06.09.1943
Efri deild: 10. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

30. mál, einkasala á tóbaki

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Eins og dm. er kunnugt, hefur þetta frv. legið fyrir Nd. og verið afgreitt þar í dag í gegnum allar umr. með afbrigðum. Hér ræðir um heimild fyrir Tóbakseinkasölu ríkisins til að hækka álagningu þá, sem nú er á tóbaki, úr 10–50% í 10-150%. Það má ekki teljast heppilegt að ákveða álagningu tóbaksvarnings svo naumt sem verið hefur, og því hefur stj. talið rétt að leita heimildar til þess að leggja á sumar tegundir allt að 150%, eftir því sem ástæða þykir til í hvert sinn. Hér ræðir um heimild, sem lögð verður undir mat þeirra manna, sem með þetta eiga að fara, en ekki er víst um að svo stöddu, að hve miklu leyti heimildin verður notuð í raun og veru.

Ég vil fara fram á það við hv. d., að frv. verði ekki sett í n. og að það verði afgreitt til fulls í dag. Það er óheppilegt um mál eins og þetta, að það liggi lengi frammi, almenningi til sýnis, áður en það nær staðfestingu.