15.10.1943
Sameinað þing: 19. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (2431)

78. mál, tilraunastofa til athugunar á hæfileikum manna til starfa

Flm. (Emil Jónsson) :

Herra forseti. Ég leyfi mér hér með að bera fram till. til þál. á þskj. 103, sem felur í sér, að ríkisstj. verði falið að láta athuga möguleika fyrir stofnun tilraunastofu, þar sem prófaðir séu hæfileikar manna til ýmissa starfa (psychoteknisk laboratorium). Hér er ekki farið fram á meira en það, að athugaðir verði möguleikar á því að setja þessa stofnun upp, einnig, hvort menn muni fást til þess að veita henni forstöðu og hver kostnaður muni verða af að reka hana.

Þessar tilraunastofur tíðkast nú mjög í öllum nágrannalöndum vorum, og í Þýzkalandi var það skylda í öllum borgum, sem höfðu vissa íbúatölu, að hafa þess konar tilraunastofur, þar sem menn ættu kost á að fá að láta athuga, hvaða starf mundi helzt vera við þeirra hæfi, og eins til þess að þeir, sem þurfa á starfsmönnum að halda, geti sent þá, sem um störfin kunna að sækja, til þessara stofnana. Við flest störf er þannig háttað, að þau krefjast ákveðinna hæfileika. Og það er svo verk þessara tilraunastofa að athuga, hvaða hæfileikar séu nauðsynlegir fyrir viðkomandi starfi, og greina svo frá, hvernig viðkomandi menn eru búnir þessum hæfileikum. Til dæmis er mér kunnugt um þess konar tilraunastofu, er starfrækt er í Kaupmannahöfn og mun vera rekin þar sem sjálfstæð stofnun, að til hennar eru nú sendir flestir ungir menn, sem ætla sér að leggja stund á iðnnám. Þar eru eiginleikar þeirra prófaðir og reyndir og þeim gert unnt að gera sér grein fyrir, til hvaða iðnstarfs þeir séu bezt hæfir. Bæjarfélagið vill ekki menn til nauðsynlegra starfa, nema viðkomandi umsækjandi sé áður látinn ganga undir próf í þessari stofnun. Svipað er fyrirkomulagið í Noregi, nema þar er þessi stofa tengd iðnskólanum eða sem nokkurs konar forskóli að iðnskólanum. Þessi forskóli býr menn undir iðnnám í ½ ár til 3/4 úr ári. Um leið og nemendur eru teknir inn í skólann, eru þeir prófaðir á sama hátt og áður er frá skýrt. Ég átti einnig kost á að sjá þessa stofnun, og fullyrtu forstöðumenn, að hún hefði borið mjög góðan árangur.

Hér á landi hefur löngum verið dregið dár að þessum stofnunum, því að menn hafa álitið ómögulegt að vega og meta eiginleika manna. Það er að vísu alveg rétt, að til eru þeir eiginleikar, sem ekki er gott að meta, en hins vegar eru svo margir þeirra, sem hægt er að kanna, að alls staðar þar, sem þessum stofnunum hefur verið komið á fót, hafa þær unnið sér hylli, jafnt meðal þeirra, sem undir prófin hafa gengið, og eins hjá hinum, sem starfanna áttu að njóta. Hér á landi eru ekki að vísu margir menn, sem eru færir að veita slíkri stofnun forstöðu, en þeir munu þó vera til. Lítils háttar var hér gerð tilraun með þess konar stofu, og það, sem reynt hefur verið, hefur gefið góðan árangur.

Ég tel, að þó að þessi till. verði hér samþ., ætti hún ekki að þurfa að hafa í för með sér nein fjárútlát að ráði, og ég tel hana liggja svo augljóst fyrir, að tæplega sé þörf á að vísa henni til n., en ég mun þó ekki setja mig upp á móti því, ef Alþ. vill svo vera láta. Till. þessi til þál., sem hér er borin fram, felur ekki annað í sér en áskorun til Alþ. um, að athugun verði látin fara fram á þessu máli og það undirbúið undir næsta Alþingi.