara, sem á boðstólum eru, hins vegar, þá munu menn komast að raun um, að eitthvað er óhreint í pokanum hjá þeim mönnum sem um mjólkurmálið skrifa. Það ber oft á því, að það vantar á, að gæði fisks, sem seldur er hér, séu þau, sem æskilegt væri. En hvenær er háð önnur eins herferð á hendur fisksölunum hér eins og á hendur þeim, sem framleiða og selja mjólk? Þetta tvennt er algerlega ólíkt.

Það hefur verið talað hér í þessum umr. um mjólkurskort talsvert mikið. Og það er rétt, að það hefur orðið misbrestur á því, að hægt hafi verið að fullnægja eftirspurn eftir mjólk á haustmánuðunum. Það er ekki óeðlilegt, og hefur komið oft fyrir áður. En það, sem eftirtektarverðast er nú við þessar umr. um mjólkurskortinn, er ekki það, að það geti vakið óánægju, að það skorti mjólk, heldur er ráðizt á bændur fyrir mjólkurskortinn eins og einhverja óbótamenn eða allt að því, fyrir að þeir skuli ekki geta séð bæjunum fyrir nægilegri mjólk, hvenær sem eftir henni er spurt og hvenær sem er á árinu. Og frá hverjum koma þessar árásir á bændur og ásakanir út af þessum mjólkurskorti? Er það frá þeim mönnum, sem lagt hafi sig sérstaklega fram til þess að greiða fyrir því, að bændur hefðu nóga mjólk á boðstólum? Koma þær frá mönnum sem tekið hafa þannig á verðlagsmálum landbúnaðarins, að það væri eftirsóknarvert fyrir menn að framleiða mjólk? Nei. Því fer svo alls fjarri, að því sé til að dreifa. Þessar árásir á bændur og forráðamenn mjólkurskipulagsins út af því, að ekki sé nóg mjólk til boða hér í bænum, þær koma frá mönnum, sem heimtað hafa, að látið skyldi átölulaust, þó að hver maður, sem það vildi, réði sig í þjónustu setuliðsins hér og yfirgæfi framleiðsluna. Og þessir sömu menn hafa haldið fram, að verkamenn hefðu engar skyldur til að sinna þeim verkefnum, sem landsmenn þyrftu sjálfir að láta vinna, ekki einu sinni matvælaframleiðslunni. (EOl: Verkamenn buðust til þess, en Framsóknarráðh. neituðu því). Þetta eru hreinustu ósannindi, og veit ég betur um þetta en hv. 2. þm. Reykv., því að ég hef staðið í stórdeilum við þá, sem talið hafa sig fulltrúa verkamanna, út af því, hvort takmarka ætti vinnu manna hjá setuliðinu. (EOl: Hverju var svarað tilboði Dagsbrúnar?) Þeir héldu fram í því félagi, að það væri sjálfsagt, að menn hefðu óbundnar hendur til þess að ráða sig í setuliðsvinnu. Ég veit ekki betur en hv. 2. þm. Reykv. hafi krafizt þess um skeið, að setuliðsvinnan væri látin sitja fyrir öðru hér á landi um vinnuafl landsmanna. Það var, þegar hann áleit, að það væri verið að hjálpa Rússum með því gegn Þjóðverjum. Það áttu þá að heita landvarnir hjá honum, sem hann setti þá í fyrirrúm fyrir framleiðslu landsmanna sjálfra. Þá held ég, að hv. 2. þm. Reykv. hafi ekki verið svo viðkvæmur fyrir því, þó að landbúnaðarframleiðslan gæti dregizt saman, þegar hann áleit um það að ræða að hjálpa Rússum. (EOl: Hefur hv. þm. lofað að hjálpa formanni Sjálfstfl.?) Þetta er engin fyndni, vegna þess að það, sem ég á við með þessu, er að hv. 2. þm. Reykv. fjandskapaðist við Bandamenn, meðan Rússar voru með Þjóðverjum, eftir samningum að dæma. Svo var þessi hv. þm. fluttur úr landi, sem var að vísu óhæfuverk af þeim, sem það gerðu, en var samt af þessum orsökum, sem ég nefndi. Svo snerist þessi hv. þm. með Bandamönnum aftur, þegar Þjóðverjar réðust á Rússa. Og nú er hann að undirbúa sig undir það í blaði sínu að snúast gegn Bandamönnum aftur, til þess að vera viðbúinn að gera það, ef svo kynni að fara, að Rússar yrðu ekki með þeim til styrjaldarloka. Það hafa komið greinar í Þjóðviljanum, sem ganga í þá átt, að svo geti farið, að Þjóðviljinn snúist gegn Bandamönnum, ef á þarf að halda að dómi þessa hv. þm. — Aðalatriðið er það, að þessar ádeilur á framleiðendur fyrir það að hafa ekki nóga mjólk á boðstólum koma frá mönnum, sem hafa gert allt, sem þeir geta, til þess að torvelda það, að mjólkurframleiðslan gæti átt sér stað, og sífellt hafa haldið því fram, að verðlag á landbúnaðarafurðum væri of hátt. En hvernig halda þessir menn, að hefði verið orðið ástatt hér í Reykjavík. ef verðið á mjólkinni hefði verið mun lægra en verið hefur? Er mögulegt fyrir þessa menn að gera sig svo auvirðilega að halda því fram, að mjólkurverðið hafi verið of hátt, en hins vegar sé mjólkurskortur, af því að ekki sé nægilega mikið framleitt af mjólk? En það er auðvitað af því, að menn hafa ekki sótzt eftir því að takast á hendur mjólkurframleiðsluna. (EmJ: Mjólkurskorturinn er af því, að öðrum er seld mjólkin en Íslendingum). Já, því er haldið fram, að mjólkurskorturinn sé nú af því, að mjólkin sé seld öðrum en Íslendingum, og það hefur að vísu verið samið við setuliðið um að selja því nokkra mjólk, og á það hefur verið ráðizt af þeim sömu mönnum, sem heimtuðu skilyrðislausan rétt handa verkamönnum til þess að ráða sig hjá setuliðinu, hversu mikil sem þörfin væri í landinu annars fyrir vinnu þeirra. Og þetta m. a. sýnir samræmið og sanngirnina í málflutningi og atferli þessara manna, sem flutt hafa þetta mál hér, að þeir vilja að bændum sé óheimilt að selja setuliðinu nokkra mjólk, en heimta hins vegar ótakmarkaðan rétt fyrir verkamenn til þess að ráða sig í vinnu hjá setuliðinu, hvernig sem á stendur.

