08.11.1943
Neðri deild: 42. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í C-deild Alþingistíðinda. (2497)

128. mál, iðnskólar

Skúli Guðmundsson:

Ég hef veitt því athygli, að í 5. gr. frv., 1. kafla, er ákvæði um, hvernig stofnkostnaður iðnskóla skuli greiddur, og er þar gert ráð fyrir því, að stofnkostnaður viðurkenndra iðnskóla skuli greiddur að 2/5 hlutum af ríkinu, en að öðru leyti af öðrum aðilum. — Nú minnist ég þess, að t. d. í l. um héraðsskóla eru ákvæði um greiðslu ríkisins til stofnkostnaðar, og þar er tekið fram, að stofnkostnaður greiðist eftir því, sem fé er veitt til í fjárl. En í þessari gr. frv. er ekki neitt tekið fram um þetta. Nú vildi ég beina þeirri fyrirspurn til hv. iðnn., hvort hún gæti ekki á það fallizt að setja inn í þessa gr., að stofnkostnaður greiðist þannig eftir því, sem fé er veitt til í fjárl., og virðist það vera í samræmi við það, sem er í öðrum l. um framlag til stofnkostnaðar skóla. Tel ég, að það eigi betur við og sé viðeigandi að hafa þetta einnig í þessum l. Ef n. vildi taka þetta til athugunar og flytja um það brtt., tel ég það gott, en annars mun ég leyfa mér að leggja fram skriflega brtt. um þetta atriði.