18.10.1943
Neðri deild: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (2446)

94. mál, hafnarlög fyrir Siglufjarðarkaupstað

Flm. (Áki Jakobsson) :

Út af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði, vil ég endurtaka það, sem ég tók fram í fyrri ræðu minni, að ég er ekki viss um, að þetta sé heppilegasta lausnin, og tel það einmitt verk n. að athuga þetta sérstaklega. Hins vegar er hæpið að vísa bæjarstj. á að ganga til samninga við stóran hóp manna, sem kunna að vera alveg ósammála sín á milli, í stað þess að setja tiltekin ákvæði, sem menn yrðu að beygja sig undir. Ég held, að lítill árangur yrði af þeirri aðferð og hætt við, að málið yrði þá aftur að fara til Alþ. En ríkisstj. verður hins vegar að hafa hönd í bagga um það, að vald bæjarstj. verði ekki of mikið eða að ekki verði gengið á rétt þessara manna.

Um orð hv. 2. þm. Eyf. er það að segja, að þau voru að mestu reist á þekkingarleysi. Út af því, sem hann sagði um kostnaðarhliðina, get ég játað það, að ég veit ekki, hver kostnaðurinn mundi verða, og ég hef ekki séð áætlanir vitamálastjóra um það, en ég býst við, að bæjarstj. mundi senda þessar áætlanir, ef þess yrði óskað. Hún getur ekki haft neina ástæðu til að neita að láta þessar upplýsingar í té, og þarf því ekki að gera neitt veður út af því. Hitt er annað mál, hvort ráðast ætti í þessar framkvæmdir nú þegar eða síðar. En auðvitað verður að sjá svo um, að þessi kostnaður komi jafnt niður á alla, kostnaðinum verði jafnað niður á menn undir eftirliti vissra stjórnarvalda, og væri þá langeðlilegast, að vitamálastjóri ákvæði þá upphæð, sem hver einstakur ætti að borga.

Um það, hversu höfnin grynnist ár frá ári, talaði hv. þm. af algerðu þekkingarleysi. Hefði honum verið innan handar að fá upplýsingar hjá mér um þetta atriði. Það er að vísu rétt, að Siglufjarðarbær gerði þá villu að leggja skólpræsi út í innri höfnina, en veit ekki hv. þm., að bærinn hefur lagt upp undir 100 þús. kr. í kostnað til lagfæringar á þessu? Sem sagt, eina leiðin til þess að koma í veg fyrir þennan framburð, er sú, að byggja fyrirstöðuþil, eins og getið er um í 6. gr. Ég álít, að það sé ekkert vit í að taka eingöngu tillit til útgerðarmanna og lóðareigenda í sambandi við þessar framkvæmdir, eins og virðist helzt vera stefna hv. 2. þm. Eyf. í þessu máli. Siglufjörður hefur um 4 þús. íbúa, sem eiga afkomu sína undir því, að sæmileg lendingarskilyrði séu þar, auk þess, að þar er stærsta síldarútvegsstöð landsins, og það er hart, ef Alþ. ætlar að taka meira tillit til þessara 20–30 lóðareigenda en allra þeirra landsmanna, sem afkomu sína eiga undir síldarútveginum á Siglufirði. Alþ. verður að taka tillit til hagsmuna heildarinnar og jafnframt sjá um, að ekki sé gengið um of á rétt þeirra einstaklinga, sem þarna er um að ræða. Það hefur aldrei verið farið fram á það af bæjarstj., að réttur þessara einstaklinga yrði fyrir borð borinn, en bæjarstj. vill, að þessir einstaklingar, sem koma til með að eignast stórkostleg verðmæti vegna framkvæmda bæjarfélagsins, verði látnir borga nokkurn hluta þeirrar verðmætaaukningar, sem þarna er um að ræða. Hvort 6. gr. sé sanngjörn, það er mál, sem ég vil ekkert fullyrða um, en vænti þess, að það fáist betur úr því skorið með þeirri afgr., sem málið fær í n. og á þingi. Þá er atriðið um það, „að hafnarsjóður eigi allt það land, sem flýtur yfir með stórstraumsfjöru“. — Það er alveg rétt, að þetta ákvæði er nýlegt ákvæði og í fyrsta skipti tekið upp í þetta frv., en það er næsta skrítið, ef þessi hv. þm., sem hefur setið á allmörgum undanförnum þingum, er nú fyrst að reka augun í þetta, því að þetta ákvæði mun vera til í nokkuð mörgum frv. af þessu tagi. En þetta virðist benda til þess, að hv. þm. hafi ekki fylgzt alltof vel með í þessum málum, og ég hef ekki tekið eftir því, að þessi hv. þm. hafi gert aths. við þetta ákvæði, þegar það hefur komið fram áður í frv. Það má auðvita deila um réttlæti slíks ákvæðis, en það er enginn vafi á því, að gömlu ákvæðin, um það að landeigandi eigi land út í stórstraumsfjöruborð, getur ekki átt við þar, sem um þröngar hafnir er að ræða, og ég býst við því, að þegar þessi ákvæði hafa verið samþ. fyrir allar hafnir, þá hafi það verið gert með tilliti til þess, að landareign var yfirleitt miðuð við stórstraumsfjöruborð. En það getur auðvitað ekki gengið, að þingið láti þetta úrelta ákvæði gilda, þegar um hafnir er að ræða. En þetta er atriði, sem hv. sjútvn. mun athuga og bera það saman við önnur hliðstæð l., sem nýlega hafa verið samþ. hér á hv. Alþ.