Nú vil ég segja það um þessa setuliðsmjólk, að vitanlegt er það og upplýst, að það er ekki hægt að halda markaðinum fyrir mjólkina hjá setuliðinu, nema með því að tryggja því að geta fengið nokkurt mjólkurmagn allt árið. Og var þá nokkurt vit í því að sleppa markaðinum hjá setuliðinu fyrir mjólkina aðeins vegna þess, að það vantaði nokkurt mjólkurmagn nokkrar vikur á einum stað á landinu? Hvað segja þeir um þetta, sem hafa haft þá afstöðu gagnvart verkamönnum að halda fram, að þeir eigi að fá að ráða sig hjá setuliðinu í vinnu, hvernig sem á stendur í landinu um þörf á vinnuafli? Er vit í að sleppa þessum markaði aðeins fyrir það, að ekki er alveg nóg mjólk í nokkrar vikur á einum stað á landinu, þegar vitað er nú líka, að sá mjólkurskortur er ekki tilfinnanlegri en það, að það stafar engum hin minnsta hætta af honum? Spurningin er þá sú, hvort það hafi verið óeðlilegt að gera ráðstafanir, sem valda því, að mjólkin er þannig nokkru minni á einum stað á landinu í nokkrar vikur, til þess að fá mjög þýðingarmikinn markað hjá setuliðinu allt árið fyrir mjólk. Mér finnst það fullkomið undrunarefni, að þeir, sem hafa tekið á verkalýðsmálunum í sambandi við setuliðsvinnuna eins og ég hef lýst, skuli finna að þessum ráðstöfunum.

