30.09.1943
Neðri deild: 25. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (2419)

80. mál, botnvörpu- og dragnótaveiði í Faxaflóa

Flm. (Pétur Ottesen) :

Ég get að mestu látið nægja að vísa til grg. frv. og grg. þáltill., sem ég flutti í Sþ. um friðun Faxaflóa. Þessi mál eru nátengd, og þetta frv., sem hér liggur fyrir, er eingöngu borið fram í því skyni, að það gæti orðið allveigamikill þáttur í því að ýta undir, að við gætum fengið framgengt því gamla áhugamáli Íslendinga að fá aukna friðun við strendur landsins, en mikilverðasta atriði í því efni er friðun Faxaflóa. Við höfum lagt fram allmikið fé í því skyni að rannsaka Faxaflóa, auk þess sem tveir vísindamenn okkar, annar látinn, en hinn á lífi, hafa lagt fram mjög mikið starf í þessu efni af hálfu Íslendinga.

Það, sem mér virðist á skorta, er, að við sýnum í verki, hver alvara er á bak við þessar óskir okkar, en það verður ekki undirstrikað betur en með því að sýna, að við viljum offra nokkrum stundarhagsmunum til að fá þessu máli framgengt.

Ég get látið þessi orð nægja á þessu stigi, en óska þess, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og sjútvn.