01.11.1943
Neðri deild: 40. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í C-deild Alþingistíðinda. (2493)

128. mál, iðnskólar

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég vil láta það sjónarmið koma fram við þessa umr., einkum þar sem frv. mun ekki fara til n., að ég álít, að iðnaðarmenn séu svo mikilsverð stétt, að þeir eigi siðferðilegan rétt á, að ríkið beri allan kostnað

við iðnskólana eins og það ber kostnað við embættismannaskóla, bændaskóla, sjómannaskóla o. s. frv. Ég hygg, að þegar málið er krufið til mergjar, sé nám þessarar stéttar sízt þýðingarminna en hinna fyrir þjóðfélagið. Mér er það ljóst, hversu vel sem gengur nú, að þegar fram í sækir, verður erfitt að sameina iðnaðarstéttina um það að leggja fram 1/5 kostnaðar. Ég tek orð hv. flm. trúanleg um það, að nú séu þeir menn fúsir til að leggja allmikið í sölurnar. Mig uggir, að bráðar framkvæmdir þurfi í húsnæðismálinu. Hér í Reykjavík er það ástand skólans svo, að það háir mjög bæði nemendum og kennurum og verður ekki við unað til lengdar. T. d. er skólastjórastofan, skrifstofan og kennarastofan eitt og sama herbergið og haft fyrir allt mögulegt, og lætur að líkum, hve kennarar njóta sín þar að ræða sín mál og hvílast milli kennslustunda. Ég hef ekki hugsað mér að gera brtt., þó að mér þætti eðlilegt, að ríkið stæði undir kostnaði við menntun svo þýðingarmikillar stéttar sem iðnaðarstéttin er.