18.10.1943
Neðri deild: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í C-deild Alþingistíðinda. (2488)

97. mál, flugvellir, flugvélaskýli og dráttarbrautir fyrir flugvélar

Sveinbjörn Högnason:

Það voru aðeins örfá atriði í ræðu hv. þm. N.-Ísf., sem ég vildi athuga. Út af því, sem hann vitnaði í ummæli mín, vil ég taka fram, að ég gerði ekkert annað en segja það sama og flm. gera í grg. sinni, og vísa ég á hana. Þar segja þeir, að sá undirbúningur, sem þeir töldu óumflýjanlegan, hafi ekki verið framkvæmdur. En þetta er ekki rétt samkv. skýrslu hæstv. atvmrh. Hitt er gefinn hlutur, og það geri ég ráð fyrir, að öllum sé ljóst, að þörf er frekari undirbúnings og athugunar, að því er stæði fyrir flugvelli snertir. Það þarf stórfelldan undirbúning, því að ekki munu líða mörg ár, þar til flugferðir verða stór liður í samgöngum okkar. Hv. þm. N.-Ísf. taldi ekki hægt að gera í upphafi ráð fyrir flugvöllum alls staðar þar, er þeir hlytu að koma síðar. Ég hygg, að ekki verði um það deilt, að flugvellir eigi í upphafi að koma miklu víðar en gert er ráð fyrir í upphaflega frv. Víða eru þeir að heita má sjálfgerðir frá náttúrunnar hendi, og ég hygg, að þegar flugsamgöngur verði komnar á, muni fá héruð sætta sig við að verða alveg afskipt. Það hlýtur að vera ljóst frá upphafi.

Hv. þm. N.-Ísf. harmaði, að ég hafði látið falla óviðeigandi ummæli um vegamálastjóra, en ég ætla að endurtaka það, að þessi embættismaður er ofhlaðinn störfum. Því verður ekki hnekkt. Og þá hljóta einhver þeirra að vanrækjast. Ég hygg, að vegamálastjóri hafi enga sérstaka þekkingu á flugmálum frekar en hver annar. Hvers vegna ætti að setja þau undir stjórn sérfróðs manns, sem lyti aftur stjórn vegamálastjóra? Það gæti orðið fjötur um fót í málinu, ef sá, sem framkvæmdirnar hefði á hendi, væri ekki fullkomlega frjáls gerða sinna. Enda hygg ég það enga bót að slengja saman mörgum greinum, því að þótt hv. þm. N.-Ísf. harmi ummæli mín um vegamálastjóra, þá er það nú svo, að ekki er heppilegt, að sami maður gegni mörgum mismunandi störfum: (SigfS: Það ætti ekki að hafa prest í mjólkursölunefnd). Ég held, að þessi sami hv. þm. (SigfS) hafi aldrei treyst sér til að vera prestur neins staðar. (SigfS: Það er alveg satt!) Ég held, að menn hafi almennt sérstaka menn við þessi störf, enda er það æskilegast. Samgöngur okkar fara áreiðanlega meira upp í loftið á næstu árum en orðið er, og undir það þurfum við að búa okkur.