Auk þessa er rétt að benda á í þessu sambandi til þess að sýna samræmið í þessu, að þeir sömu menn, sem ætla að rifna yfir því, að bændur hafi drýgt þá óhæfu að selja mjólk til setuliðsins, þeir hafa ekkert við það að athuga, að mjög mikið af rafmagni og mikið neyzluvatn, sem tekið er gegnum kerfi bæjanna, gengur til setuliðsins. Hv. þm. Hafnf. ætti vel að vita það, að nú er stórfelld stöðvun í iðnrekstrinum vegna rafmagnsskorts. (EmJ: Það er ekki samboðið hv. þm. að bera þetta saman við það að neita setuliðinu um vatn). Þetta er ekki annað en slúður. Heldur hv. þm. Hafnf., að ekki sé hægt fyrir setuliðið að fá vatn öðruvísi en gegnum vatnsleiðslur Reykjavíkur og Hafnarfjarðar? Ef hv. þm. Hafnf. heldur, að það sé hægt að neita setuliðinu um mjólk, mætti ekki alveg eins heimta af því, að það hefði sitt eigið vatnsleiðslukerfi? Það er ekki um að ræða að taka allt vatn úr ám og lækjum landsins, til þess að setuliðið geti ekki náð í það. En frá sjónarmiði þeirra manna, sem vilja neita setuliðinu um mjólk, ætti þá aðeins að vera sanngjarnt að banna setuliðinu að nota vatn úr vatnsleiðslukerfi bæjanna. En ég álít hvorugt rétt að gera.

Og svo er rafmagnið. Halda hv. þm., að það geti verið nokkur vitglóra í því frá sjónarmiði þeirra manna, sem vilja ekki, að setuliðinu sé seld mjólk, að selja þá setuliðinu svo mikið rafmagn, að meiri og minni stöðvun sé á vinnu hér í bænum, vegna þess að setuliðinu er selt rafmagn? En hv. árásarmennirnir hér á bændur landsins hafa ekkert við þetta að athuga, bara af því að það er, ekki mjólk og þeir álíta sig ekki þurfa á því að halda til að æsa upp pólitíska mótstöðu gegn vissum flokki.

Ég skal svo láta máli mínu lokið um þetta, og geri ekki ráð fyrir að taka til máls aftur um þetta mál.

Ég vil loks segja nokkur orð um afstöðu Sjálfstæðisflokksins í þessu máli. Hér hefur í þessu máli talað einn af hv. þm. þess flokks, hv. 7. þm. Reykv. (SK), og mér fannst hann tala ákaflega einkennilega um þessi mjólkurmál yfirleitt, þó að ég gæti ekki fundið, að hann væri með þessu frv., sem hér liggur fyrir. Ég vil taka það fram, til þess að það verði bókað eftir mér, að mér virðist, að það liggi augljóslega fyrir hvaða afstöðu Sjálfstfl. tekur til þessa máls. Frá öndverðu hefur Sjálfstfl. krafizt þess, að mjólkurmálin væru í höndum bændanna sjálfra, eins og þeir kalla það, mjólkurbúanna, og stjórn mjólkursamsölunnar skipuð kjörnum fulltrúum bænda. Nú hefur þessum málum verið skipað á þann hátt, sem Sjálfstfl. hefur tjáð sig vilja hafa á þessu, og kemur það því væntanlega ekki til mála, að sá flokkur ljái frv. þessu, sem hér liggur fyrir, sitt lið. Þetta tek ég fram út af því, að það hefur ekki komið beint fram við þessar umr., hvað sá flokkur vill í málinu. (SigfS: Sór formaður Sjálfstfl. þessum hv. þm. það?) Þessi hv. þm. er ekki málsvari Sjálfstfl. hér á hæstv. Alþ. og þarf ekki að vera að kalla fram í þess vegna. (BÁ: Sjálfstæðisfl. hefur engan annan málsvara nú í þingsalnum). En ég útskýrði þetta, af því að ég áleit, að flokkurinn hlyti að hafa þessa afstöðu í samræmi við það, sem komið hefur áður fram frá þeim flokki. Annars býst ég við, að hv. 8. þm. Reykv. fái orðið síðar og geti þá rætt um þessa svardaga, sem hann er að tala um hér, ef hann hefur mikinn áhuga á því.