18.10.1943
Neðri deild: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í C-deild Alþingistíðinda. (2484)

97. mál, flugvellir, flugvélaskýli og dráttarbrautir fyrir flugvélar

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. í framsöguræðu minni fyrir þessu máli gerði ég allýtarlega grein fyrir því, sem fyrir okkur flm. vakti með flutningi þessa máls, og jafnframt skýrði ég einstök ákvæði þess, og tel ég þess vegna ekki þörf á að fara frekari orðum um frv. sjálft. En út af þeim orðum, sem féllu hér hjá hv. þm. V.-Sk., vildi ég segja nokkur orð.

Þessi hv. þm. taldi, að þetta mál væri mjög borið fram að ófyrirsynju, þar sem ekkert hefði verið gert til undirbúnings því, en jafnframt viðurkenndi hv. þm., að hér væri um mjög gagnlegt mál að ræða, sem vissulega bæri að gefa fullan gaum í framtíðinni. Ég skal nú taka undir það með hv. þm., að þetta mál hefur ekki fengið þann undirbúning, sem við flm. á síðasta þingi ætluðumst til, að það hefði fengið nú á þessu stigi málsins. Hins vegar verða ekki réttlætt þau ummæli þessa hv. þm., að málið hafi engan undirbúning fengið. Það er þá þess fyrst að gæta, að mörg undanfarin ár hefur Flugfélag Íslands, sem hefur eiginlega verið eini aðilinn í þessu landi, er hefur látið sig þessi mál verulega skipta, látið fara fram rannsókn á því, hvar í landinu heppilegast væri að hafa flugvelli, séð frá því sjónarmiði, hvað bezt hentaði samgöngumálunum í heild. Í sumar hefur flugfélagið haldið þessum rannsóknum áfram, og þeir staðir, sem hér eru teknir upp sem lendingarstaðir flugvéla, eru teknir upp í samráði við flugfélagið á grundvelli þeirra athugana, sem það hefur látið fram fara í þessum efnum. Ég get þess vegna ekki tekið undir þau ummæli hv. þm. V.-Sk., að málið sé ekkert undirbúið, og hef ég þegar fært rök að því gagnstæða. Að vísu er þessum undirbúningi ekki komið á þann veg, sem við flm. höfðum óskað, þegar við fengum samþ. þáltill. á síðasta þingi, þar sem gert var ráð fyrir því, að fram mundi fara nákvæm og ýtarleg rannsókn sem allra fyrst í þessu efni. Ég tel óþarft að fara fleiri orðum um þessa staðhæfingu hv. þm. V.-Sk., en vil ítreka það, að það er skoðun okkar flm., að þetta mál hafi fengið þann undirbúning, að það sé tímabært að hefjast handa um setningu löggjafar í svipuðu formi og hér er lagt til í þessu frv. Hitt er svo annað mál, að málið verði frekar athugað í n. og reynt verði að leita að því formi, sem heppilegast er og líklegast til samvinnu.

Hv. flm. V.-Sk. sagði, að það hefði ekki verið leitað álits flugmálaráðunauts ríkisins um þetta frv., og taldi rétt, að til hans væri leitað. Þetta hefur að vísu ekki verið gert, en það hefur verið leitað til þeirra manna, sem forustu hafa haft í þessum málum undanfarin ár. — Ég get svo verið hv. þm. V.-Sk. sammála um það, að það sé rétt að senda þetta mál til álits flugmálaráðunauts ríkisins, þegar það kemur til n. Það er fjarri því, að fyrir okkur flm. vekti að sniðganga þann embættismann.

Það er ómögulegt að ætlast til, að upphaflega hafi flugvellir verið gerðir alls staðar þar, sem þeir hljóta að koma í framtíðinni. Þegar vegal. voru sett, vantaði fjölmarga vegi, sem komu síðar. Á síðasta Alþingi voru fjölmargir nýir þjóðvegir teknir upp í þjóðvegatölu. Eftir þörfum þjóðarinnar í flugmálum hlýtur að verða bætt við mörgum nýjum flugvöllum. Það er þess vegna misskilningur, ef hv. þm. telja það móðgun, ef í héruðum þeirra verða ekki þegar gerðir flugvellir á þessu stigi málsins. Það þarf rannsókn í framtíðinni, hvar flugvelli ber að gera. Með þessari byrjun á að leggja hornsteininn að því, sem á að verða í framtíðinni.

Mér þykir miður, að hv. þm. V.-Sk. lét falla þau ummæli um vegamálastjóra, sem hann viðhafði. Vil ég aðeins mótmæla því, að þessi embættismaður hafi vanrækt sín störf. Hv. þm. V.-Sk. sagði það fráleitt að setja flugmálin undir umsjón vegamálastjóra. Í 6. gr. er gert ráð fyrir, að vegamálastjóri fái sérstaka starfsmenn til þess að annast þessi mál. Mætti starfssvið þessa embættismanns rýmkast sem þessu nemur. Vil ég endurtaka, að lagt er til, að mál þessi séu sett undir vegamálastjóra, af því að þetta er mjög skylt þeim mannvirkjum, sem heyra undir hann. Mér sýnist það nokkuð þungt í vöfum, ef strax á að setja á stofn flugmálaráðuneyti, þegar til er annað embætti, sem beint liggur við, að þessi mál heyri undir.

Ég vil bæta því við, að flm. eru til viðræðna við n. þá, sem um málið fjallar. Kann að vera að margt í till. þarfnist leiðréttingar. Kröfur tímans eru þær, að flugsamgöngurnar verði teknar inn í heildarkerfi samgangnanna, og er nauðsynlegt, að það verði sem allra fyrst.