18.10.1943
Neðri deild: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 411 í C-deild Alþingistíðinda. (2445)

94. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Garðar Þorsteinsson:

Við lauslega athugun hef ég komizt að þeirri niðurstöðu, að telja verði þetta varhugavert mál að því leyti, sem hér er farið út fyrir hin almennu ákvæði, er um hafnir gilda. Hér er sem sé gengið inn á nýjar brautir, sem ég tel vafasamt, að séu réttmætar, og eru aðallega fólgnar í því að leggja kvaðir og skyldur á menn, sem eiga byggingar og mannvirki á Siglufirði, og skylda þá til að gera tilteknar framkvæmdir á sjálfs sín kostnað. Þess ber og að gæta, að það kemur ekki fram í frv., hvað þessar framkvæmdir muni kosta, og er látið nægja að taka fram, að vitamálastjóri hafi gert áætlun um verkið. Mér hefði fundizt eðlilegt, að hv. d. hefði verið skýrt frá því, hvað kostnaðurinn hefði verið áætlaður, svo að þm. hefðu getað gert sér grein fyrir, hversu margar milljónir gert væri ráð fyrir, að hér ætti að leggja fram á ekki meira en 10 árum.

Ástæðan, sem á að vera veigamest, er sú, að Siglufjarðarhöfn grynnist um 5 cm á ári. En hvers vegna grynnist höfnin? Ekki er það lóðareigendum að kenna, heldur því, að bæjarstj. Siglufjarðar hefur verið svo forsjál að hafa haft frárennsli í innri höfnina. M. ö. o., borgararnir fylla sjálfir upp höfnina um 5 cm á ári. Ég hefði álitið, að nær hefði verið að byrja á því að leiða frárennslið frá innri höfninni. Ég þori reyndar ekki að fullyrða, að frárennsli í innri höfnina sé frá öllum bænum, en það er áreiðanlega frá miklum hluta bæjarins, og það veit hv. flm. vel, út af máli, sem Tynæs á í við Siglufjarðarbæ vegna þess, hvern kostnað hann hefur haft af dýpkun fram af lóð sinni.

Í síðustu málsgr. 5. gr. segir svo: „Hafnarsjóður á allt það land, sem flýtur yfir með stórstraumsfjöru“. Ég held, að það sé algert nýmæli í l., ef fara á að ákveða, að bær eða sveit eigi allt land, sem upp kemur með stórstraumsfjöru, því að það er viðurkennd regla, að landeigendur eigi allt það land, sem upp kemur með stórstraumsfjöru.

Ég hafði álitið, að allir bryggjuhafar á Siglufirði væru leigutakar, en nú segir í grg.: „Nú hagar svo til, að mikill hluti lóða að sjó er í eign eða eigu einstaklinga.“ — En ef svo er, að nokkur hluti lóðanna sé í eign einstaklinga, þá kemur ekki til mála að setja í l., að hafnarsjóður eigi það land, sem kemur upp úr um fjöru. Slíkt væri algert brot á öllum gildandi l., og til þess þyrfti þá eignarnámsheimild. En ef skilja á þetta svo, að það sé bókfærsluatriði milli bæjarsjóðs og hafnarsjóðs og fullt samkomulag um það þeirra í milli, þá þarf ekki um það neitt lagaákvæði. Rísi bærinn hins vegar á móti hafnarsjóði og vilji ekki láta landið af hendi, þá þarf eignarnámsheimild. Það er því ekki hægt að setja svona ákvæði í l., og bendi ég á þetta til athugunar fyrir hv. sjútvn.

Svo kemur aðalatriði frv., að leggja á landeigendur eða leigutaka þær kvaðir, að láta gera fyrirstöðuþil framan við lóðir sínar. Hv. frsm. minnist ekki á, hvað þetta mundi kosta. Í grg. segir: „Nú hagar svo til, að langflestar söltunarstöðvar við innri höfnina eru mjög úr sér gengnar, þar sem viðhald af eðlilegum orsökum hefur verið af skornum skammti síðustu 3–4 ár“. — Hverjar eru þessar eðlilegu orsakir? Þær, að bryggjueigendur hafa engar tekjur haft af þessum fasteignum undanfarin ár, ekki einu sinni til þess að geta haldið þeim við. Samt á með þessum l. að skylda hvern þeirra til að leggja tugi eða ef til vill hundruð þúsunda kr. til að byggja þær upp að nýju.

Í grg. segir: „Allir aðilar, sem hlut eiga að máli, eru sammála um, að vegna þess, hve höfnin er orðin grunn og heldur áfram að grynnast af fram- og niðurburði í höfnina, sé brýn þörf skjótra aðgerða“. Þetta er að vissu leyti rétt, en ég vil þó vefengja það, að nokkur bryggjueigandi óski þess, að þessar aðgerðir verði framkvæmdar, eins og nú standa sakir. Margir af þessum mönnum hafa orðið að greiða stórfé í staurabryggjur undir síldarsöltunarstöðvar. Svo á að skylda þá til að rífa þetta allt niður, láta síðan gera þil fyrir framan og fylla svo upp. Þó að þetta væri að vísu æskilegt út af fyrir sig, þarf enginn að segja mér, að menn, sem hafa lagt í að reisa söltunarstöð, séu ásáttir um að rífa hana niður aftur, og ég skora á hv. flm. að koma með yfirlýsingar varðandi þetta frá nokkrum söltunarstöðvaeigendum. Það er sitt hvað að hugsa sér, að þetta verði gert einhvern tíma í framtíðinni, eða skylda menn til að gera það á næstu 10 árum, þegar vitað er, að atvinnurekstur sá, sem í hlut á, síldarsöltunin, ber sig hvergi nærri. Það er von, að bæjarstj. vilji hafa hönd í bagga um það, ef fara á að rífa bryggjur, enda er það sjálfsagt, en að skylda menn til að ráðast í slíkar framkvæmdir á eigin kostnað á einum 10 árum, það getur ekki komið til mála. Ég vil því vona, að hv. sjútvn. athugi málið vel, áður en hún samþ. að leggja slíkar kvaðir á Siglfirðinga.